Hoppa yfir valmynd
23. júní 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntakerfi Eistlands í fremstu röð

Eistland og Ísland standa frammi fyrir áþekkum áskorunum í menntamálum. Þetta kom fram á fundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Mailis Reps mennta- og vísindamálaráðherra Eistlands á dögunum en þær ræddu m.a. leiðir ríkjanna til þess að efla verk-, iðn- og starfsnám og fjölga kennurum. Fundurinn var liður í ferð ráðherra en hún fylgdi forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni, í opinberri heimsókn til Eistlands. Mailis Reps hefur gengt embætti mennta- og vísindamálaráðherra með hléum síðan 2002 en hún var 27 ára þegar hún tók fyrst við embættinu.

Eistar hafa unnið eftir menntaáætlun frá árinu 2014 þar sem lögð er áhersla á að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar við hæfi. Í alþjóðlegum samanburði hefur eistneska skólakerfið komið sérstaklega vel út árangursmælingum þegar kemur að kennslu í vísindum, lestri og stærðfræði. Farið var í umtalsverðar umbætur í menntakerfinu fyrir rúmlega 15 árum, sem hafa skilað þeim afar góðum árangri að undanförnu. Félagslegar aðstæður eistneskra nemenda hafa til að mynda lítil áhrif á árangur þeirra í alþjóðlegum samanburði enda hefur verið lögð sérstök áhersla á jöfnuð innan skólakerfisins þar.

„Að mörgu leyti takast Ísland og Eistland á við svipaðar áskoranir í menntamálum. Ég greindi Reps frá vinnu okkar við menntastefnu Íslands til ársins 2030 þar sem áskoranir í menntamálum eru kortlagðar á heildrænan hátt. Líkt og vinir okkar í Eistlandi leggjum við áherslu á jöfn tækifæri til náms óháð aðstæðum, sókn í málefnum kennara og eflingu verk-, iðn- og starfsnáms. Ég tel að við getum lært ýmislegt af Eistum, en þeir standa til að mynda mjög framarlega í hagnýtingu á upplýsingatækni á ýmsum sviðum þjóðfélagsins,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra að fundi loknum.

Ísland og Eistland eiga í góðu tvíhliða samstarfi í menntamálum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur tekið á móti hópum úr eistneska mennta- og stjórnkerfinu og Háskóli Íslands er með samstarfssamninga við háskóla í Eistlandi. Þá taka löndin þátt í sameiginlegum verkefnum í gegnum ERASMUSPLUS og Uppbyggingasjóð EFTA.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta