Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tillögur um þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Freyr Ólafsson formaður starfshópsins. - mynd
Starfshópur um þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir hefur skilað tillögum sínum og greinargerð til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði starfshópinn síðasta vetur og var honum meðal annars falið að afla upplýsinga um þarfir fyrir mannvirki til lengri tíma, greina mögulega nýtingu eldri mannvirkja eða þörf á nýjum, og skoða kostnaðarskiptingu slíkra verkefna, bæði hvað varðar mögulega uppbyggingu, rekstur og nýtingu.

Hópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ef þjóðarleikvangur í knattspyrnu verður áfram á Laugardalsvelli þá sé framtíð frjálsíþróttastarfs best borgið á nýjum leikvangi fyrir norðan Suðurlandsbraut, austan frjálsíþróttahallar við Engjaveg. Mannvirki sem mun tengjast núverandi frjálsíþróttahöll, öðrum íþróttamannvirkjum sem og öðrum opnum svæðum í Laugardal. Starfshópurinn sér fram á að mannvirkið verði vel nýtt fyrir alþjóðlegt keppnishald og stærri mót á vegum Frjálsíþróttasambands Íslands og Íþróttasambands fatlaðra, æfingar afreksmanna, æfingar barna-, unglinga og annarra í hverfisfélögum í Reykjavík en einnig sem möguleg aðstaða fyrir afreksíþróttamiðstöð í Laugardalnum, auk rannsókna, þjálfunar og kennslu í skólum. Frumáætlanir starfshópsins gera ráð fyrir að stofnkostnaður vegna slíks þjóðarleikvangs sé um tveir milljarðar kr. á núvirði.

„Það gleður mig mjög að taka á móti niðurstöðu þessarar vinnu. Það er alveg ljóst að við eigum íþróttafólk í fremstu röð á heimsvísu, og ef við viljum halda því áfram verðum við að bæta úr aðstöðumálum. Nú er þessi vegferð hafin, með frábærri vinnu starfshópsins, og framundan er að tryggja fjármögnun, ráðast í hönnun og grípa skófluna. Ég vil þakka starfshópnum innilega fyrir sitt framlag,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í starfshópnum sátu fulltrúar frá Frjálsíþróttasambandi Íslands, Reykjavíkurborg og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) auk fulltrúa ráðuneytisins.

Frá því að reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum var sett árið 2018 hefur fjölbreyttri greiningarvinnu verið hrundið af stað vegna uppbyggingar slíkra innviða. Fyrir liggja tillögur starfshóps um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir og stofnað hefur verið félag í samstarfi ríkis, Reykjavíkurborgar og KSÍ sem vinnur að nánari kostnaðar- og tekjumati vegna fjögurra sviðsmynda við endurnýjun Laugardalsvallar sem þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta