Mál nr. 74/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 74/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. maí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 15. maí 2014 fjallað um greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Við samkeyrslu við menntastofnanir í mars 2014 hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. febrúar til 31. mars 2014 að fjárhæð 478.322 kr. með 15% álagi sem honum bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. september 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. febrúar 2014. Kæranda var sent bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 19. mars 2014, þess efnis að við samkeyrslu viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í nám á vorönn 2014 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur. Slíkt gengi í berhögg við 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu var tekið fram að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta og það kynni að leiða til þess að hann myndi missa rétt sinn til þeirra. Kærandi var beðinn um að skila skýringum til Vinnumálastofnunar á því hvers vegna hann upplýsti ekki stofnunina um námið. Í skýringarbréfi kæranda, dags. 23. mars 2014, kveðst hann hafa verið skráður í námskeið í Háskóla Íslands frá árinu 2010. Hann hafi sótt eitt námskeið á önn samhliða fullri vinnu þar til honum hafi verið sagt upp störfum í október 2013 en þar sem verklag háskólans krefjist þess að nemendur skrái sig í námskeið að hausti fyrir báðar annir í senn hafi hann verið skráður á vorönn 2014. Kveðst hann ekki hafa stundað fullt nám síðan hann hóf að taka eitt og eitt námskeið árið 2010. Með tilliti til skýringa kæranda var honum sent bréf, dags. 25. apríl 2014, þar sem honum var tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans um atvinnuleysisbætur hafi verið frestað. Óskað var eftir staðfestu skólavottorði þar sem kæmi fram hvort kærandi væri enn í námi, námshlutfall hans eða hvort námi hafi verið hætt eða lokið með prófgráðu.
Þar sem kærandi skilaði ekki umbeðnu skólavottorði var sú ákvörðun tekin þann 15. maí 2014 að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda tilkynnt sú ákvörðun með bréfi, dags. 20. maí 2014. Jafnframt var kæranda tilkynnt sú ákvörðum stofnunarinnar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur líkt og fram kemur að framan.
Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 26. maí 2014, og barst rökstuðningurinn með bréfi, dags. 10. júní 2014.
Í kæru krefst kærandi þess að Vinnumálastofnun felli niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Gerð er krafa um að stofnunin beiti sér fyrir breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar þannig að sérstaklega sé tryggt að þeir umsækjendur sem séu í hlutanámi neyðist ekki til að hætta námi eftir skyndilegan atvinnumissi til að fyrirgera ekki rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Kærandi telur að lög nr. 54/2006, að óbreyttu, takmarki lagalegan rétt þess sívaxandi hluta atvinnumarkaðar sem leitast við að bæta vinnufærni sína með ýmiss konar námi, á ósanngjarnan og óréttlátan hátt. Þá heldur kærandi því fram að ákvörðun Vinnumálastofnunar samræmist ekki 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Framferði kæranda sé í fullu samræmi við 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og laut að því að bæta vinnufærni hans.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. október 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vísar stofnunin í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skilgreiningu á hugtakinu námi. Vinnumálstofnun vísar einnig til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fjallað sé um heimild til að stunda nám meðfram því að fá greiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt framangreindu sé meginreglan sú að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga meðan þeir leggi stund á nám sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar, sbr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. sé mælt fyrir um þá meginreglu að hver sá sem stundar nám sé ekki tryggður samkvæmt lögunum á meðan nám er stundað. Mælt sé fyrir um undanþágur frá þessari meginreglu í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Ljóst sé að kærandi uppfylli ekki skilyrði þess að gera námssamning við Vinnumálastofnun enda hafi hann lokið 30 ECTS-eininga námi á vorönn 2014. Vinnumálastofnun sé að hámarki heimilt að samþykkja undanþágu fyrir námi upp að 20 ECTS-einingum. Sú undanþága sé þó háð því meðal annars að námshlutfallið sé svo lágt að það sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði undanþágureglna 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna þá eigi meginregla 1. mgr. 52. gr. við í máli hans. Teljist því kærandi ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili og hann stundi nám sitt.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar geri kærandi þá kröfu að Vinnumálastofnun felli niður endurgreiðslukröfu sína vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 1. febrúar til 31. mars 2014. Ljóst sé af framangreindu ákvæði 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að námsmenn geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og þeim sé tryggð framfærsla frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þá liggi fyrir að kærandi stundaði 30 ECTS-eininga háskólanám á vorönn 2014. Verði ekki fallist á það að kærandi geti átt rétt á atvinnuleysisbótum á sama tíma og hann eigi rétt á námslánum hjá lánasjóðnum. Breyti engu um þá niðurstöðu að kærandi fái ekki námslán vegna of hárra tekna enda hafi hann lokið fullu námi á vorönn 2014 sem teljist að fullu lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þá skipti heldur ekki máli hvort kærandi hafi sótt um námslán hjá lánasjóðnum eða ekki, enda sé einungis tekið fram í 52. gr. laganna að lánshæfi komi í veg fyrir að atvinnuleitandi geti þegið atvinnuleysisbætur samhliða námsþátttöku. Atvinnuleitandi þurfi því hvorki að hafa sótt um né fengið greidd námslán. Meginregla 52. gr. eigi við um nám atvinnuleitanda ef það er lánshæft.
Þá bendir Vinnumálastofnun á að í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysistryggingar. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 39. gr. laganna sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafa verið. Þann 20. maí 2014 hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi að útistandandi skuld hans næmi 478.322 kr. vegna tímabilsins 1. febrúar 2014 til 31. mars 2014, sem honum bæri að endurgreiða á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Innifalið í þeirri fjárhæð sé 15% álag í samræmi við ofangreint ákvæði.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. október 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. nóvember 2014. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 4. nóvember 2014, þar sem fram kemur að kærandi hafi ákveðið að halda áfram því námi sem hann hóf árið 2010 til þess að reyna að bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Að sinna atvinnuleit meðfram námi hafi aldrei verið óyfirstíganlegt verkefni og blátt áfram óskynsamlegt að sitja auðum höndum á meðan leit stæði. Ljóst sé að vinnumarkaðsaðgerðir stofnunarinnar bæta tækifæri til atvinnusóknar aðeins hjá hluta umsækjenda og gagnast öðrum lítið sem ekkert. Þá sé nokkuð ljóst af röksemdafærslu stofnunarinnar að hún styðjist við bókstaf laganna sem gilda um rekstur hennar, frekar en anda laganna og markmið þeirra. Markmið laganna sé ekki að reyna skjóta sér undan skyldunni að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð. Telur kærandi málflutning Vinnumálastofnunar vera á þá leið.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“
Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:
„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.
Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann var skráður í 30 ECTS-eininga nám í Háskóla Íslands á vorönn 2014. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma eingöngu til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar sem nám kæranda var 30 ECTS-einingar taldist það lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli kæranda. Það er ekki markmið laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum atvinnuleysisbætur líkt og fram kemur í athugsemdum við 52. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þá er ljóst af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé í fullu samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar.
Af framansögðu er ljóst að þar sem nám kæranda var lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna átti hann ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun staðfest.
Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Staðfest er sú ákvörðun að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 478.322 kr. með inniföldu 15% álagi.
Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. október 2014 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 478.322 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson