Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2010

Grein

Fimmtudaginn 10. febrúar 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. desember 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 14. desember 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 16. nóvember 2010, þar sem kærandi er krafinn um endurgreiðslu vegna ætlaðs oftekins fæðingarorlofs.

Með bréfi, dags. 21. desember 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs. Hinn 14. janúar 2010, barst úrskurðarnefndinni afrit af bréfi frá Fæðingarorlofssjóði til kæranda, dags. 11. janúar 2011, þar sem fram kemur að vegna annmarka á málsmeðferð hafi sú stjórnvaldsákvörðun sem tekin var í máli hans hinn 14. nóvember 2010 verið afturkölluð, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Jafnframt er kæranda tilkynnt að mál hans verði tekið fyrir að nýju til frekari rannsóknar og meðferðar. Kæranda verði sent bréf og afrit af öllum gögnum málsins þess efnis á næstu dögum og gefið færi á að koma að athugasemdum og andmælum.

 

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli ffl. Í 1. mgr. 6. gr. ffl. segir að kæra skuli berast skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. ffl. skal um málsmeðferð fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga að öðru leyti en því sem fram kemur í ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verður að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. Komi upp ágreiningur þegar fyrir liggur ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um rétt kæranda á grundvelli ffl. er sú ákvörðun kæranleg til nefndarinnar.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta