Hoppa yfir valmynd
20. mars 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 131/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 131/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020030

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. febrúar 2018 kærði […], fd. […], sem kveðst vera ríkisfanglaus (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Belgíu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. september 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Belgíu. Þann 19. september 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Belgíu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 26. september 2017 barst svar frá belgískum yfirvöldum þess efnis að þau synjuðu beiðni um endurviðtöku kæranda. Útlendingastofnun sendi beiðni um endurskoðun þann 29. september sl. og barst samþykki um endurviðtöku frá belgískum stjórnvöldum þann 4. október 2017 á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kæranda þann 16. nóvember 2017 og var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði kærunefndar nr. 16/2018, dags. 9. janúar 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Útlendingastofnun ákvað þann 22. janúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Belgíu. Kærandi kærði þá ákvörðun 12. febrúar 2018 og barst greinargerð kæranda kærunefnd 22. febrúar 2018 ásamt fylgigögnum.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Belgíu. Lagt var til grundvallar að Belgía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Belgíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun taldi að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í máli kæranda. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann á því að veita eigi honum vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, sbr. 39. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að í greinargerð með 39. gr. laga um útlendinga komi fram að óski umsækjandi um alþjóðlega vernd jafnframt eftir stöðu ríkisfangslauss einstaklings skuli leysa úr þeim málum samhliða. Fyrir liggi í málinu að belgísk stjórnvöld beri ábyrgð á efnislegri niðurstöðu á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og sé það því skylda þeirra að taka afstöðu til þess hvort kærandi sé ríkisfangslaus beri hann því við. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Belgíu, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi við skýrslutöku hjá lögreglu greint frá því að hann væri ríkisfangslaus en hann hafi afhent ljósrit af útrunnu dvalarleyfi frá Hvíta-Rússlandi. Þá kvaðst kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun glíma við margvísleg heilsufarsvandamál, m.a. bakvandamál þar sem hægri fótur hans sé styttri en vinstri, verki í mjóbaki, brjóskeyðingu, hryggskekkju, vandamál í nýrum, verki í hnjám, afleiðingar kjálkabrots, magasár og tannpínu í jöxlum. Kærandi kvaðst hafa leitað til lækna í Hvíta-Rússlandi og Belgíu vegna heilsufarsvandamála sinni. Þegar hann hafi fengið synjun í máli sínu í Belgíu hafi sú þjónusta hins vegar ekki verið lengur í boði. Þá kvaðst kæranda líða illa vegna aðstæðna sinna, aðallega vegna ríkisfangs- og heimilisleysis síðastliðin 18 ár. Kærandi hafi lent í nokkrum atburðum sem hafi haft hvað mest áhrif á líf hans, m.a. kynferðislegar ofsóknir karlmanna í heimaríki, Aserbaídsjan, vegna útlits síns og flótta frá heimaríki vegna herkvaðningar. Í heimaríki kæranda stundi konur ekki kynlíf fyrr en þær séu giftar og því væri kynþörf hjá karlmönnum afar mikil, en vegna frábrugðins útlit síns hafi hann verið í meiri áhættu en aðrir að verða fyrir áreiti. Þá kvaðst kærandi ekki vilja fara aftur til Belgíu, þangað hafi hann fyrst komið árið 2008 og dvalið í samfellt tvö ár eða þar til hann hafi fengið lokasynjun. Árið 2010 hafi hann síðan verið settur í varðhald í brottflutningsmiðstöð í þrjá mánuði en að lokum hafi honum verið sleppt þar sem belgískum stjórnvöldum hafi ekki tekist að flytja hann til Aserbaídsjan. Í brottflutningsmiðstöðinni hafi hann verið handjárnaður, sleginn í höfuðið og honum komið fyrir í bifreið. Öryggisvörður hafi svo komið honum fyrir í einangrunarklefa þar sem hann hafi verið í þrjá mánuði. Þá hafi komið í ljós að yfirvöld í Aserbaídsjan hafi verið búin að svipta hann réttindum sínum vegna þess að hann hafi flúið herskyldu og að refsing við slíku væri fimm til níu ára fangelsi og væru þau því ekki tilbúin til að taka á móti honum. Í Belgíu kvaðst kærandi hafa haft húsaskjól, fæði og lögfræðiþjónustu þar til hann hafi fengið lokasynjun. Þá hafi hann orðið fyrir aðkasti í Belgíu af hálfu múslima vegna trúleysis og hafi ekki getað leitað til lögreglunar vegna þess að hann hafi verið ólöglegur í landinu. 

Kærandi hefur lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni um ríkisfangsleysi og vergangs innan Evrópu síðastliðinn 18 ár. Þá hafi hann greint frá samskiptum sínum við sendiráðið í Aserbaídsjan varðandi beiðni um viðurkenningu á ríkisfangi sínu og vegabréfi þar um en því hafi verið hafnað á þeim grundvelli að honum hafi ekki verið kleift að framvísa skilríkjum útgefnum af yfirvöldum þar í landi til að sanna uppruna sinn. Kærandi kveður sig af þeim sökum vera í ómögulegri stöðu þar sem hann hafi flúið herskyldu um 17 ára gamall en í Aserbaídsjan séu vegabréf gefinn út við 18 ára aldur eða þegar herskyldu lýkur. Kærandi kveðst því í dag vera í sömu aðstöðu, þ.e. ríkisfangs- og skilríkjalaus. 

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um hæliskerfið í Belgíu. Þar kemur fram að þeir sem hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Belgíu og sæki aftur um slíka vernd geti þurft að bíða í allt að fjóra mánuði áður en umsókn þeirra fæst afgreidd, en á meðan fái þeir enga aðstoð frá stjórnvöldum. Þá hafi belgísk stjórnvöld dregið úr lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd og fækkað svo plássum á móttökumiðstöðvum að til vandræða horfi en á sama tíma hafi þau verið að beita varðhaldi í meira mæli en áður. Yfirvöld í Belgíu hafi jafnframt fengið á sig áfellisdóma frá Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að halda umsækjendum um alþjóðlega vernd of lengi í varðhaldi. Kærandi muni  standa frammi fyrir því að þurfa að sækja um alþjóðlega vernd að nýju og séu því allar líkur á því að hann verði hnepptur í varðhald, sbr. fyrri frásögn hans og  heimildir um aðstæður í Belgíu sem vísað sé til í greinargerð. Þá sé erfitt að finna lögfræðinga með næga þekkingu til að rökstyðja kærur með fullnægjandi hætti en áfrýjunarstigið (Council for Alien Law Litigation (CALL)) snúi örsjaldan við fyrstu ákvörðunum og beiti ekki að fullu heimildum sínum. Þá fái umsækjendur um alþjóðlega vernd mismunandi meðferð eftir því undir hvaða deild innan áfrýjunarstigsins mál þeirra falli en það hafi þessu til viðbótar fengið á sig áfellisdóm frá Mannréttindadómstólnum sökum rangrar málsmeðferðar.

Krafa kæranda er byggð á því að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til lögskýringargagna með ákvæðinu og nefnir að viðkvæm staða jafngildi sérstökum ástæðum og allir þeir sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli fá efnismeðferð hér á landi. Kærandi hafi flúið herskyldu í Aserbaídsjan, glímir við margvíslega líkamlega kvilla, líði andlega illa og hafi verið sviptur ríkisfangi sínu. Þá hafi hann verið frelsissviptur á brottflutningsmiðstöðu í Belgíu í um þrjá mánuði þar sem þarlend stjórnvöld hafi reynt að flytja hann til Aserbaídsjan án árangurs. Af framangreindu virtu sé ljóst að uppi séu sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga um að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að vegna aðbúnaðar og aðstæðna hans í Belgíu myndi endursending þangað brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi muni samkvæmt framangreindri umfjöllun standa frammi fyrir frelsissviptingu og ómannúðlegri meðferð við endursendingu til Belgíu og með áframsendingu þaðan til Aserbaídsjan.

Þá barst kærunefnd útlendingamála bréf frá Rauða krossinum varðandi gildistöku reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Þar koma m.a. fram sjónarmið um lagaskil, afturvirkni laga og andmælarétt.

V.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að belgísk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Belgíu er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli. 

Greining á sérþörfum sbr. 25. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi greindi frá í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. október 2017 að hann eigi við bakvandamál að stríða vegna þessa að hægri fótur sé styttri en sá vinstri. Þá eigi hann í vandræðum með mjóbakið, nýrun, hné, tennur, hafi verið kjálkabrotinn og sé með magasár. Þá kvaðst kæranda líða illa vegna ástand síns og vera áhyggjufullur, hann hafi m.a. orðið fyrir kynferðislegum ofsóknum áður en hann flúði heimaríki sitt, Aserbaídsjan. Í samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna dags. 27. september 2017 – 20. nóvember 2017, sem kærandi lagði fram með greinargerð sinni hjá kærunefnd, kemur m.a. fram að kærandi sé með hryggskekkju, slæmur í baki og sé með mislangar fætur. Þá kemur fram að hann sé með magabólgur og sé stressaður yfir ástandi sínu. Þá kemur jafnframt fram að kærandi hafi í eitt skipti sótt tíma hjá sálfræðingi þar.

Í ljósi gagna málsins metur kærunefnd líkamlegt og andlegt ástand kæranda ekki svo alvarlegt að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi. Kærunefnd telur að persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans séu ekki þess eðlis að hann teljist hafa sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem ekki verður talið að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Belgíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Belgíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Belgium (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017),
  • Belgium 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Freedom in the World 2017 – Belgium (Freedom House, 1. september 2017),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Belgium (Amnesty International, 22. febrúar 2018) og
  • The organisation of Reception Facilities in Belgium (European Migration Network, ágúst 2013).
  • Belgum: Reform Reducing Asylum Standards in Belgium to Minimum Requirements,http://www.asylumineurope.org/news/10-07-2017/belgium-reform-reducing-asylum-standards-belgium-minimum-requirements - (frétt af vef Asylum Information Database, skoðað 12. mars 2018)

Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar geta sótt um alþjóðlega vernd á flugvellinum við komu til Belgíu eða hjá útlendingastofnun (b. Dienst Vreemdelingenzaken) þar í landi. Stofnun sem fer með umsóknir um alþjóðlega vernd (b. Commissariaat-generaal voor de vluchtelingen en de staatlozen (CGVS)) tekur ákvarðanir um umsóknir um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi. Ákvarðanir hennar eru kæranlegar til stjórnsýsludómstóls í útlendingamálum (b. Raad voor Vreemdelingenbetwistingen) (e. Council for Alien Law Litigation (CALL)). Fái umsækjendur endanlega synjun á umsókn sinni eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn hjá útlendingastofnun. Liggi nýjar upplýsingar fyrir í málinu, sem auka möguleika viðkomandi umsækjanda á því að fá alþjóðlega vernd, sendir útlendingastofnun málið til CGVS sem svo metur innan átta virkra daga hvort umsóknin verði tekin til efnismeðferðar. Umsækjandi á rétt á félagslegri aðstoð sé samþykkt að taka viðbótarumsókn til efnismeðferðar. Þá geta umsækjendur borið mál sitt undir belgíska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Belgíu eiga rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds á öllum stigum málsins, þ. á m. við að leggja fram viðbótarumsókn. Að sama skapi er þeim tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Af ofangreindum gögnum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu má jafnframt ráða að þegar umsækjendur eru endursendir til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er umsókn þeirra skoðuð sem viðbótarumsókn. Í þeim tilfellum er umsækjendum veitt húsnæði, mataraðstoð og vasapeningar þegar CGVS hefur tekið viðbótarumsókn þeirra til skoðunar. Þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem settir eru í varðhald við komu til Belgíu eiga rétt á lögfræðiaðstoð án endurgjalds og eiga jafnframt rétt á því að skjóta ákvörðun um varðhaldsvist til dómstóla. Þá kemur fram að hámarkslengd vistunar í varðhaldi séu tveir mánuðir en að vistin geti verið framlengd ef að ákvörðun er kærð, að hámarki í fimm mánuði með ákveðnum undantekningum sem varða almannahagsmuni eða öryggi ríkisins.   

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Belgíu brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Belgíu bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá er Belgía aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi, sem kom hingað einn til lands, hefur líkt og að framan greinir greint frá ýmsum líkamlegum kvillum og hefur lagt fram gögn frá Göngudeild sóttvarna. Þá kvaðst kæranda líða illa vegna aðstæðna sinna en hann hafi verið ríkisfangs- og heimilislaus síðastliðinn 18 ár. Þá hafi hann flúið heimaríki sitt, Aserbaídsjan, til að komast undan herkvaðningu en þar hafi hann m.a. einnig orðið fyrir kynferðislegum ofsóknum. Þá kvaðst kærandi hafa fengið heilbrigðisþjónustu í Belgíu en þegar hann hafi fengið synjun í máli sínu hafi sú þjónusta ekki lengur verið í boði. Einnig hafi hann orðið fyrir aðkasti í Belgíu vegna trúleysis.

Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Belgíu má ráða að umsækjendur eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Telur kærunefnd því ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Að mati kærunefndar bera gögn málsins, þ. á m. upplýsingar í samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna ekki með sér að heilsufar hans sé með þeim hætti að framkvæmd vegna synjunar á að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi hafi í för með sér verulegar eða óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans.

Í ljósi aðstæðna í Belgíu og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, er það mat kærunefndar að kærandi komi ekki til með að eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, m.a. vegna alvarlegrar mismununar. Kærandi geti leitað sér verndar aðstoðar yfirvalda í Belgíu óttist hann að á honum verði brotið. Það er því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. október 2017 eiga nú vini hér á landi en að öðru leyti ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 15. september 2017. 

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og andmælaréttur

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars sl. voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Að mati kærunefndar fól gildistaka reglugerðarinnar ekki í sér íþyngjandi breytingar á réttarstöðu kæranda. Koma því sjónarmið um afturvirkni laga, að því marki sem þau kynnu að vera sambærileg varðandi setningu stjórnvaldsfyrirmæla, ekki til skoðunar þessu máli.

Þá verður ekki litið svo á setning reglugerðarinnar feli í sér að ný gögn eða upplýsingar hafa bæst við í máli hans sem kæranda hafi verið ókunnugt um. Stendur andmælaréttur aðila máls því ekki í vegi fyrir því að kærunefnd úrskurði í málinu þótt kæranda hafi ekki verið veitt sérstakt tækifæri til að koma að sjónarmiðum varðandi setningu umræddrar reglugerðar. Í því sambandi áréttar kærunefnd að kærandi hefur ekki óskað eftir því að málinu verði frestað, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samantekt

Í máli þessu hafa belgísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Belgíu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

                                                                                             

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta