Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 44/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 31. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 44/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110040

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. nóvember 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. nóvember 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. júní 2017. Með ákvörðun þann 22. mars 2018 synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 264/2018 þann 14. júní 2018 og honum veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Í kjölfar úrskurðarins yfirgaf kærandi landið.

Kærandi kom aftur til landsins þann 1. október 2018 og sótti á ný um alþjóðlega vernd. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 3. og 5. október 2018 ásamt talsmanni sínum.

Með ákvörðun, dags. 6. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. nóvember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. desember 2018. Þann 17. janúar 2019 bárust viðbótargögn í máli kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi ekki fjárráð til að njóta heilbrigðisþjónustu í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og að honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið.

 

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið hingað til lands þann 2. október sl. og sótt um alþjóðlega vernd öðru sinni hjá Útlendingastofnun. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að öll vandamál og ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir áður hafi haldið áfram eftir að hann hafi komið aftur til heimaríkis. Álagið hafi verið svo mikið að hjartað hafi gefið sig og hann hafi fengið hjartaáfall 13. ágúst sl. Kærandi hafi farið í endurhæfingu þann 21. ágúst sl. en þurft að hætta vegna bágs fjárhags. Þá hafi hann greint frá því hvað hann hafi greitt fyrir hjartaaðgerðina og endurhæfingu. Hvað varðar málsatvik vísar kærandi að öðru leyti til gagna málsins og gagna vegna fyrri umsóknar um alþjóðlega vernd hér á landi.

Í greinargerð kæranda er m.a. fjallað um stöðu mannréttindamála í Úkraínu og er vísað heimilda í alþjóðlegum skýrslum. Í þeim komi m.a. fram að aðstæður í fangelsum séu slæmar, mikil spilling ríki hjá stjórnvöldum og og sé traust manna á dómskerfinu afar lítið.

Þá er í greinargerð kæranda að finna almenna umfjöllun um ástand heilbrigðiskerfisins í Úkraínu. Vísað er til þess að heilbrigðiskerfið þar í landi sé í slæmu ástandi, heilbrigðisstarfsfólk sé ekki nægilega þjálfað og þá þurfi einstaklingar að greiða aukalega fyrir heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að lög landsins kveði á um að þjónustan skuli vera gjaldfrjáls. 

Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann sæti ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana sinna en hann hafi m.a. orðið fyrir ofbeldi vegna þeirra. Þá hafi kærandi í ágúst 2018 fengið hjartaáfall vegna álags og farið í hjáveituaðgerð en hann geti ekki haldið áfram nauðsynlegri læknismeðferð og endurhæfingu vegna bágs fjárhags. Vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga teljist ofsóknir skv. 37. gr. laganna vera athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá geti ofsóknir m.a. falist í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi skv. a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sem og einnig í löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla, sbr. b-lið ákvæðisins. Vísar kærandi til skilgreiningar handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á hugtakinu ofsóknir í skilningi 33. gr. flóttamannasamningsins og skilgreiningu á hugtakinu í ákvæðum 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að sér sé mismunað í heimaríki á grundvelli fjárhagsstöðu þar sem hann fái ekki nauðsynlega læknismeðferð nema hann greiði fyrir hana. Þá telur kærandi að búast megi við enn frekari skorti á nauðsynlegum lyfjum og öðrum nauðsynjum vegna ótryggs ástands í Úkraínu og herlaga sem nýlega hafi tekið gildi þar í landi. Þá vísar kærandi til skilgreiningar á hugtakinu ástæðuríkur ótti og skilgreiningar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga á því hverjir  geti ollið ofsóknum skv. 37. gr. sömu laga. Með vísan til framangreindra skilgreininga sem og aðstæðna kæranda sé ótti hans við ofsóknir ástæðuríkur og því beri að veita honum alþjóðlega vernd hér á landi skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum í máli hans.

Til vara er gerð krafa um að kæranda verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að í ljósi heilsufars hans; aldurs; þeirra ofsókna sem hann hafi orðið fyrir vegna stjórnmálaskoðana og þeirrar staðreyndar að stjórnvöld geti ekki veitt honum aðstoð að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Ítrekar kærandi í þessu sambandi það sem hafi komið fram um heilbrigðiskerfið í Úkraínu og það sem hafi komið fram í greinargerð um að hann geti ekki fengið nauðsynlega læknismeðferð og keypt lyf þar sem börn hans geti ekki aðstoðað hann lengur fjárhagslega.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úkraínsku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé úkraínskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úkraínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Access to Justice and the Conflict in Ukraine (Organization for Security and Co-operation in Europe, desember 2015);
  • Amnesty International Report 2017/2018: Ukraine (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Association Implementation Report on Ukraine (European Commission, 14. nóvember 2017);

  • Freedom in the World 2018 - Ukraine (Freedom House, 16. janúar 2018);
  • Can people afford to pay for health care, New evidence on financial protection in Ukraine (WHO, 2018);
  • Country Information and Guidance – Ukraine: Background Information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2016);
  • International Protection Considerations related to developments in Ukraine – Update III (UNHCR, 24. september 2015);
  • National Health Reform Strategy for Ukraine 2015-2020 (Ministry of Health of Ukraine, ágúst 2014);
  • Nations in Transit 2018 – Ukraine (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Progress Report on Access to Hepatitis C Treatment – Focus on Overcoming Barriers in Low- and Middle-Income Countries (World Health Organization, mars 2018);
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Ukraine from 21 to 25 March 2016 (Council of Europe, 11. júlí 2016);
  • Social Security Programs Throughout the World: Europe, 2018 (Social Security Administration, September 2018);
  • Temanotat Ukraina. Domstolene – korrupsjon og manglende uavhengighet (Landinfo, 6. júlí 2015);
  • Ukraine: UNHCR Operational Update, September 2016 (UNHCR, 21. september 2016);
  • 2016 Annual Report of UHHRU (Ukrainian Helsinki Human Rights Union, 2017);

  • Ukraine - Country Reports on Human Rights Practices for 2017 (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Ukraine´s Health Sector – Sustaining Momentum Reform, (Center for Stategic & International Studies – Global Health Policy Center, ágúst 2017);
  • Ukraine: The new law on police and its effectiveness; recourse and state protection available to private citizens who have been the victims of criminal actions of police officers in Kiev (2014-January 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. janúar 2016);

Úkraína er lýðræðisríki með um 44 milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af úkraínskum stjórnvöldum á þeim svæðum sem lúta stjórn þeirra. Úkraína gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 10. júní 2002, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 12. nóvember 1973 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. febrúar 1987. Meirihluti íbúa landsins eru af úkraínskum uppruna eða um 78% en um 17% íbúa eru af rússneskum uppruna og 5% eru af hinum ýmsu þjóðarbrotum. Úkraína er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, að undanskildum héruðunum Donetsk, Luhansk og Krím.

Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að í nóvember 2013 hafi mótmæli, svokölluð Euromaidan-mótmælin, hafist í Kænugarði og öðrum borgum Úkraínu. Upphaflega hafi verið um friðsöm mótmæli að ræða en síðar hafi átt sér stað átök á milli fylkinga óeirðalögreglu og mótmælenda sem hafi leitt til mannfalls. Í kjölfar ofangreindra mótmæla og innlimunar Rússa á Krímskaga í mars 2014 hafi brotist út átök á milli hersveita aðskilnaðarsinna, sem vilji kljúfa sig frá Úkraínu og sameinast Rússlandi, og Úkraínuhers í austurhluta Úkraínu. Samið hafi verið um vopnahlé í september 2014 en það hafi ekki verið virt að fullu. Átökin séu að mestu einangruð við Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að innanríkisráðuneytið í Úkraínu beri ábyrgð á innra öryggi landsins og hafi eftirlit með lögreglu og öðrum lögregluyfirvöldum. Í landinu sé auk þess starfrækt leyniþjónusta (e. Security Service of Ukraine (SBU)) sem hafi það hlutverk að tryggja öryggi ríkisins m.a. með því að sporna við hryðjuverkum. Í framangreindum gögnum segir að lögregluyfirvöld hafi verið sökuð um pyndingar og grimmilega meðferð á borgurum landsins, svo sem á einstaklingum í varðhaldi, í þeim tilgangi að þvinga fram játningar. Málin tengist aðallega átökunum í austurhluta landsins þar sem rússneskir aðskilnaðarsinnar hafi farið með völd síðan árið 2014.

Í framangreindum gögnum um aðstæður í Úkraínu kemur fram að öllum íbúum landsins sé tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónustan skuli samkvæmt lögum vera gjaldfrjáls þá sé staðreyndin sú að í mörgum tilvikum þurfi sjúklingar að greiða sjálfir fyrir læknisskoðanir, meðferðir og lyf. Á síðustu árum hafi hins vegar verið ráðist í aðgerðir, m.a. með liðsinni alþjóðlegra stofnana, sem hafi verið ætlað að bæta heilbrigðiskerfið í Úkraínu og hverfa frá kerfi sem m.a. hafi einkennst af brotalömum í aðgengi að heilbrigðisþjónustu, gæðum hennar og spillingu innan heilbrigðiskerfisins. Jafnframt hafi stjórnvöld unnið að því að efla lyfjamarkaðinn og aðgengi sjúklinga að lyfjum og meðferðum. Þá hafi lög um heilbrigðisþjónustu verið í endurskoðun undanfarin ár og hafi forseti Úkraínu skrifað undir lög í desember 2017 sem hafi það m.a. að markmiði að tryggja landsmönnum hágæða heilbrigðisþjónustu, einkum íbúum í dreifbýlisbyggðum landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í máli kæranda liggur fyrir að hann sótti áður um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. júní 2017 og fékk synjun á þeirri umsókn með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 22. mars 2018. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þá ákvörðun með úrskurði nr. 264/2018 þann 14. júní 2018. Við meðferð þess máls bar kærandi fyrir sig að hann væri í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana og heilbrigðisvandamála sinna. Í úrskurði kærunefndar kom m.a. fram að almennur óstöðugleiki frásagnar kæranda varðandi ofsóknir vegna þátttöku hans í stjórnmálum og skortur á gögnum henni til stuðnings leiddi til þess, heildstætt metið, að sá þáttur frásagnar kæranda væri ótrúverðugur og yrði ekki lagður til grundvallar í málinu. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem breytir framangreindri niðurstöður nefndarinnar.

Við meðferð málsins sem hér er til úrlausnar hefur kærandi borið fyrir sig að honum sé mismunað í heimaríki á grundvelli fjárhagsstöðu þar sem hann geti ekki haldið áfram nauðsynlegri læknismeðferð og endurhæfingu í heimaríki nema að hann greiði fyrir hana. Þá hefur hann einnig byggt á þeim málsástæðum sem hann byggði á við fyrri umsókn um alþjóðlega vernd.

Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 3. október 2018 um hvort aðstæður hans hafi að einhverju leyti breyst frá því að kærunefndin staðfesti ákvörðun stofnunarinnar í máli hans vegna fyrri umsóknar um alþjóðlega vernd greindi kærandi frá því að hann hafi fengið hjartaáfall eftir endurkomu til heimaríkis og farið í hjartaskurðaðgerð. Kærandi eigi hins vegar ekki fé til að fjármagna endurhæfingu og kaupa lyf í heimaríki.

Efnahagslegar ástæður teljast almennt ekki til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærandi ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu úkraínskra yfirvalda eða annarra aðila í Úkraínu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Úkraínu geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til alls ofangreinds og forsendna úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 264/2018, dags. 14. júní 2018, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. gr. 38. gr. laganna. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Dómstóllinn hefur byggt á því að meðferð þurfi að ná ákveðnu lágmarks alvarleikastigi til að geta talist brot á ákvæðinu. Matið er einstaklingsbundið og tekur m.a. mið af líkamlegum og andlegum afleiðingum meðferðar og einstaklingsbundnum þáttum, svo sem kyni, aldri og heilsufari. Þjáningar sem eru afleiðingar veikinda, sem koma til af náttúrlegum orsökum, geta fallið undir 3. gr. mannréttindasáttmálans ef veikindin verða þungbærari við tiltekna meðferð, svo sem við frávísun eða brottvísun. Þó felist ekki í ákvæðinu skylda ríkja til þess að veita einstaklingum vernd eða dvalarleyfi vegna þess eins að kringumstæður einstaklings, m.a. heilsufar og lífslíkur hans, kynnu að versna við brottflutnings hans til heimalands síns. Aðeins í undantekningartilfellum þar sem afar rík mannúðarsjónarmið liggja til grundvallar gæti slík skylda skapast og ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans leggi ekki sjálfkrafa þær skyldur á aðildarríkin að veita ótakmarkaða heilbrigðisþjónustu án endurgjalds til útlendinga sem ekki hafa heimild til að dvelja í ríkinu. Í framkvæmd hefur dómstóllinn einkum talið ákvæðið eiga við í tilvikum einstaklinga sem eru í yfirvofandi hættu að láta lífið. Þó hefur dómstóllinn jafnframt litið svo á að þrátt fyrir að einstaklingur sé ekki í slíkri hættu kunni 3. gr. sáttmálans að eiga við ef hann, vegna skorts á viðeigandi meðferð í viðtökuríki, er í raunverulegri hættu á að verða fyrir alvarlegri, hraðri og óafturkræfri hnignun á heilsufari sem leiðir til afar mikilla þjáningar eða verulegrar skerðingar á lífslíkum (sjá dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Paposhvili gegn Belgíu (mál nr. 41738/10) frá 13. desember 2016).

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun dags. 3. október 2018 að hann hafi fengið hjartaáfall eftir endurkomu til heimaríkis sl. sumar og hafi farið í hjartaskurðaðgerð. Kærandi kvaðst aðspurður ekki þurfa á annarri aðgerð að halda. Kærandi lagði fram læknisfræðileg gögn frá heilbrigðisstofnunum í heimaríki. Annars vegar útskriftarseðil frá hjartaskurðdeild og hins vegar útskriftarseðil frá ríkisrekinni stofnun þar sem fram fer endurhæfing sjúklinga eftir hjartaskurðaðgerðir. Fram kemur í þeim að kærandi hafi gengist undir meðferð á hjartaskurðdeildinni frá 13. ágúst til 21. ágúst 2018. Þá hafi hann verið í endurhæfingu frá 3. september til 18. september 2018. Í gögnunum er að finna ráðleggingar er lúta m.a. að því að kærandi skuli vera undir eftirliti hjá hjartasérfræðingi, forðast áreynslu og streitu og jafnframt tilgreind þau lyf sem hann skuli taka eftir útskrift af spítalanum. Þá lagði kærandi fram afrit af bráðamóttökuskrám frá Hjartagátt Landspítala Háskólasjúkrahúss dagsettum 11. október 2018. Í því kemur m.a. fram að kærandi sé ekki bráðveikur. Jafnframt lagði kærandi fram afrit af samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna dagsetta frá 20. nóvember til 12. desember 2018 þar sem fram kemur að niðurstöður blóðprufa séu eðlilegar og þá áformar yfirlæknir göngudeildar sóttvarna að breyta lyfjaskammti kæranda. Samkvæmt framangreindu er kærandi með hjartasjúkdóm og hefur þurft að fara í aðgerð vegna þess. Kærandi hafi hins vegar fengið leiðbeiningar og ráðgjöf hjá læknum í heimaríki um hvernig hægt sé að lifa með sjúkdómnum og halda í skefjum, svo sem með lyfjatöku, eftirliti lækna og heilsusamlegu líferni.

Að mati kærunefndar benda læknisfræðileg gögn sem lögð hafa verið fram vegna málsins ekki til þess að endursending kæranda teljist í ósamræmi við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru að ofan. Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki hans telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann geti ekki haldið áfram nauðsynlegri læknismeðferð og endurhæfingu í heimaríki vegna bágs fjárhags. Þá séu ákveðin lyf sem hann þurfi nauðsynlega á að halda ekki fáanleg í heimaríki. Kærandi var í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 5. október 2018 spurður að því hvaða lyf það væru sem væru ekki fáanleg í heimaríki. Kærandi kvaðst ekki vita nöfnin á þeim en sonur hans hafi sagt honum að þau væru ekki fáanleg í Úkraínu. Aðspurður kvaðst kærandi ekki geta lagt fram lista yfir þau lyf sem hann þyrfti á að halda en væru ekki fáanleg í Úkraínu þar sem hans skilningur á lyfjagjöf væri ekki mikill. Kærandi kvaðst ætla ræða við son sinn og og lækna um hvaða lyf það væru sem væru ekki fáanleg í Úkraínu. Kærandi hefur engin gögn lagt fram til stuðnings framburðar síns um að ákveðin lyf við sjúkdómi hans séu ófáanleg í heimaríki.

Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi veikindi sín hafa þegar verið rakin. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi glímir við hjartavandamál. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heilbrigðisaðstæður í Úkraínu kemur fram að það hafi allir rétt á heilbrigðisþjónustu. Þá hafi stjórnvöld gert átak í því undanfarin ár að betrumbæta aðgengi landsmanna að lyfjum og heilbrigðisþjónustu, meðal annars með heildarendurskoðun á heilbrigðislöggjöfinni. Jafnframt kemur fram í framangreindum gögnum að í Úkraínu sé til staðar almannatrygginga- og velferðarkerfi sem allir íbúar landsins eigi aðgang að. Engu að síður er ljóst að greiðsluþátttaka notenda heilbrigðisþjónustu eru enn umtalsverð í Úkraínu og talsverð byrði fyrir þá sem þurfa á slíkri þjónustu að halda, sérstaklega efnaminna fólk. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur skoðað hafi stjórnvöld í Úkraínu þó árið 2017 sett á stofn kerfi sem miði að því að endurgreiða lyfseðilseðilsskyld lyf að fullu eða hluta (e. The Affordable Medicines National Prescription Drugs Cost Reimbursement Program). Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum sem kærandi hefur lagt fram frá heimaríki sínu hefur hann fengið heilbrigðisþjónustu við veikindum sínum. Þá hefur kærandi greint frá því að uppkomin börn hans hafi hingað til aðstoðað hann við að greiða fyrir læknisþjónustu og lyf. Kærandi er ekki í meðferð hér á landi sem læknisfræðilega óforsvaranlegt er að rjúfa. Með vísan til þess sem fram hefur komið í gögnum málsins og framangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í Úkraínu og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum hans telur kærunefnd að kærandi geti fengið aðstoð í heimaríki sem og aðgang að meðferðum og lyfjum sem hann þurfi á að halda vegna heilsufarsvandamála sinna, leiti hann eftir því.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 1. október 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 2. október 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi kemur frá öruggu héraði ríkis sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og ekki fæst séð að heilsufar hans sé þess eðlis að það takmarki möguleika hans á að ferðast. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The Decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta