Rannsókn á heilbrigði fatlaðs fólks
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt fimm milljónir króna til að standa straum af rannsókn á ýmsum þáttum sem varða heilbrigði fatlaðs fólks. Embætti landlæknis ber ábyrgð á framkvæmd rannsóknarinnar.
Ráðist verður í gerð rannsóknarinnar í samræmi við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem áhersla er lögð á að afla upplýsinga sem veita skýra mynd af heilbrigði fatlaðs fólks á Íslandi, eins og segir í áætluninni.
Velferðarráðuneytið hefur í samstarfi við Embætti landlæknis, heilsugæsluna, Háskóla Íslands og Félagsvísindastofnun unnið að skilgreiningu helstu efnisþátta rannsóknarinnar og gerð spurningalista. Við framkvæmdina verður haft samstarf við samtök fatlaðs fólks.
Markhópur rannsóknarinnar verður fatlað fólk 18 ára og eldra sem fær þjónustu hjá sveitarfélögunum á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks. Helstu þættir sem verða kannaðir snúa að ýmsum þáttum lýðheilsu, svo sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu, heilsufari, tannheilsu lyfjanotkun o.fl. Einnig verða rannsakaðir félagslegir áhrifaþættir heilsu meðal fatlaðs fólks, s.s. félagsleg tengsl, fjárhagur, þjónusta og búseta. Hluti verkefnisins mun einnig felast í því að bera niðurstöður rannsóknirnar saman við aðrar íslenskar rannsóknir á heilsufari og lýðheilsu og erlendar upplýsingar og rannsóknarniðurstöður .
Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir í lok næsta árs.