Fyrirhugaðar breytingar á þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði
Fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem ætlað er að draga verulega úr lyfjakostnaði þeirra sjúklinga sem mest greiða samkvæmt gildandi kerfi. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti frumvarpið á fundi ríkisstjórnar í dag. Meginmarkmiðið er að auka jöfnuð sjúklinga og draga úr heildarútgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda.
Frumvarpið fer nú fyrir þingflokka áður en það verður lagt fyrir Alþingi. Ekki er gert ráð fyrir að þingið ljúki umfjöllun um það fyrr en í lok þessa árs.
Gildandi kerfi
Samkvæmt núgildandi kerfi greiðir fólk ákveðið hlutfall af verði þess lyfs sem ávísað er hverju sinni upp að ákveðnu hámarki. Hins vegar er ekki kveðið á um hámark heildarlyfjakostnaðar einstaklings sem þýðir kostnaður þeirra sem þurfa á mörgum og dýrum lyfjum að halda eða nota lyf að staðaldri getur orðið mjög hár. Kerfið er jafnframt nokkuð flókið að því leyti að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga er mismikil eftir því hvaða lyfjaflokka er um að ræða en það skapar hættu á mismunun eftir sjúkdómum.
Helstu breytingar samkvæmt frumvarpinu
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjúkratryggðir greiði lyfjakostnað að fullu upp að ákveðnu hámarki á tólf mánaða tímabili. Þegar hámarkinu er náð taka við stighækkandi greiðslur sjúkratrygginga en kostnaður einstaklingsins lækkar að sama skapi. Heimilt verður að ákveða með reglugerð lægra lyfjaverð fyrir aldraða, börn og öryrkja og einnig að lyf vegna tiltekinna alvarlegra sjúkdóma verði undanþegin gjaldi. Miðað er við að öll lyf sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða verði felld inn í einn flokk og þannig stuðlað að jafnræði milli sjúklingahópa. Þá er gert ráð fyrir að sýklalyfjum verði bætt inn í greiðsluþátttökukerfið en í núgildandi kerfi þurfa notendur sýklalyfja að greiða fyrir þau að fullu. Sjúkratryggingar Íslands munu áfram gefa út lyfjaskírteini og í sérstökum tilvikum afgreiða skírteini sem veita sjúkratryggðum rétt á lyfjum þeim að kostnaðarlausu.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir augjóst að verði fyrirhugaðar breytingar samþykktar muni þær fela í sér verulega kjarabót fyrir fjölda fólks sem nú glímir við há útgjöld vegna lyfjakostnaðar. „Breytingin á að auka jöfnuð og styðja betur við bakið á þeim sem nú bera mest útgjöld vegna heilsufarsvanda. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á útgjöldum hins opinbera heldur verður tilfærsla innan kerfisins. Kostnaður þeirra sem nota hvað minnst af lyfjum eykst þar sem þeir greiða lyf sín að fullu þar til heildarútgjöld þeirra á 12 mánaða tímabili hafa náð ákveðnu hámarki. Aftur á móti lækkar kostnaður þeirra sem nú greiða mest. Nefna má dæmi um útgjöld öryrkja sem nú greiðir um 170.000 krónur á ári í lyfjakostnað en gætu við breytinguna lækkað umtalsvert eða í um 45.000 krónur fyrir sömu lyfjanotkun.“
Gerð frumvarpsins
Undirbúningur að gerð frumvarpsins hefur staðið yfir lengi. Fyrst af hálfu nefndar sem starfaði á árunum 2007-2009 sem safnaði viðamiklum gögnum um verkefnið og síðar tók til starfa vinnuhópur sem falið var að gera tillögu um nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja. Tillögur vinnuhópsins voru settar fram í drögum að skýrslu haustið 2010 og hafa við kynningu fengið jákvæðar undirtektir hjá sjúklingasamtökum og hagsmunaaðilum.