Nýtt starfsþjálfunarverkefni fyrir innflytjendur undirbúið hjá Vinnumálastofnun
Lokaráðstefna verkefnisins Framtíðar í nýju landi var haldin síðastliðinn föstudag. Á ráðstefnunni var fjallað um hugmyndafræði, starfsaðferðir og árangur verkefnisins sem miðar að því að efla ungmenni af erlendum uppruna í námi og starfi. Á ráðstefnunni var einnig fjallað um hvernig niðurstöður verkefnisins geta nýst til framtíðar, meðal annars öðrum minnihlutahópum til framdráttar, og gerð grein fyrir ítarlegum tillögum og ábendingum verkefnastjórnar til úrbóta við aðlögun ungra innflytjenda.
Félagsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna ásamt fjölda annarra, meðal annars forseta Íslands, menntamálaráðherra og borgarstjóra. Í ávarpi sínu þakkaði félagsmálaráðherra stjórnendum og þáttakendum verkefnsins fyrir þeirra mikilvæga framlag og sagði meðal annars eftirfarandi:
„Það er mér því sérstök ánægja að upplýsa hér í dag að ákveðið hefur verið að Vinnumálastofnun í samstarfi við ráðuneytið hefji undirbúning að slíku starfsþjálfunarverkefni fyrir ungt fólk af erlendum uppruna sem hefji göngu sína á vori komanda. Tillögur Framtíðar í nýju landi verða hafðar til hliðjónar við undirbúning og útfærslu verkefnisins.“
Ávarp félagsmálaráðherra á lokaráðstefnunni