Skýrsla starfshóps um fjármögnun flýtiframkvæmda kynnt
Starfshópur um fjármögnun samgöngukerfisins skilaði í dag skýrslu um flýtiframkvæmdir og leiðir til fjármögnunar þeirra. Í skýrslunni eru kynntir valkostir við fjármögnun og aðferðafræði við forgangsröðun verkefna. Á þeim grunni setti starfshópurinn saman lista yfir níu flýtiframkvæmdir sem uppfylltu kröfu um umferðaröryggi, umferðarþunga og þjóðhagslegum ábata vegna slíkra flýtiframkvæmda. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður starfshópsins, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrsluna á kynningarfund í dag.
Leiðarljós í starfi starfshópsins var leita leiða til að flýta uppbyggingu brýnna samgöngumannvirkja í þágu umferðaröryggis. Álag á vegi hafi aukist mikið síðustu ár en á sama tíma hafi framlög til vegagerðar verið óvenjulega lág sem hlutfall af landsframleiðslu.
Starfshópurinn fór yfir stöðu vegaframkvæmda í vinnu sinni og leitaði fyrirmynda um fjármögnun í vegakerfinu hjá nágrannalöndum. Vegagerðin telur nú nauðsynlegt að fara í um 200 verkefni á næsta aldarfjórðungi sem áætlað er að kosti yfir 400 milljarða króna. Þótt aukið fjármagn hafi komið til samgöngumála í gildandi fjármálaáætlun þurfi að finna leiðir til að fjármagna og forgangsraða framkvæmdum og flýta þeim eins og kostur er.
Breytt forgangsröðun fyrsti valkostur
Starfshópurinn telur fyrsta valkost í fjármögnun vera breytta forgangsröðun í ríkisútgjöldum en leið væri hagkvæmari fyrir ríkið, m.a. vegna fjármagnskostnaðar.
Starfshópurinn bar saman framkvæmdir með hliðsjón af umferðaröryggi, umferðarþunga og þjóðhagslegum ábata. Á þeim grunni tók hópurinn saman lista yfir níu mögulegar flýtiframkvæmdir utan höfuðborgarsvæðisins sem ráðgert er að kosti samtals um 40 milljarða króna á næstu sjö árum. Framkvæmdir innan höfuðborgarsvæðisins eru undanskildar en umræður um fjármögnun þeirra fara fram á sameiginlegum vettvangi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Níu forgangsverkefni í stafrófsröð
- Grindavíkurvegur – Bláalónsvegur-Grindavík
- Reykjanesbraut – Fitjar-Flugstöð
- Reykjanesbraut – Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun
- Suðurlandsvegur – Biskupstungnabraut-Kambar
- Suðurlandsvegur – Fossvellir-Norðlingavað
- Suðurlandsvegur – Skeiðavegamót-Selfoss
- Suðurlandsvegur – Ölfusárbrú
- Vesturlandsvegur – Hvalfjarðargöng-Borgarnes
- Vesturlandsvegur – Þingvallavegur-Leirvogstunga og um Kjalarnes
Opinbert hlutafélag og samvinnuverkefni
Næsti valkostur væri að stofna opinbert hlutafélag um framkvæmdir, lántökur og innheimtu veggjalda. Slík leið væri þó háð svigrúmi til lántöku og aukinna útgjalda í fjármálaáætlun. Starfshópurinn telur þó engar fjármögnunarleiðir fyrir hendi sem ekki eru háðar svigrúmi ríkisins nema framkvæmdir sem gætu hentað sem samvinnuverkefni.
Samvinnuverkefni (PPP) henta vel í stórum og vel skilgreindum nýframkvæmdum. Dæmi um slík verkefni eru Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga.
Starfshópurinn leggur til að hugmyndir um veggjöld vegna einstakra framkvæmda verði þróaðar áfram. Fjármögnun vegaframkvæmda með ríkisfé útiloki ekki gjaldtöku að framkvæmdum loknum.
Í skýrslunni er fjallað um ýmis sjónarmið varðandi gjaldtöku af umferð og að slík gjaldtaka verði að lúta öllum sjónarmiðum sem gilda um gjaldtöku af hálfu ríkisins. Tryggja þurfi fullnægjandi lagaheimildir, gjaldtaka verði afmörkuð við nýtingu á tiltekinni framkvæmd og notendur greiði gjald sem endurspegli veitta þjónustu.
Starfshópurinn leggur til að gjaldtaka af umferð miðist við hverja framkvæmd fyrir sig og verði samræmi við kostnað tiltekinnar framkvæmdar. Mikilvægt sé gjald innheimt á einum stað verði ekki notað til að standa undir framkvæmdum á öðrum stað. Þá er lagt til að gjaldtaka af einstökum framkvæmdum hefjist ekki fyrr en opnað er fyrir umferð.
Loks leggur starfshópurinn áherslu á að nýjasta tækni verði nýtt við innheimtu og kostnaði við innheimtu haldið í lágmarki. Miðað skuli við að hlutfall kostnaðar vegna gjaldtöku af innheimtum tekjum verði ekki hærra en 10%.
Í starfshópnum sátu Eyjólfur Árni Rafnsson sem jafnframt var formaður, Benedikt Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri, Hreinn Haraldsson fv. vegamálastjóri, Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Lísa Kristjánsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra og Páll Ásgeir Guðmundsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Með hópnum starfaði starfsfólk í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Vegagerðinni.
+ SRN_Skýrsla_Fjármögnun samgöngukerfisins
+ Kynningarglærur um skýrslu starfshópsins