Átak í lögreglurannsóknum til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að tillögu innanríkisráðherra að veita fjármunum til tólf mánaða átaks lögreglunnar til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Átakið á að hefjast þegar í stað og verður 47 milljónum króna veitt til verkefnisins. Reynslan af átakinu verður metin fyrir lok ársins og ákveðið þá hvort halda skuli því áfram.
Lögreglan hefur vísbendingar um að alvarleg skipulögð glæpastarfsemi sé að færast í vöxt hérlendis og að alþjóðlegir glæpahringir séu að skjóta hér rótum. Fyrir liggja óyggjandi upplýsingar þess efnis að vélhjólaklúbburinn MC Iceland sé að verða fullgildur klúbbur innan hinna alþjóðlegu vélhjólasamtaka Vítisengla eða Hells Angels (HA) sem Europol hefur skilgreint sem skipulögð glæpasamtök.
Nauðsynlegt er að ráðast í átak til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi og hefja rannsókn af slíkri stærðargráðu að það komi ekki niður á öðrum brýnum verkefnum. Lögreglan telur að sérstök rannsókn á þessum glæpahópum taki 12-18 mánuði og að tiltekinn hópur rannsóknarlögreglumanna þurfi að helga sig henni eingöngu. Jafnframt þyrfti aðkomu sem nemur hálfu stöðugildi löglærðs fulltrúa/saksóknara. Rannsóknin yrði unnin sameiginlega af lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjóra á Suðurnesjum. Jafnframt kæmu að rannsókninni embætti ríkislögreglustjóra og tollstjóra auk annarra stofnana eftir atvikum. Náið samstarf yrði við erlend löggæsluyfirvöld, einkum á Norðurlöndum og við Europol en íslenskur tengslafulltrúi starfar í höfuðstöðvum stofnunarinnar.