Hoppa yfir valmynd
5. mars 2020 Forsætisráðuneytið

879/2020. Úrskurður frá 26. febrúar 2020

Úrskurður

Hinn 26. febrúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 879/2020 í máli ÚNU 19110003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 24. október 2019, kærðu Kærleikssamtökin, f.h. A, afgreiðslutöf þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem starfrækt er af Reykjavíkurborg.

Með bréfi til þjónustumiðstöðvarinnar, dags. 8. október 2019, óskaði kærandi eftir upplýsingum um „fyrirskipan um heimild til að fjarlægja eigur“ kæranda úr neyðarhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Í bréfinu segir að kærandi telji líkur standa til þess að skrifleg heimild hafi legið fyrir í ljósi þess að kallað hafi verið eftir aðkomu lögreglu þegar eigur kæranda hafi verið fjarlægðar og honum vísað úr neyðarhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 4. nóvember 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Úrskurðarnefndinni barst afrit af bréfi Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 26. nóvember 2019, en meðfylgjandi bréfinu voru gögn úr málaskrá Reykjavíkurborgar sem varða efni kærunnar, þ.e. sex skjöl sem innihalda ýmist atvikaskráningu, dagál eða skráð símtöl vegna málsins.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir staðfestingu kæranda á því að honum hefðu verið afhent umbeðin gögn. Með bréfi, dags. 2. desember 2019, lýsti kærandi því að hann hefði ekki óskað eftir þeim gögnum sem bárust heldur hefði hann beðið um afrit af heimildinni sem hefði gert nafngreindum deildarstjóra kleift að fyrirskipa fyrirtæki að fjarlægja eigur kæranda og lögreglunni að vísa kæranda úr tilteknu húsnæði. Athugasemdir kæranda voru kynntar Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 9. desember 2019. Með bréfi, dags. 9. desember, svaraði Reykjavíkurborg því að öll fyrirliggjandi gögn í málinu hefðu verið afhent kæranda og að engin frekari gögn væru til um málið.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um gögn varðandi tilteknar aðgerðir í neyðarhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Við meðferð málsins afhenti Reykjavíkurborg kæranda afrit af gögnum úr málaskrá í tengslum við erindi kæranda en kærandi taldi afhendinguna ófullnægjandi. Í bréfi Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 9. desember 2019, kom fram að engin frekari gögn varðandi erindi kæranda væru fyrirliggjandi hjá Reykjavíkurborg.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar Reykjavíkurborgar að öll fyrirliggjandi gögn er varða beiðni kæranda hafi verið afhent kæranda. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. upplýsingalaga að ræða. Því er kæru kæranda vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru Kærleikssamtakanna, f.h. A, dags. 24. október 2019, vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni þeirra um gögn er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson


Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta