Hoppa yfir valmynd
25. október 2020 Innviðaráðuneytið

Opnun Dýrafjarðarganga marka tímamót fyrir samgöngur á Vestfjörðum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnar Dýrafjarðargöng með símtali í vaktstöð Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar fylgist með. Á skjánum sést rúta með grunnskólabörnum á Þingeyri bíða eftir að fara fyrst í gegnum göngin. - mynd

Tímamót urðu í samgöngum á Vestfjörðum í dag þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði göngin formlega ásamt Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar. Opnunin var með óvenjulegu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu. Ráðherra opnaði göngin með því að hringja frá Reykjavík í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði og biðja um að slám við gangamunnana yrði lyft og opna þar með fyrir umferð. Ávörpum var útvarpað á sérstakri FM-tíðni fyrir heimafólk sem sat í bílnum beggja vegna ganganna í Dýrafirði og Arnarfirði. Dagskránni var einnig streymt í beinni vefútsendingu á Facebook.

„Dýrafjarðargöng skipta sköpum fyrir byggðir og búsetu á Vestfjörðum. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðarvegur um 27,4 km og þau leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi, sem oft hefur reynst erfiður og hættulegur farartálmi. Göngin bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár. Með nýjum göngum og vegaframkvæmdum á Dynjandisheiði verður til ný heilsársleið og hringtenging um Vestfirði. Það er ekki spurning í mínum huga að Dýrafjarðargöng munu koma Vestfjörðum í heilsársvegasamband og styrkja atvinnugreinarnar, fiskeldi og ferðaþjónustu og skila sér margfalt til baka til samfélagsins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ávarpi sínu í dag.

Grunnskólabörn á Þingeyri fyrst í gegn

Börn úr Grunnskólanum á Þingeyri fóru fyrst í gegnum Dýrafjarðargöng en með þeim í för var Gunnar G. Sigurðsson sem mokað hefur Hrafnseyrarheiði í nærri hálfa öld. Síðustu ár hafa börn í skólanum tekið virkan þátt í að þrýsta á samgöngubætur. Fyrr í ár sendu nemendur skólans bréf til samgönguráðherra þar sem þau óskuðu eftir að fá fara fyrst í gegnum göngin. Ráðherra tók vel í þessa beiðni og sendi nemendunum svarbréf þar sem hann hrósaði krökkunum fyrir frumkvæðið og að taka ábyrgð á því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu sínu.

Styttir vegalengdir og eykur öryggi

Með tilkomu Dýrafjarðarganga styttist Vestfjarðarvegur um 27,4 km þar sem leiðin yfir Hrafnseyrarheiði sem lengi hefur verið helsti farartálminn leggst af yfir vetrarmánuðina en þar eru mikil snjóþyngsli og mikil snjóflóðahætta efst á heiðinni. Með þessu er hægt að tryggja góðar samgöngur á Vestfjarðavegi (60) milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem er stór þáttur í að ná aðalmarkmiðinu um heilsárs vegasamband milli vestfirskra byggða.

Nú þegar hefur Vegagerðin hafist handa við næsta áfanga sem er nýr og endurbættur vegur yfir Dynjandisheiði og má ætla að þessu meginmarkmiði um heilsárs vegasamgöngur á Vestfjörðum verði náð innan fárra ára.

Um framkvæmd verksins

Aðalverktaki við gerð Dýrafjarðarganga var Metrostav a.s. og Suðurverk hf. en umsjón og eftirlit var í höndum GeoTek ehf. og Eflu hf. Vestfirskir verktakar ehf. byggðu brýrnar. Rafskaut ehf. sá um raflagnir, Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. sá um malbikun og Rafeyri sá um stjórnkerfi ganganna. Framkvæmdir hófust í júlí 2017.

 
  • Þröstur Jóhannesson í vaktstöð Vegagerðarinnar á Vestfjörðum tekur við fyrirmælum um að opna Dýrafjarðargöng. - mynd
  • Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, flytur ávarp við opnun Dýrafjarðarganga í beinni vefútsendingu. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp við opnun Dýrafjarðarganga. - mynd
  • Það ríkti mikil eftirvænting meðal íbúa Vestfjarða að fá að fara í gegnum nýju Dýrafjarðargöngin í dag. - mynd
  • Dýrafjarðargöng eru 5,6 km að lengd og stytta Vestfjarðaveg um 27,4 km. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta