Hoppa yfir valmynd
31. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 5/2022

Fimmtudaginn 31. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2021, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. október 2019 og var umsóknin samþykkt 30. október 2019. Þann 15. september 2021 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á umræddu starfi. Skýringar bárust frá kæranda þann 18. október 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans yrði felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Frekari skýringar bárust frá kæranda þann 7. desember 2022 og óskað var eftir endurupptöku málsins. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. desember 2021, var beiðni um endurupptöku málsins hafnað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. janúar 2022. Með bréfi, dags. 7. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 15. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 7. mars 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ákvörðun í máli hans hafi ekki verið byggð á réttum upplýsingum og staðreyndum. Þar að auki hafi ákvörðunin ekki verið byggð á neinum opinberum eða lagalegum gögnum. Hann vilji því kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um meinta synjun á atvinnutilboði.

Að mati kæranda, bæði persónulegu og fagmannlegu, sé ákvörðunin byggð á röngum staðreyndum og ætti því ekki að vera gild. Enn fremur hafi ákvörðunin ekki verið studd neinum opinberum, lagalegum gögnum. Þá hafi ákvörðunin ekki verið byggð á neinum sönnunargögnum. Til þess að stjórnvaldsákvörðun sé gild þurfi hún að uppfylla tvö grundvallarskilyrði. Í fyrsta lagi þurfi staðreyndir að vera sannar, sannreyndar og í samræmi við úrskurðinn. Í öðru lagi þurfi málsmeðferð að vera í samræmi við réttarfarsreglur. Bæði skilyrðin þurfi að vera uppfyllt til að ákvörðunin teljist gild. Kærandi telji þetta ekki hafa verið uppfyllt í sínu tilfelli.

Kærandi hafi ekki hafnað atvinnutilboði, hann hafi ekki haft möguleika á slíku þar sem honum hafi ekki verið boðið neitt starf. Lýsing á nákvæmri atburðarrás sé í meðfylgjandi bréfi til nefndarinnar. Mistök eða misskilningur hafi getað átt sér stað í samskiptum. Kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi einungis verið í sambandi við eiganda umrædds fyrirtækis. Hann hafi hins vegar sjálfur rætt við starfsmann fyrirtækisins frá Póllandi, enda hafi þeir rætt saman á pólsku. Sá hafi haft samband við eigendur fyrirtækisins fyrir hönd kæranda og þá væntanlega vísað til hans. Í lok samtals kæranda við starfsmanninn þar sem kærandi hafði greint frá því að hann myndi mögulega flytja frá Íslandi, hafi starfsmaðurinn sagst ætla að segja eigandanum að kærandi væri ekki besti kosturinn fyrir fyrirtækið vegna mögulegs flutnings og að þeir þyrftu því að finna annan í starfið. Þetta sé ástæðan fyrir því að misskilningur hafi átt sér stað í samskiptunum, líklega fyrst á milli starfsmannsins sem kærandi hafi rætt við og þess sem beri ábyrgð á samskiptum fyrirtækisins og seinna þess einstaklings og Vinnumálastofnunar.

Þetta breyti þó ekki þeirri staðreynd að kærandi hafi ekki brotið regluna um höfnun atvinnutilboðs þar sem honum hafi hvorki boðist starf né atvinnuviðtal. Á þeim grundvelli ætti ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki að vera gild. Rökin á bak við að engin gögn séu til séu þau að þetta hafi aldrei átt sér stað. Ákvörðunin sé byggð á „einhver sagði það“ sem sé algerlega óásættanlegt og hafi ekkert gildi í opinberum úrskurði. Kærandi taki sem dæmi að nágranni sinn myndi segja lögreglunni að hann hafi myrt konuna sína en hann myndi svara að svo væri ekki. Ef hann yrði engu að síður settur í fangelsi væri honum refsað fyrir eitthvað sem einhver segði vegna þess að honum væri trúað og ekkert annað yrði gert í því. Konan hans sé hins vegar í sólbaði á Akureyri. Svo fáránlegt og óréttlátt þyki kæranda þetta.

Varðandi málsmeðferðina taki kærandi fram að eftir að hann hafi fengið fyrsta bréfið frá Vinnumálastofnun hafi hann orðið hissa. Hann hafi haldið að það hafi verið um að ræða smávægileg mistök, misskilning og rangtúlkun. Hann hafi haft rangt fyrir sér. Svarið hafi verið að hann ætti að fara til læknis og fá vottorð um að hann væri vinnufær eða ekki og fær um að hefja störf. Hann haldi að enginn hafi lesið vandlega það sem hann hafi skrifað í skýringum til stofnunarinnar. Útgangspunkturinn þar hafi verið að hann hafi ekki hafnað atvinnutilboðinu. Ekkert sem hafi gera með líkamlega getu til að vinna. Ef eitthvað hafi verið nefnt um heilsu hafi það verið vegna þess að í símtali sínu við starfsmann umrædds fyrirtækis hafi þeir rætt lítillega um líf þeirra erlendis og kærandi hafi sagt honum frá hnémeiðslum sem hann hafi orðið fyrir á fótboltaæfingu. Um hafi verið að ræða minniháttar og tímabundin meiðsli sem hann hafi glímt við þá vikuna. Þetta hafi ekki verið hluti af samtali þeirra sem sneri að starfinu og klárlega ekki sagt sem afsökun fyrir neinu.

Seinna hafi kærandi haft samband í gegnum kunningja sinn við starfsmann Vinnumálastofnunar og eftir að viðkomandi hafi lesið um málið hafi hann líka verið hissa. Viðkomandi starfsmaður hafi sagt að hann hafi aldrei séð slíkan úrskurð áður og gæti verið um að ræða ónákvæma skoðun hjá fulltrúa stofnunarinnar eða skoðun í miklum flýti vegna álags í vinnu sem kærandi skilji vel. Honum hafi verið ráðlagt að senda frekari skýringar til stofnunarinnar og viðkomandi hafi talið að þá gæti þetta verið leiðrétt. Það hafi hann gert.

Í öðru bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar hafi hann bent á um hvað málið snerist. Þetta hafi ekkert að gera með heilsuna, hann hafi ekki neitað atvinnutilboðinu, hann hafi ekki getað það þar sem honum hafi ekki verið boðið starf, líkt og hann telji sig hafa skýrt greinilega frá í fyrsta bréfinu til þeirra. Svarið frá Vinnumálastofnun hafi verið óbreytt ákvörðun þar sem engar nýjar upplýsingar hafi komið fram. Hann hafi ekki verið hissa. Honum hafi verið brugðið. Ef það að ákvörðunin hafi verið byggð á röngum upplýsingum og ætti þar af leiðandi ekki að vera gild séu ekki nýjar upplýsingar, sé verið að segja að það sé vitað nú þegar. Kærandi spyrji hvernig sé hægt að standa við slíkan úrskurð. Það líti út fyrir að vísvitandi hafi verið tekin röng og ólögleg ákvörðun.

Vinnumálastofnun þurfi að leggja fram sannanir lögum samkvæmt. Það hafi ekki verið gert. Einstaklingur ætti ekki að bera sönnunarbyrðina og sanna sakleysi sitt. Ef þess þurfi muni kærandi gera allt til þess. Það væri ekki rétt frá sjónarhóli réttarfars en hann muni vera reiðubúinn til þess ef hann þurfi. Svo óréttlátt sé þetta fyrir kæranda.  

Þetta gæti litið út eins og lítið mál. Málið snúist ekki um stórar fjárhæðir eða miklar afleiðingar. Þetta sé hins vegar stórmál fyrir kæranda. Hann hafi verið sakaður um rangt mál og refsað að ástæðulausu. Hann hafi aldrei gert neitt í andstöðu við lög og reglur. Honum líði eins og þetta hafi á einhvern hátt raskað heiðarleika hans. Hann hafi verið ranglega sakaður á grundvelli ósannra staðreynda og þess vegna vilji hann vera sýknaður. Hann hafi verið móðgaður, skammast sín, verið reiður og vonsvikinn. Hann skilji ekki hvernig hafi verið hægt að taka slíka ákvörðun. Hann vilji trúa því að þetta hafi verið mistök, misskilningur eða jafnvel þekkingarleysi. Hann vilji trúa því að þetta hafi ekkert með það að gera að hann sé útlendingur og hafi ekki góða færni í íslensku.

Kærandi sé ánægður með þær staðreyndir sem hann hafi lagt fram og sé 100% viss um að þær staðreyndir sem settar hafi verið fram í ákvörðuninni séu rangar. Hann sé einnig viss um lagalega þáttinn. Hann hafi lært slóvakískan- og evrópskan rétt og samkvæmt honum sé ljóst að málsmeðferðin og ákvörðunin geti ekki verið gild. Hann viðurkenni að hann sé ekki sérfræðingur í íslenskum rétti, þrátt fyrir að hann hafi ekki trú á að slík málsmeðferð geti verið lögleg í neinu lýðræðisríki, og því geti mögulega verið einhver frávik hjá honum varðandi lagalegu þættina. Það sé hins vegar ekki hægt að taka lagalega gilda ákvörðum, byggða á röngum upplýsingum og röngum fullyrðingum um staðreyndir. Hann vilji því leggja áherslu á staðreyndaþáttinn, þrátt fyrir að hann líti svo á að báðir þættir séu ófullnægjandi.

Krafa kæranda sé einföld. Að brugðist sé við broti á meginreglum laga, sanngirni og siðferði í málinu. Að mati kæranda og frá lagalegu sjónarhorni sé það skýrt. Það sé ósk kæranda að ákvörðunin verði leiðrétt og henni snúið við.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að greinargerð Vinnumálastofnunar hafi staðfest það sem kærandi hafi haldið fram að um sé að ræða „einhver sagði það“ mál. Það séu engar sannanir fyrir því að kærandi hafi hafnað neinu, hann hafi hvergi skrifað undir slík skjöl. Stofnunin hafi ekki sannað fullyrðingar sínar, enda séu þær ekki sannar og enginn geti lagt fram sannanir um eitthvað sem hafi aldrei gerst. Kærandi standi við það sem hann hafi skrifað í kærunni. Ef Vinnumálastofnun líti eingöngu á eina hlið málsins sem sönnun viji kærandi taka fram að annars vegar hafi verið fyrir hendi milliliðalaus yfirlýsing frá kæranda úr samtali sínu við starfsmann B. Hins vegar hafi verið fyrir hendi yfirlýsing frá eiganda félagsins til Vinnumálastofnunar. Eigandinn hafi fengið söguna af símtalinu á ensku frá pólskum einstaklingi. Símtalið hafi verið á milli Pólverja og Slóvaka og farið fram á ensku og pólsku. Þar sé mikið svigrúm fyrir misskilning í samskiptum og/eða þýðingu, hafi framburðinum ekki verið breytt viljandi. Ef sönnun sé eingöngu byggð á munnlegum framburði, samkvæmt túlkun Vinnumálastofnunar, telji kærandi það vera skýrt hvor yfirlýsingin ætti að teljast hlutlægt séð nær sannleikanum.

Kæranda, sem hafi lögfræðimenntun, þyki enn skrýtið að hugsa til þess að eitthvað sem einhver segi, í rauninni bara orðrómur, sé notað sem haldbært sönnunargagn. Engin pappírsvinna, engin undirrituð skjöl, alls engin gögn. Þetta finnist honum ekki rétt og sé sannfærður um að svo sé ekki. Svo virðist sem það vanti í kerfið eyðublöð fyrir höfnun á starfi til að forðast aðstæður eins og í þessu tilviki.

Ef kærandi skilji þetta rétt þá snúist rökstuðningur Vinnumálastofnunar um að lögin segi að „símtal sé sjálfkrafa atvinnutilboð“. Kærandi telji það mjög rúma túlkun á lögunum. Hann velti upp eftirfarandi spurningum: Hvað ef símtalið myndi ekki snúast um starfið eða ef það sé bara verið að hringja til að segja að þeir hafi því miður enga vinnu? Hvað ef það sé verið að hringja til að segja að þeir hafi starf en þeir vilji ekki bjóða þér það vegna þess að þeir vilji ekki taka áhættuna að þú dveljir ekki nógu lengi í landinu? Hvað ef þeir segi við þig að þeir ætli ekki að bjóða þér starfið því að þú hentir þeim ekki? Kærandi spyrji hvort þetta sé enn talið sem atvinnutilboð og neitun á starfi. Hvort öllum sé sama um innihald símtalsins og hvort þetta sé rétt túlkun á lögunum. Jafnvel þó að þetta komi fram í einhverjum lögum sé mikilvægt að túlka rétt þau lög sem eigi við. Þeim ætti ekki að vera beitt í þessu tilviki því að það myndi þýða að úrskurðurinn væri byggður á röngum upplýsingum og hugsanlega byggður á lygi frá eiganda fyrirtækisins, ekki Vinnmálastofnun.

Mögulega sé röng fullyrðing B, meðvitað eða ómeðvitað, að valda öllum vandræðum og misskilningi. Mögulega hafi kærandi getað sent starfshæfnivottorð sitt til Vinnumálastofnunar fyrr og þannig getað forðast þessa kæru og sparað tíma. Það hafi ekki verið rétt á þeim tíma. Málið hafi verið hafið og það hefði getað litið út fyrir að kærandi væri að viðurkenna að hafa ekki gefið réttar upplýsingar og rétta skýringu á símtalinu. Það hefði getað litið út eins og hann hefði hafnað atvinnutilboði vegna menntunar sinnar eða af hvaða ástæðu sem er en svo hafi ekki verið raunin. Kærandi muni ekki breyta frásögn sinni því að hann vilji ekki beygja sannleikann. Hann hafi ekki hafnað atvinnutilboði, hann hafi aldrei fengið slíkt tilboð. Kannski hefði verið fljótlegri og öruggari lausn fyrir hann að senda vottorðið. Hann hafi hins vegar ekki viljað fara fljótlegu leiðina heldur þá réttu.

Kærandi spyrji hvort Vinnumálastofnun hafi fært sönnur fyrir því að hann hafi gert eitthvað andstætt lögum og hvort ákvörðun þeirra og refsing hafi verið byggð á sögusögnum eða raunverulegum sönnunargögnum, studd opinberum gögnum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 4. október 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt. Þann 15. september 2021 hafi Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Í upplýsingum frá atvinnurekanda komi fram að kærandi hafi hafnað starfi því að hann væri að flytja frá Íslandi. Með erindi, dags. 11. október 2021, hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til málsins. Þann 18. október 2021 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar frá kæranda. Þar hafi kærandi greint frá því að hafa fengið símtal frá B og í kjölfar samtalsins hafi fyrirsvarsmaður fyrirtækisins talið kæranda ekki réttan í starfið og þar með hafi samtali þeirra lokið. Kærandi hafi sagst halda að honum hafi ekki verið boðið starf því að hann hafi ekki haft þá reynslu sem óskað hafi verið eftir og þar að auki hafi hann átt við heilsufarsvandamál að stríða. Kærandi hafi áréttað að hann hefði ekki hafnað starfi, enda hafi honum hvorki boðist starfið né að mæta í starfsviðtal.

Með erindi, dags. 25. október 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans á höfnun atvinnutilboðs hafi ekki verið metnar gildar og að bótaréttur hans hafi verið felldur niður í tvo mánuði. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ef læknis- eða starfshæfisvottorð bærist stofnuninni kynni mál hans að vera tekið til endurumfjöllunar. Þann 7. desember 2021 hafi frekari skýringar borist frá kæranda. Kærandi hafi ítrekað að hafa ekki hafnað umræddu starfi, enda hafi honum aldrei boðist starfið. Kærandi hafi sagst vera almennt við góða heilsu, en hafi hlotið tímabundin meiðsli á hné. Hann hafi minnst á það í símtalinu við atvinnurekanda en ekki í þeim tilgangi að hafna starfinu. Þá hafi kærandi greint frá því að ætlun hans hafi verið að flytja frá Íslandi í nokkra mánuði og að hann hafi minnst á það í símtalinu. Kærandi hafi talið það vera ástæðu þess að honum hafi ekki boðist starfið því að atvinnurekandinn hafi verið að leita að starfsmanni til lengri tíma. Hafi kærandi talið ákvörðun stofnunarinnar byggða á röngum upplýsingum og hafi því óskað eftir að ákvörðunin yrði tekin til endurskoðunar. Með erindi, dags. 15. desember 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að beiðni hans um endurupptöku á ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. október væri hafnað þar sem engar nýjar upplýsingar hafi borist frá kæranda sem kynnu að hafa þýðingu.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kveði kærandi ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki byggða á réttum upplýsingum og staðreyndum. Reki kærandi samtal sitt við fyrirsvarsmann atvinnurekandans og greini frá því að hann hafi ekki verið talinn hæfur í starfið í kjölfar þess að hann hafi greint viðkomandi frá því að hann hygðist bráðlega flytja af landi brott. Hann árétti að honum hafi ekki boðist að taka starf hjá B og því hafi hann ekki hafnað starfi. Kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ólögmæta þar sem hún byggi hvorki á réttum staðreyndum né viðhlítandi gögnum. Þá telji kærandi að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna beiðni hans um endurumfjöllun á ákvörðun stofnunarinnar um viðurlög standist ekki skoðun.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Þá sé sérstaklega tekið fram í f. lið 1. mgr. 14. gr. að atvinnuleitandi þurfi að vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í greinargerð við frumvarp það er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega tekið fram að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þyki mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi.

Ágreiningur í máli þessu snúi einkum að því hvort kærandi hafi hafnað starfi hjá B í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sjálfur kveðst kærandi ekki hafa hafnað starfi, enda hafi honum aldrei verið boðið starfið né að mæta í atvinnuviðtal. Þá hafi hann aðeins talað við fyrirsvarsmann atvinnurekanda í síma. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé hvergi kveðið á um að atvinnuviðtal skuli fara fram með ákveðnum hætti. Aftur á móti, óháð því hvort telja megi símtal það sem hafi átt sér stað á milli kæranda og atvinnurekanda til atvinnuviðtals, þyki Vinnumálastofnun ljóst að símtalið hafi verið undanfari boðunar til atvinnuviðtals eða undanfari starfstilboðs. Í ljósi niðurlags ákvæðis 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að líta verði á umrætt símtal sem atvinnuviðtal. Eins og áður segi skipti þó ekki sköpum hvernig á símtalið verði litið, enda hafi það að hafna því að fara í atvinnuviðtal sömu áhrif og ákvörðun um að taka ekki starfi sem bjóðist.

Kærandi hafi greint bæði Vinnumálastofnun og úrskurðarnefndinni frá því að í kjölfar þess að hann hafi greint atvinnurekanda frá því að hann hygðist flytja frá Íslandi hafi atvinnurekandi ekki talið hann hæfan í starfið þar sem leitað hafi verið að starfsmanni til lengri tíma. Kveði kærandi það vera ástæðu þess að honum hafi ekki verið boðið umrætt starf. Þá hafi B jafnframt greint Vinnumálastofnun frá því að kærandi hafi hafnað starfi því að hann væri að flytja af landi. Eins og áður segi hafi kærandi ítrekað greint frá því að hann hafi ekki hafnað starfi. Hann hafi ekki verið rétti starfsmaðurinn í starfið að mati atvinnurekanda þar sem leitað hafi verið að starfsmanni til lengri tíma. Vinnumálastofnun fallist ekki á framangreindar skýringar kæranda. Framferði kæranda hafi augljóslega ekki verið til þess fallið að honum yrði boðið að mæta í atvinnuviðtal eða boðið umrætt starf. Framferði atvinnuleitanda sem í atvinnuviðtali segist fremur ætla að flytja af landi en að taka starfi sem bjóðist megi að öllu jafna við að hafna starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun gert að meta hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg. Í 4. mgr. 57. gr. segi orðrétt:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Fyrir liggi að kærandi hafi greint frá því að hann hygðist flytja frá Íslandi innan skamms tíma og hafi kærandi í kjölfarið ekki verið talinn hæfur til starfsins. Vinnumálastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framferði kæranda megi jafna við höfnun á starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laganna. Þá sé það jafnframt niðurstaða Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda þess efnis að hann hafi haft í huga að flytja af landi brott, séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að þeir atvinnuleitendur sem hyggist flytja af landi brott innan tiltekins tíma verði að sæta því að þeir kunni að verða beittir viðurlögum, hafni þeir starfi eða ef starf standi þeim ekki til boða af þeirri ástæðu. Að öðrum kosti geti þeir atvinnuleitendur, sem hyggist flytja af landi brott, komist hjá skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun vísi máli sínu til stuðnings einkum til ákvæðis d-liðar 1. mgr. 14. gr. laganna en að mati Vinnumálastofnunar hafi atvinnuleitandi, sem hyggst flytja af landi brott innan skamms tíma, ekki getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Enn fremur veki Vinnumálastofnun athygli á því að fyrir liggi að kærandi hafi ekki enn flutt og það sé jafnframt háð óvissu hvort eða hvenær hann muni koma til með að flytja frá Íslandi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, að sögn kæranda. Þyki Vinnumálastofnun það styðja enn frekar niðurstöðu stofnunarinnar, enda hafi kærandi þannig greint atvinnurekanda frá áformum sínum um að flytja frá Íslandi sem hafi orðið til þess að hann hafi ekki fengið umrætt starf en ekkert hafi svo orðið úr þeim áformum. Að mati Vinnumálastofnunar megi jafna aðstæðum í máli kæranda við atvinnuleitanda sem hafi hafnað starfi á þeim grundvelli að honum standi mögulega annað starf til boða, en síðar komi í ljós að viðkomandi hafi ekki verið ráðinn í það starf. Í því samhengi hafi það verið afstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti almennt ekki hafnað starfi, eða hafnað því að mæta í atvinnuviðtal, á þeim forsendum að annað starf standi þeim mögulega til boða, og þá enn síður ef fyrir liggi að það starf sé háð mikilli óvissu. Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að skýringar hans séu ekki gildar, sbr. 4. mgr. sömu greinar.

Kærandi hafi ítrekað gert athugasemdir við það að Vinnumálastofnun hafi ekki byggt ákvörðun um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna á réttum staðreyndum. Þá kveði hann engin haldbær gögn liggja fyrir í máli hans sem styðji ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í þessu samhengi vilji Vinnumálastofnun vekja athygli á því að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á skýringum kæranda sjálfs og hvernig hann lýsi atburðum. Önnur gögn, svo sem skýringar atvinnurekanda, hafi aðeins haft þýðingu til stuðnings skýringum kæranda. Því hafni Vinnumálastofnun fullyrðingum kæranda þess efnis að ákvörðun stofnunarinnar sé ekki byggð á réttum staðreyndum og gögnum.

Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað starfi hjá B og skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Samkvæmt gögnum málsins var ferilskrá kæranda send til B þann 9. september 2021. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 15. september að kærandi hefði hafnað starfi vegna flutnings frá Íslandi. Kærandi hefur vísað til þess að hafa ekki hafnað atvinnutilboði þar sem honum hafi ekki boðist starfið. Enn fremur hefur kærandi greint frá því að hafa í símtali við atvinnurekanda upplýst hann um að til stæði að flytja frá Íslandi. Atvinnurekandinn hafi verið að leita að einstaklingi til lengri tíma og hafi af þeim sökum ekki boðið honum starfið.

Að mati úrskurðarnefndarinnar voru viðbrögð kæranda í framangreindu símtali þess eðlis að þau jafngildi höfnun á starfi, enda ljóst að frásögn hans um mögulegan flutning af landi varð til þess að ekki kom til greina að ráða hann í starfið. Úrskurðarnefndin bendir á að eitt af skilyrðum þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í því felst meðal annars að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. d. lið 1. mgr. ákvæðisins. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður og skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. október 2021, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta