Mál nr. 14/2015
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 14/2015.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. nóvember 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. desember 2013 til 30. september 2014, með 15% álagi, samtals að fjárhæð 908.493 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. febrúar 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. desember 2013 og reiknaðist með 67% bótarétt. Vinnumálastofnun sendi kæranda erindi 13. október 2014 þar sem henni var tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hafi starfað sem B samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Óskað var eftir skýringum frá kæranda og þann 16. október 2014 barst tölvupóstur frá kæranda þar sem hún segist vera lærður B en sé ekki að vinna sem slíkur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta nema einstaka sinnum og þá sé það oftast frítt eða fyrir lítinn pening. Kærandi greindi einnig frá því að hún starfrækti heimasíðu, en fái ekkert borgað fyrir það. Þá hafi henni boðist tækifæri til að koma sjálfri sér á framfæri, með viðtölum eða myndböndum en það hafi verið án endurgjalds.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 3. febrúar 2015, að hún og lögfræðingur sem hún hafi fengið til að skoða málið með sér, trúi því að gögnin sem Vinnumálastofnun hafi nægi ekki til að krefjast endurgreiðslu atvinnuleysisbóta. Frá því að hún útskrifaðist sem B hafi hún einstaka sinnum tekið að sér B og þá fyrir lítinn eða engan pening. Hún hafi ekki verið að B á meðan að hún var á bótum. Vinnumálastofnun hafi nefnt Facebook-síðu hennar til rökstuðning en þar setji hún stundum inn myndir af B eftir sig, í þeirri von að koma sjálfri sér á framfæri. Facebook-síðan sé í raun eins og ferilskrá þegar kemur að því að sækja um vinnu í hennar fagi þar sem atvinnurekendur vilji sjá B eftir hana. Kærandi kveðst hafa skráð sig á atvinnuleysisbætur þar sem að hún hafi verið atvinnulaus og hafi viljað finna sér starf. Með Facebook-síðu sinni hafi hún verið að koma nafni sínu á framfæri með von um að finna sér vinnu. Einnig vilji hún taka fram að hún hafi ekki verið skráð á atvinnuleysisskrá frá maí til lok júlí 2014.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. mars 2015, segir að mál þetta lúti að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 11. nóvember 2014, þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.
Annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun bendir á að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi starfað sem B. Vísi stofnunin því til stuðnings til útprentana af Facebook-síðu kæranda, „C“, og skýringarbréfs hennar til stofnunarinnar, dags. 16. október 2014. Á Facebook-síðu kæranda sé meðal annars að finna eftirfarandi færslu, dags. X: „Er á fullu að taka niður pantanir [...]!“ Þá megi á áðurnefndri síðu finna fjölda mynda af verkefnum sem kærandi hafi tekið að sér. Í skýringarbréfi kæranda til stofnunarinnar segi meðal annars að hún sé lærður B en sé ekki að vinna sem slíkur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta nema einstaka sinnum og þá sé það oftast frítt eða fyrir lítinn pening. Einnig hafi kærandi greint frá því að hún skrifi pistla á heimasíðu sinni og að hún hafi fengið tækifæri til að koma sjálfri sér á framfæri, með viðtölum eða myndböndum, en allt þetta sé án endurgjalds. Með vísan til framanritaðs sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.
Kærandi hafi ekki tilkynnt um störf sín sem B til Vinnumálastofnunar. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.
Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, eða frá 1. desember 2013 til 30. september 2014, samtals 908.493 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. mars 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. apríl 2015. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingarsem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Þá segir í 35. gr. a:
„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.“
Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.
Samkvæmt gögnum málsins, meðal annars upplýsingum frá kæranda sjálfum, starfaði hún sem förðunarfræðingur á tímabilinu 1. desember 2013 til 30. september 2014. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða telur því ljóst að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um þessa vinnu sína. Atvinnuleitendum sem þiggja atvinnuleysisbætur ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er jafnframt kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.
Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a. sömu laga verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eða tímabilið frá 1. desember 2013 til 30. september 2014 auk 15% álags, samtals 908.493 kr.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. nóvember 2014 í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hún skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 908.493 kr., er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson