Hoppa yfir valmynd
23. september 2013 Forsætisráðuneytið

A-495/2013. Úrskurður frá 23. september 2013

Úrskurður

Hinn 23. september 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-495/2013 í málinu ÚNU 12120001.

Kæruefni

Með tölvupósti, dags. 2. desember 2012, kærði [A], drátt á svörum embættis ríkislögmanns við ósk hennar, dags. 29. október, um aðgang að fyrirliggjandi gögnum varðandi samskipti embættisins og velferðarráðuneytisins sem tengdust máli hennar á hendur velferðarráðuneytinu.

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti embætti ríkislögmanns framkomna kæru með bréfi, dags. 4. desember 2012. Var athygli embættisins vakin á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, bæri stjórnvaldi að taka, svo fljótt sem verða mætti, ákvörðun um það hvort það yrði við beiðni um aðgang að gögnum. Hefði beiðni kæranda ekki þegar verið afgreidd var því beint til embættisins að taka ákvörðun svo fljótt sem verða mætti og birta kæranda og úrskurðarnefndinni. Kysi embættið að synja um aðgang að umbeðnum gögnum var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra, auk þess sem embættinu var þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæru og rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Kæranda var sent afrit þessa bréfs. 

Þann 10. desember 2012 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svar embættis ríkislögmanns. Þar kom fram að upprunaleg beiðni kæranda um aðgang að gögnum hefði verið send velferðarráðherra 26. október 2012. Þremur dögum síðar, þann 29. október, hafi  sömu beiðni verið beint til embættis ríkislögmanns. Embættið hafi í framhaldi af því tilkynnt velferðarráðuneytinu að gengið yrði út frá því að að ráðuneytið myndi svara umræddu erindi á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kemur fram í svari embættisins að hér sé um að ræða þá aðstöðu að embætti ríkislögmanns hafi svarað beiðni ráðuneytis um álit og því verði að líta svo á viðkomandi ráðuneyti sé það stjórnvald sem beiðni um upplýsingar verði beint að, hvort sem er á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Þann 3. janúar 2013 barst úrskurðarnefndinni bréf frá embætti ríkislögmanns, ásamt afriti af bréfi velferðarráðuneytisins til kæranda, dags. 21. desember, þar sem talin eru upp þau gögn sem ráðuneytið hefði afhent kæranda, um samskipti ráðuneytisins við embætti ríkislögmanns, varðandi mál kæranda. Kemur fram að embættið telji að kærandi hafi með þessu fengið þau gögn sem beiðni hans laut að.

Þá hefur úrskurðarnefndinni borist afrit af bréfi embættis ríkislögmanns til kæranda, dags. 7. janúar 2013, um að hjá því séu ekki til önnur gögn um samskipti velferðarráðuneytis og embættisins, en fram komi í upptalningu í fyrirliggjandi bréfum ráðuneytisins og embættisins. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi kæranda bréf, dags. 8. janúar, og óskaði þess að hann upplýsti nefndina um hvort hún teldi afgreiðslu embættisins fullnægjandi. 

Svar kæranda barst úrskurðarnefndinni, með bréfi dags. 17. sama mánaðar, þar sem þess var óskað að ríkislögmaður gerði frekari grein fyrir samskiptum sínum við velferðarráðuneytið. Kærandi óskaði eftir upplýsingum um hvort að ríkislögmaður hefði undir höndum tölvupósta, minnisbréf eða bréf sem hafi verið póstlögð vegna umrædds máls. 

Niðurstaða

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar velferðarráðuneytið tók hina kærðu ákvörðun voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996.

Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessu leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt að teknu tilliti til þeirra efnisreglna um upplýsingarétt sem í gildi voru þegar hún var tekin. Meðferð úrskurðarnefndarinnar á kærumálinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju laga, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram.

Upphaflega laut kæra sú sem hér er til meðferðar að drætti embættis ríkislögmanns á því að svara beiðni kæranda um gögn er vörðuðu samskipti embættis ríkislögmanns og verlferðarráðuneytitins sem tengdust máli kæranda á hendur velferðarráðuneytinu. Eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók kæruna til meðferðar var beiðnin afgreidd, sbr. bréf ríkislögmanns til kæranda, dags. 7. janúar 2013, þar sem vísað er til afgreiðslu velferðarráðuneytisins frá 21. desember 2012 þar sem kæranda var veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur þegar fjallað um þá afgreiðslu ráðuneytisins, sbr. fyrri úrskurð nefndarinnar frá 25. júní 2013 í máli nr. A-488/2013. Var það niðurstaða nefndarinnar, þar sem velferðarráðuneytið hefði þegar afhent gögnin, og ekki lægi fyrir synjun um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að vísa bæri frá nefndinni kæru á hendur ráðuneytinu. Í máli þessu liggur fyrir fullyrðing ríkislögmanns um að ekki séu til frekari gögn um samskipti embættis hans við velferðarráðuneytið varðandi umrætt mál kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til þess að draga þá staðhæfingu í efa. 

Eins og verksvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað í lögum er það hennar hlutverk að skera úr ágreiningi sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að fyrirliggjandi gögnum, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kæra máls þessa laut upphaflega að því að embætti ríkislögmanns hefði ekki svarað beiðni kæranda um aðgang að tilteknum gögnum. Erindi kæranda hefur nú verið svarað og hafa honum verið afhent umbeðin gögn. Með vísan til þessa liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds á afhendingu gagna í skilningi upplýsingalaga og er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

Úrskurðarorð

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru [A], dags. 2. desember 2012, á hendur ríkislögmanni.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir                

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta