Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afhending fullgildingarskjala vegna tvísköttunarsamninga

Þann 26. september sl. afhentu íslensk stjórnvöld Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, tilkynningu um fullgildingu marghliða samnings um breytingar á tvísköttunarsamningum til þess að koma í veg fyrir rýrnum skattstofna og tilfærslu hagnaðar. Mun samningurinn koma til framkvæmda þann 1. janúar 2020.

Marghliða samningur um breytingar á tvísköttunarsamningum til þess að koma í veg fyrir rýrnum skattstofna og tilfærslu hagnaðar (hér eftir skammstafað MLI eða Multilateral Instrument) er hluti af BEPS, aðgerðaráætlun OECD. 

Í MLI eru sett fram 16 atriði sem ríki geta tekið upp og þar með breytt gildandi samningum sínum. Ákvæði MLI ganga framar tilgreindum ákvæðum í tvísköttunarsamningum þeirra ríkja sem hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að beita MLI. Af þessum 16 atriðum eru fjórar lágmarkskröfur sem undirritunarríki verða að taka upp í samninga sína og er þær að finna í BEPS aðgerðum númer 6 og 14.

Aðgerð 6 fjallar um leiðir til að koma í veg fyrir misnotkun tvísköttunarsamninga. Þar kemur fram að taka verði upp nýjan formála í tvísköttunarsamninga þar sem því er lýst yfir að með samningnum sé ekki eingöngu stefnt að því að koma í veg fyrir tvísköttun heldur einnig að koma í veg fyrir að tækfæri skapist til þess að komast alfarið hjá skattlagningu eða lækka skatta með skattsvikum. Jafnframt að bætt verði við ákvæði um að unnt sé að hafna því að veita ávinning sem samningurinn felur í sér ef megintilgangur með ráðstöfunum er að nýta sér þennan ávinning.

Aðgerð 14 á að tryggja að þegar upp kemur ágreiningur um túlkun tvísköttunarsamningsins þá verði bær stjórnvöld samningsríkjanna að leysa úr þeim ágreiningi eftir fremsta megni. Ákvæði um framkvæmd gagnkvæms samkomulags milli bærra stjórnvalda hefur lengi verið hluti af tvísköttunarmódeli OECD og er almennt til staðar í tvísköttunarsamningum. Í aðgerð 14 segir að í samningum eigi að vera ákvæði sem tryggi að samkomulag bærra stjórnvalda verði framkvæmt óháð reglum um tímamörk í innlendum rétti. Jafnframt eigi skattaðilar að geta snúið sér til bærs stjórnvalds í báðum ríkjunum, þ.e. bæði í búseturíki og greiðsluríki, telji þeir að skattlagning í öðru hvoru ríkinu sé ekki í samræmi við tvísköttunarsamning. 

Samkvæmt tilkynningu íslenskra stjórnvalda sem fylgir MLI verða lágmarksákvæði MLI tekin upp jafnframt því að tilgreindir eru þeir 35 tvísköttunarsamningar Íslands sem falla undir MLI. Tveir nýjustu íslensku tvísköttunarsamningarnir, við Japan og Liechtenstein, uppfylla lágmarkskröfur MLI og í framtíðinni munu allir nýir samningar uppfylla þessar kröfur.

Vörsluaðili MLI er framkvæmdastjóri OECD sem heldur utan um allar tilkynningar og skrár yfir undirritanir og breytingar. Nánari upplýsingar um MLI er að finna á vef OECD

Norræni tvísköttunarsamningurinn milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Noregs og Svíþjóðar fellur ekki undir MLI. Norðurlöndin hafa því undirritað viðauka við Norðurlandasamninginn þar sem lágmarksákvæði MLI eru tekin upp. Í dag, þann 27. september 2019 voru skjöl um fullgildingu viðaukans afhent í Finnlandi og tekur hann gildi frá og með 1. janúar 2020 að því gefnu að allir aðilar að samningnum hafi fullgilt viðaukann.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta