Hoppa yfir valmynd
14. október 2013 Forsætisráðuneytið

A-498/2013. Úrskurður frá 10. október 2013

ÚRSKURÐUR

Hinn 10. október 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-498/2013.

 

Kæruefni

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2013, kærði A, f.h. erlendra tryggingarfélaga, þá ákvörðun Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 29. janúar, að synja honum um aðgang að skýrslu B, fyrrverandi starfsmanns C sem gefin var fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 2. október 2009. Kærandi krefst aðgangs að gögnunum.

Málsatvik

Kærandi sendi Þjóðskjalasafni Íslands beiðni um afhendingu nokkurs fjölda gagna með bréfi, dags. 5. júlí 2012, með vísan til ákvæðis 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 9. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985 og 5. mgr. 17. gr. laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða nr 142/2008 með síðari breytingum.

Beiðni kæranda, dags. 5. júlí 2012, sem var í mörgum liðum, var afgreidd af Þjóðskjalasafni Íslands með synjun, dags. 29. ágúst, að öðru leyti en hvað varðar beiðni um afhendingu skýrslu B, fyrrverandi starfsmanns C sem gefin var fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 2. október 2009 og er til umfjöllunar í máli þessu. Þjóðskjalasafn Íslands synjaði um afhendingu skýrslunnar með bréfi, dags. 29. janúar 2013. Í synjun Þjóðskjalasafns Íslands kemur m.a. fram:

„Þjóðskjalasafn hefur tekið erindi yðar til afgreiðslu og yfirfarið ofangreindar skýrslur. Við afgreiðsluna hefur Þjóðskjalasafn haft til hliðsjónar fimm úrskurði úrskurarnefndar um upplýsingamál sem lúta að aðgangi að skýrslum einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Um er að ræða úrskurð í máli nr. A-387/2011 sem kveðinn var upp 25. nóvember 2011, úrskurð í máli nr. A-398/2011 sem kveðinn var upp 29. desember 2011, úrskurð í máli nr. A-419/2012 sem kveðinn var upp 19. júní 2012, úrskurð í máli nr. A-443/2012 sem kveðinn var upp 29. ágúst 2012 og úrskurð í máli nr. A-458/2012 sem kveðinn var upp 22. nóvember sl.

Um umbeðna skýrslu er þetta að segja:

Skýrsla B fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, dags. 2. október 2009, er 97 blaðsíður að lengd. B starfaði í fjárfestingarbankadeild C í Lundúnum í október 2008 þegar íslensku bankarnir féllu. Í skýrslunni fjallar B á opinskáan hátt um samskipti sín við fulltrúa stjórnvalda, m.a. þáverandi forsætisráðherra. Þá greinir hann frá áliti sínu á nafngreindum einstaklingum úr íslensku fjármálalífi og úr stjórnsýslunni, og persónulegu mati sínu á starfsemi íslensku bankanna í aðdraganda bankahrunsins og viðbrögðum og aðgerðum íslenskra stjórnvalda við vanda bankanna. Að teknu tilliti til þerra lagaumgjörðar sem gilti um skýrslugjöfina fyrir rannsóknarnefnd Alþingis telur Þjóðskjalasafn, að með tilliti til hagsmuna B falli þessar upplýsingar undir 1. málsl. 9. gr. núgildandi upplýsingalaga nr. 140/2012, sem tóku gildi 31. desember sl., um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, sem er samhljóða ákvæði 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sem felld voru úr gildi á sama tíma, sbr. 35. gr. laga nr. 140/2012. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar telur Þjóðskjalasafn jafnframt að takmarkanirnar eigi við um skýrsluna í heild en ekki aðeins um einstaka hluta hennar.

Að þessu virtu og með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 er Þjóðskjalasafni óheimilt að veita aðgang að framangreindri skýrslu.“

Í kæru málsins, dags. 28. febrúar 2013, kemur eftirfarandi m.a fram:

„Synjun Þjóðskjalasafns Íslands var byggð á því að skýrsla sú sem óskað var eftir innihéldi upplýsingar sem einkahagsmunir B á grundvelli 1. ml. 9. gr. laga nr. 140/2012 takmörkuðu almennan aðgang að. Upplýsingabeiðandi er í ómögulegri aðstöðu til þess að meta efni skýrslunnar, en tók þó fram, í beiðni sinni um aðgang að upplýsingum, að kæmi í ljós að hluti þeirra gagna eða hluti framburða einhverra einstaklinga væri takmörkum háð væri farið fram á aðgang með hliðsjón af 7. gr. þágildandi upplýsingalaga nr. 50/1996, en sama efnisregla felst í 3. mgr. 5. gr. núgildandi upplýsingalaga.

Í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1996 ber að veita aðgang að þess hluta skjals sem takmaraknir á upplýsingarétti eiga ekki við um. Taka verður tillit til þess að þrátt fyrir að stjórnvald telji þær upplýsingar sem ekki eru bundnar takmörkunum það veigalitlar eða í samhengi heildarskjalsins ekki þess eðlis að þær hafi þýðingu eða jafnvel tekur þá afstöðu að efni skýrslunnar á stöku stað lúti ekki þagnarskyldu að stjórnvald geti ekki tekið ákvörðun um að hafna aðgangi að skjalinu í heild samhengisins vegna. Slíkt mat og slík ákvörðunartaka er andstæð lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, þá væri slíkt jafnframt í verulegri andstöðu við tilgang upplýsingalaga.

Þá verður að telja það verulega ólíklegt að í skýrslu sem nái [yfir] 97 blaðsíður sé enginn hluti eða stórir kaflar sem lúti engri þagnarskyldu. Í þessu samhengi er rétt að ítreka það að það er ekki stórnvalds að meta hvort viðtakanda upplýsinganna þyki tilteknar upplýsingar veigalitlar. Þannig geta t.a.m. þær spurningar sem rannsóknarnefnd spurði einstaklinga við skýrslutöku haft mikla þýðingu fyrir upplýsingabeiðanda þó að svörin sem veitt voru kunna að lúta takmörkunum á grundvelli upplýsingalaga, jafnvel geta upplýsingar um ákveðnar grunnstaðreyndir s.s. að viðkomandi einstaklingur hafi verið undirmaður einhvers annars einstaklings hjá vinnuveitanda sínum eða átt í samskiptum við tiltekna aðila á ákveðnu tímabili verið mikilvægar fyrir upplýsingabeiðanda og jafnvel forsenda þess að upplýsingabeiðandi óski eftir gögnunum. Það væri í andstöðu við tilgang upplýsingalaga og samæmist ekki lýðræðishefðum ef að hægt er að synja um aðgang að öllu skjali þegar hluti skjals lýtur þagnarskyldu, burtséð frá því hve mikill hluti skjalsins um er að ræða. Þá gefur texti núgildandi upplýsingalaga ekkert tilefni til þess að hægt sé að takmarka upplýsingagjöf á þennan hátt. Texti laganna er skýr, ef ákvæði 6.[-]10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skal veita aðgang að öðrum hlutum þess. Þessari skyldu er engum takmörkunum háð skv. skýrri orðskýringu sem leggja verður til grundvallar. Hafi löggjafinn ætlað annan skilning til grundvallar hefði honum verið það í lófa lagt að kveða á um slíkt í texta laganna.“

Málsmeðferð

Kæran var send Þjóðskjalasafni Íslands til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. mars 2013, og barst svar við því 18. s.m. Í svari Þjóðskjalasafns Íslands eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram koma í synjun um afhendingu skýrslunnar, dags. 29. janúar, en einnig kemur fram að við afgreiðslu málsins hafi verið lögð áhersla á hinar víðtæku heimildir til upplýsingaöflunar sem rannsónarnefnd Alþingis voru fengnar með lögum nr. 142/2008 í þágu rannsóknar sinnar. Í bréfinu segir m.a. orðrétt:

„Þannig væri í 6. gr. laganna kveðið á um skyldu til að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar og skyldu einstaklinga til að mæta fyrir nefndina til að veita upplýsingar, óháð því hvort þær væru háðar þagnarskyldu, og í 8. gr. laganna væri kveðið á um skyldu til að koma fyrir nefndina til skýrslutöku ef þess væri krafist. Samkæmt því hafði nefndin heimild til að fá aðgang að hvers kyns trúnaðarupplýsingum auk þess sem einstaklingum var skylt að gefa skýrslur fyrir nefndinni. Var jafnframt bent á að í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að framangreindum lögum væri tekið fram að þagnarskylda viki undantekingarlaust fyrir skyldunni til að láta nefndinni í té upplýsingar en slíkt helgaðist af eðli rannsóknarinnar þar sem gera mætti ráð fyrir að erfitt yrði að ná markmiðum frumvarpsins nema með því að nefndin fengi aðgang að hvers kyns trúnaðarupplýsingum.“

Umsögn Þjóðskjalasafns Íslands var send kæranda til athugasemda með bréfi, dags. 2. apríl 2013. Með bréfi, dags. 31. maí, bárust athugasemdir kæranda þar sem fyrri sjónarmið eru áréttuð.

Með bréfi til B, dags. 9. september 2013, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu hans til þess hvort hann teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu, að því er varðar einkahagsmuni hans að veita kæranda aðgang að framangreindri skýrslu sem hann gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Hann svaraði með bréfi, dags. 25. september 2013. Þar segir m.a.:

„Undirritaður vísar til bréfs úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 9. september 2013, þar sem óskað var eftir sjónarmiðum um mál sem rekið er fyrir nefndinni vegna skýrslu sem undirritaður gaf fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 2. október 2009.Aðdragandi þess að ég gaf skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni var sá að vegna starfa minna fyrir bandarískt fjármálafyrirtæki hafði ég þekkingu á ýmsum atriðum sem vörðuðu rannsókn þá sem Alþingi hafði fyrirskipað með lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þær upplýsingar sem ég veitti rannsóknarnefndinni byggðu á gögnum sem ég hafði unnið með og öðlast aðgang að sem starfsmaður umrædds fjármálafyrirtækis. Samkvæmt ráðningarsamningi mínum við bankann og á grundvelli bandarískra laga var ekki ætlast til að ég myndi tjá mig opinberlega um þau málefni sem ég hafði komið að í störfum mínum. 

Mér var beinlínis skylt að koma fyrir rannsóknarnefnd Alþingis til að veita þar skýrslu, sbr. 8. gr. laga nr. 142/2008. Rannsóknarnefndin upplýsti mig ekki um að til þess gæti komið að þær upplýsingar sem ég veitti nefndinni yrðu gerðar opinberar að öðru leyti en því að þær kynnu að verða nýttar við skýrsluskrifin. Á hinn bóginn var mér gerð ljós skylda mín til að að veita upplýsingar þótt þær kynnu að vera „háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja“, sbr. orðalag 3. mgr. 6. gr. laga nr. 142/2008. Ég varð við beiðni nefndarinnar og svaraði öllum spurningum hennar af fyllstu hreinskilni. Mér sýnist reyndar að ekki sé alltaf rétt haft eftir mér í endurriti skýrslunnar, enda var mér aldrei veittur kostur á að lesa það skjal yfir og gera athugasemdir við það sem þar var ritað. Þá eru ýmsar eyður í skýrslunni, en það kann að gefa ranga mynd af setningum því samhengið skortir þá. Ég lít svo á að upplýsingar þær sem ég veitti rannsóknarnefndinni teljist háðar bankaleynd, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, auk þess sem ég er bundinn trúnaði og þagnarskyldu gagnvart fyrrverandi vinnuveitanda mínum, sem er eins og áður segir bandarískt fjármálafyrirtæki. Við þetta bætist að upplýsingar sem ég veitti nefndinni kunna að hafa neikvæð áhrif á atvinnumöguleika mína, bæði á Íslandi og erlendis. Að öllu framangreindu virtu tel ég mér skylt að veita ekki samþykki mitt fyrir því að skjalið sem mál þetta varðar verði gert opinbert.“   

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða 

1.

Eins og rakið er hér að framan lýtur mál þetta að lögmæti synjunar Þjóðskjalasafns Íslands á aðgangi að skýrslu B, fyrrverandi starfsmanns C sem gefin var fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 2. október 2009. Kæranda var gerð grein fyrir synjun Þjóðskjalasafns Íslands með bréfi, dags. 29. janúar 2013. 

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar kærandi óskaði aðgangs skýrslunnar voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996. Þjóðskjalasafn Íslands tók hina kærðu ákvörðun aftur á móti eftir gildistöku hinna nýju laga eða tæpum sjö mánuðum eftir að beiðnin var sett fram. Því fer um mál þetta eftir efnisákvæðum þeirra laga en átalinn er sá dráttur sem varð á afgreiðslu málsins.  

Heimild kæranda til að kæra synjun Þjóðskjalasafns Íslands til úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að finna í 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

2.

Kærandi byggir heimild sína til afhendingar skýrslunnar einkum á 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, 9. gr. laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þjóðskjalasafn Íslands byggir synjun sína um aðgang einkum á  9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008.

Um störf rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað í lögum nr. 142/2008. Í 5. mgr. 17. gr. þeirra laga segir orðrétt: „Að rannsókn nefndarinnar lokinni skulu gögn, sem aflað hefur verið vegna rannsóknarinnar, færð á Þjóðskjalasafn Íslands. Um aðgang að þeim fer samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.“

Tilvitnuðu ákvæði var bætt við frumvarp til laganna við þinglega meðferð þess að tilstuðlan allsherjarnefndar. Í áliti nefndarinnar sagði m.a.:

„Þá komu einnig fram ábendingar fyrir nefndinni um að í frumvarpinu sé ekki fjallað um hvernig háttað skuli varðveislu þeirra gagna sem aflað er vegna rannsóknarinnar og aðgangi almennings að þeim. Nefndin leggur því til að skýrt verði kveðið á um hvernig fari um þessi atriði og leggur til að við 17. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem fjalli sérstaklega um það að gögn skuli færð á Þjóðskjalasafn Íslands að störfum nefndarinnar loknum, sem og að um aðgang að þeim þar fari eftir ákvæðum upplýsingalaga.

Í framangreindu mundi m.a. felast að við ákvörðun Þjóðskjalasafns um veitingu aðgangs að umræddum gögnum yrði að meta hvort rétt væri að takmarka aðgang með vísan til 5. gr. upplýsingalaga um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Um aðgang að gögnum um slík málefni færi einnig eftir 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga þess efnis að takmarkanir á aðgangi að gögnum falli niður 80 árum eftir að þau urðu til. Við ákvörðun Þjóðskjalasafns um veitingu aðgangs að gögnum bæri og að virða ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal ákvæði 7. gr. um sanngirni og meðalhóf.“ (Alþt. 2008-2009, A-deild, bls. 1567-1568.)

Með ákvæði 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 hefur löggjafinn með skýrum hætti kveðið á um að þau gögn sem rannsóknarnefndin aflaði vegna rannsóknar sinnar skuli færð á Þjóðskjalasafn Íslands og að um aðgang að þeim skuli fara eftir ákvæðum upplýsingalaga.

3.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir orðrétt: „Sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. “

Í 1. málsl. 10. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir orðrétt: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“
 
Ákvæði 1. málsl. 9. gr. laganna felur í sér mikilvæga undantekningu á upplýsingarétti almennings skv. 5. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um það hvenær rétt sé að halda upplýsingum leyndum vegna einkahagsmuna einstaklinga. Ýmsar af þeim upplýsingum sem varða einkahagi einstaklinga eru þess eðlis að almennt ber að telja sanngjarnt og eðlilegt að þær fari leynt í skilningi 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Á það til dæmis við um þær upplýsingar sem skilgreindar eru sem viðkvæmar persónuupplýsingar í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í ákveðnum tilvikum veltur það hins vegar á heildarmati á þeim upplýsingum sem um ræðir, gagnvart þeirri meginreglu sem birtist í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og tilgangi hennar. Í slíkum tilvikum verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi einstaklings eða þeir hagsmunir sem meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja.

4.

Sú beiðni um aðgang að gögnum sem hér er til meðferðar lýtur að aðgangi að skýrslu sem varð til við starfsemi rannsóknarnefndar Alþingis sem starfaði á grundvelli laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Við beitingu ákvæðis 9. gr. upplýsingalaga í því máli sem hér um ræðir er til viðbótar við framangreind atriði nauðsynlegt að horfa jafnframt til ákvæða þeirra laga.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 142/2008 var öllum skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fór fram á. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sömu laga var skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að veita upplýsingar þótt þær væru háðar þagnarskyldu. Í 1. mgr. 8. gr. var sérstaklega tekið fram að sérhverjum væri skylt að koma fyrir nefndina til skýrslutöku krefðist hún þess. Brot á þeirri skyldu að veita nefndinni upplýsingar gat skv. 11. gr. varðað refsingu.

Eins og kunnugt er skilaði rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sem gerð var opinber í samræmi við ákvæði IV. kafla laga nr. 142/2008 þar sem birtar voru upplýsingar sem fram komu við skýrslutökur og nefndin taldi nauðsynlegt að almenningur hefði aðgang að. Í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að þagnarskylda nefndarmanna og þeirra er unnu að rannsókninni stóð því ekki í vegi að rannsóknarnefndin gæti birt upplýsingar sem annars töldust háðar þagnarskyldu, ef nefndin taldi slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Í  ákvæðinu kemur fram að nefndin skyldi því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vægju þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut ætti.

Framangreind ákvæði laga nr. 142/2008, sem lúta að víðtækum skyldum einstaklinga til að láta rannsóknarnefnd Alþingis í té upplýsingar eru til þess fallin að hafa áhrif á mat á því hvort sanngjarnt sé, gagnvart þeim einstaklingum sem skýrslurnar veittu, að efni þeirra verði gert opinbert.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur dregið þá ályktun af öðrum málum sem lotið hafa að skýrslugjöf fyrir rannsóknarnefndinni að þeim einstaklingum sem gáfu skýrslur fyrir rannsóknarnefndinni hafi gjarnan verið heitið trúnaði um upplýsingagjöf þeirra. Þótt þetta atriði, eitt og út af fyrir sig, standi ekki í vegi fyrir aðgangi almennings að skýrslunum, sem eins og áður segir ræðst af ákvæðum upplýsingalaga en ekki slíkum almennum yfirlýsingum sem fram hafa komið við skýrslutöku, telur úrskurðarnefndin að við mat á því hvort aðgangur skuli veittur að tilteknum upplýsingum, geti það haft áhrif ef þær hafa verið gefnar í trúnaði og þá einkum þegar ætla má að loforð stjórnvalds um trúnað hafi haft áhrif á upplýsingagjöf og það hvernig þeir einstaklingar sem í hlut áttu völdu að tjá sig um þá þætti er þeir voru spurðir um. Vísast um þetta m.a. til  úrskurðar nefndarinnar frá 22. nóvember 2012 í máli nr. A-468/2012, úrskurðar nefndarinnar frá 29. ágúst 2012 í máli nr. A-443/2012 og úrskurðar nefndarinnar frá 10. nóvember 1997 í máli nr. A-28/1997.

5.

Í skýrslu B, fyrrverandi starfsmanns C, sem gefin var fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 2. október 2009, greinir B frá persónulegri upplifun sinni af samskiptum við fulltrúa íslenskra stjórnvalda, m.a. fyrrum forsætisráðherra og annarra nafngreindra einstaklinga, fjölda nafngreindra einstaklinga úr íslensku fjármálalífi  auk þess sem hann greinir frá persónulegu mati sínu á starfsemi íslensku bankanna í aðdraganda falls þeirra í október 2008 og viðbrögðum og aðgerðum íslenskra stjórnvalda vegna þess vanda. Að teknu tilliti til hagsmuna B telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að efni skýrslunnar falli undir 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Í ljósi efnis skýrslunnar og samhengis hennar eiga takmarkanir á aðgangi að henni við um skýrsluna í heild en ekki aðeins einstaka hluta hennar.

Úrskurðarorð

Synjun Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni A f.h. erlendra tryggingarfélaga, dags. 5. júlí 2012, um afhendingu skýrslu B, fyrrverandi starfsmanns C sem gefin var fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 2. október 2009 er staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir   
         
Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta