Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Taktu þátt í að skrásetja íslenskar hefðir

Sem dæmi um skráningu á síðunni eru upplýsingar um lugtargöngu heilags Marteins sem árlega er farin í Hafnarfirði.  - myndHelgi Viðar / Deutsch-Isländisches Netzwerk
Almenningi gefst nú kostur á að taka þátt í að kortleggja íslenskar hefðir og siði. Hafin er formleg söfnun upplýsinga um lifandi hefðir, eða menningarerfðir, í gegnum vefsíðuna lifandihefdir.is en slíkar hefðir eru ekki síður mikilvægar en áþreifanlegur menningararfur þjóða.

Með lifandi hefðum er átt við allskonar venjur, hefðir, hátíðahöld, framsetningu, tjáningu og tungumál, þekkingu og færni sem samfélög eða hópar búa yfir. Hefðir geta verið lifandi í samfélögum og hópum eða átt undir högg að sækja þannig að þær þarfnist sérstakrar athygli eða verndar. Þær eru afar fjölbreyttar og geta átt rætur sínar í fortíðinni, þeim verið miðlað mann fram af manni eða verið nýtilkomnar.

„Lifandi hefðir skipa mikilvægan sess í hugum okkar flestra þó við leiðum oft ekki hugann að þeim dagsdaglega – þær virka stundum eins og sjálfsagðar en að baki þeim býr oft forvitnileg og mikilvæg saga. Þeim viljum við safna og halda á lofti með þessu skemmtilega verkefni, sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og nefndi laufabrauðsgerð sem dæmi um lifandi hefð. „Meðal nýrri hefða sem vakið hafa talsverða athygli er hið landskunna HÚH! – hvatningarklapp Tólfunnar en mig langar af þessu tilefni að skora á stuðningsmannafélag íslensku landsliðanna í fótbolta að senda inn skráningu á síðuna um þá frábæru hefð.“

Meðal skráninga sem þegar má finna á síðunni eru upplýsingar hefðir tengdar íslensku jólasveinunum, hlaupahópum, hestamennsku, sláturgerð og torfhleðslu.

Framtak þetta er liður í samningi Íslands við Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna – UNESCO um varðveislu menningarerfða en markmið hans er m.a. að varðveita þær og efla vitund almennings á mikilvægi þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta