Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tungumálið vinnur með tækninni

Markmið aðgerðaáætlunar um máltækni er að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við margskonar tæki og í upplýsingavinnslu. Með máltækni er átt við samvinnu og samspil tungumálsins og tölvutækninnar en það mun skipta lykilmáli í því að stuðla að stafrænni framtíð íslenskunnar. Nú er unnið eftir máltækniáætlun stjórnvalda og miðar því verkefni vel, í því er lögð áhersla á þrjá meginþætti; uppbyggingu innviða, nýsköpun í máltækni og víðtækt samstarf.

„Tungumálið er lykillinn að fortíð okkar og framtíð. Það geymir kjarna okkar menningar og það er mikið í húfi fyrir okkur, sem og aðrar þjóðir, sem vilja viðhalda móðurmálum og stuðla að menningarlega fjölbreytni. Nú er unnið að því á mörgum vígstöðvum að tryggja framtíð íslenskunnar, þar á meðal með fjölþættum aðgerðum sem kynntar voru í ályktun Alþingis um það verkefni í vor. Máltækniverkefnið er metnaðarfullt og mikilvægt en afrakstur þess mun bæði nýtast okkur og komandi kynslóðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Samið var við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunarinnar. Hún var stofnuð árið 2014 með það markmið að stuðla að smíði máltæknilausna fyrir íslensku. Stofnaðilarnir eru tuttugu en þar á meðal eru háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Almannarómur hefur samið við félagið SÍM (Samstarf um íslenska máltækni) um vinnu við kjarnaverkefni og smíði innviða sem taka til fyrsta áfanga máltækniáætlunar þar sem áhersla er lögð á söfnun og vinnslu gagna. Mikil áhersla er einnig lögð á samstarf fræðasamfélagsins og atvinnulífsins í framkvæmdaáætlun verkefnisins og endurspeglar samningurinn það. Jafnframt var í byrjun september gerður viðauki við grunnsamning mennta- og menningarmálaráðuneytis og Almannaróms þar sem kveðið er á um eftirlit með skilum á verkefnum og greiðsluáætlun.

Fyrirhuguð er ráðstefna um máltækniverkefnið og samstarf þess við atvinnulífið þann 16. október nk. og á degi íslenskrar tungu, hinn 16. nóvember, verður viðburður þar sem leitt verður saman áhugafólk um máltækni og stjórnendur nýsköpunar- og sprotafyrirtækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta