Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um tímabundna tannlæknaþjónustu við börn tekjulágra

Tannlækningar barna
Tannlækningar barna

Velferðarráðherra hefur sett reglugerð um tímabundna tannlæknaþjónustu án endurgjalds fyrir börn tekjulágra foreldra. Sækja þarf um þjónustuna til Tryggingastofnunar ríkisins sem tekur við umsóknum frá 28. apríl til 1. júní næstkomandi. 

Réttur til þjónustunnar er tengdur tekjum foreldra og fjölda barna á framfæri. Þjónustan er ætluð börnum yngri en 18 ára sem eru sjúkratryggð og felst í nauðsynlegum tannlækningum öðrum en tannréttingum.

Þjónustan er fyrir börn af öllu landinu en verður veitt á tannlæknadeild Háskóla Íslands í Læknagarði við Vatnsmýrarveg 16 í Reykjavík frá 1. maí til 26. ágúst. Heimilt er að greiða ferðakostnað barna af landsbyggðinni sem fengið hafa samþykki Tryggingastofnunar fyrir tannlæknaþjónustunni og er þá greitt samkvæmt reglugerð nr. 871/2004, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands.

Tryggingastofnun ríkisins annast móttöku og mat á umsóknum

Sækja þarf um þjónustuna til Tryggingastofnunar ríkisins sem leggur mat á hvort umsækjendur uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Sérstök athygli er vakin á því að frestur til að sækja um þjónustu stendur frá 28. apríl til 1. júní næstkomandi.

Nánari upplýsingar eru veittar hjá þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins í síma 560 4400, í gjaldfrjálsu númeri 800 6044, hjá sýslumönnum sem fara með umboð stofnunarinnar og á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins.

Hjá Fjölmenningarsetri verða innan skamms aðgengilegar upplýsingar um þjónustuna á erlendum málum, þ.e. ensku, pólsku, serbnesku/króatísku, taílensku, spænsku, litháísku og rússnesku. Þar er einnig hægt að fá upplýsingar og aðstoð við umsóknir og tímapantanir.

Foreldrar, sem á þurfa að halda, eru hvattir til að leita aðstoðar hjá starfsmönnum leikskóla, grunnskóla og félagsþjónustu sveitarfélaganna við að sækja um aðstoð fyrir börn sín.

Skilyrði fyrir þjónustu

Miðað er við að barnið sé sjúkratryggt, búi og hafi lögheimili hjá því foreldri/forráðamanni sem sækir um og að allar skattskyldar tekjur umsækjanda á árinu 2010 séu sem hér segir:

  • Einstæðir foreldrar/forráðamenn með tekjur undir 2.900.000 kr.
  • Hjón eða sambúðarfólk með tekjur undir 4.600.000 kr.
  • Tekjuviðmiðið hækkar um 350.000 kr. fyrir hvert barn umfram eitt.
  • Heimilt er að víkja frá tekjuviðmiði ársins 2010 ef um verulega lækkun tekna á árinu 2011 er að ræða, svo sem vegna atvinnuleysis.

Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá tekjuviðmiðum ef um alvarlegan félagslegan vanda er að ræða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta