Evrópuþingið samþykkir reglugerð um réttindi farþega í langferðabifreiðum
Evrópuþingið samþykkti í síðasta mánuði niðurstöðu í sáttarferli milli fulltrúa þess og ráðherraráðsins um réttindi farþega í langferðabifreiðum. Sáttin sem náðist þann 30. nóvember 2010 var samþykkt af ráðherraráðinu 31. janúar 2011.
Í reglugerðinni eru reglur um réttindi farþega með hópferðabílum þegar seinkanir verða eða ferðir felldar niður auk þess sem hún tryggir réttindi fatlaðra. Reglugerðin mun hins vegar eingöngu ná til áætlunarferða sem eru lengri en 250 kílómetrar. Þá heimilar reglugerðin aðildarríkjum að fresta gildistöku um alls átta ár, tvö fjögurra ára tímabil. Við bætast tvö ár þar til reglugerðin á að taka gildi og geta því liðið tíu ár þar til hún verður að fullu komin í framkvæmd.
Lágmarkslengd leiða sem reglugerðin tekur til, 250 kílómetrar, útilokar þegar í stað allar leiðir innan þriggja ríkja sambandsins: Kýpur, Möltu og Lúxemborgar. Þá leikur vafi á að til séu innanlandsleiðir innan ríkja sambandsins sem eru þetta langar. Þrátt fyrir að reglugerðin sé nokkuð langt frá því að tryggja réttindi farþega með langferðabifreiðum með þeim hætti sem vonir stóðu til leiðir hún til bóta. Á leiðum þar sem reglugerðin gildir munu seinkanir um meira en tvær stundir skylda rekstraraðila til að bjóða upp á val milli þess að halda ferð áfram, jafnvel eftir öðrum leiðum, eða fá endurgreiðslu. Þá munu farþegar eiga auk endurgreiðslunnar rétt á bótum að jafnvirði hálfu verði farmiðans. Skylt er að bjóða upp á hressingu ef ferðum er aflýst eða þeim seinkar um meira en þrjár stundir og bjóða upp á hótelgistingu ef þörf krefur. Hámark hótelgistingar er þó tvær nætur og hámarkskostnaður 80 evrur á nótt. Sé seinkun eða ferð aflýst vegna nátturuhamfara eða veðurskilyrða fellur þessi skylda niður.
Þetta má lesa í 4142-hefti Europolitics.