Hoppa yfir valmynd
19. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 535/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 535/2019

Þriðjudaginn 19. maí 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. nóvember 2019 um að synja umsókn hans um barnalífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 9. nóvember 2019, til Tryggingastofnunar ríkisins sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna barnanna B, C, D og E. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. nóvember 2019, var umsókn kæranda um barnalífeyri með B samþykkt en umsókn um barnalífeyri með C, D og E synjað. Í bréfinu sagði að ástæða synjunar væri sú að börnin væru stjúpbörn hans og að þar sem að þau ættu framfærsluskylt foreldri á lífi hafi stofnunin ekki heimild til að greiða honum barnalífeyri vegna hans örorku.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2019. Með bréfi, dags. 17. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. desember 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2020. Athugasemdir kæranda bárust 14. janúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. janúar 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að Tryggingastofnun greiði honum barnalífeyri með stjúpbörnum hans.

Í kæru segir að kærandi hafi X kvænst F sem hafi átt þrjú börn fyrir. Kærandi, sem sé stjúpfaðir barnanna, hafi þar með tekið á sig fulla ábyrgð á þeim og uppeldi þeirra þar sem á X séu ekki lög um meðlög eins og á Íslandi. Eina leiðin til að fá meðlag frá feðrum barnanna sé að fá þá dæmda til að greiða meðlag en það yrði gert að teknu tilliti til tekna þeirra. Þar sem hvorugur sé með nægar tekjur til að greiða meðlag sé ekkert að fá með þessari leið. Á X sé hvorki mæðrastyrkskerfi né um neina hjálp frá ríkinu að ræða.

Af ofangreindum ástæðum sé farið fram á að Tryggingastofnun greiði kæranda einnig barnalífeyri með stjúpbörnum hans eins og X hans.

Í athugasemdum frá 14. janúar 2020 vísar kærandi í X lög um fjölskyldurétt, kafla IX, lagagreinar 290-304, er fjalli um meðlagsgreiðslur. Þar sem greiðslugeta kynfeðra barnanna sé engin og hvorugur hafi greitt með þeim frá fæðingu falli þeir undir 303 grein laganna þar sem tilgreint sé að ef ákveðnum skilyrðum sé fullnægt, sé ekki hægt að krefja þá um meðlag. Auk þess sé ekkert almannatryggingakerfi á X og framfærsla barnanna hafi verið algjörlega á hans herðum.

Kannaður hafi verið möguleikinn á að fá feðurna dæmda til að greiða meðlag en að ráði lögfræðings hafi verið fallið frá því þar sem ekki væri neinn möguleiki á að fá neitt frá þeim. Auk þess, jafnvel þó svo ólíklega vildi til að þeir yrðu dæmdir til að greiða meðlag, sé enginn refsirammi við því að neita að borga. Af ofangreindum ástæðum þar sem X lög eigi við þegar fjallað sé um greiðsluskyldu og þar sem framfærslubyrðin sé alfarið á herðum kæranda, óháð lögum og reglum, óski kærandi eftir því að horft verði fram hjá 1. og 2. mgr. 20. gr. laga um almanntryggingar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun Tryggingastofnunar á greiðslu barnalífeyris til kæranda með stjúpbörnum hans.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. nóvember 2019, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með X hans B frá 1. janúar 2020 til 30. júní 2020. Í sama bréfi hafi kæranda verið synjað um greiðslu barnalífeyris með stjúpbörnum hans. 

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, sé annað hvort foreldra látið eða örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.

Í 2. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar segi að sömu réttarstöðu hafi stjúpbörn og kjörbörn þegar eins standi á. Þó skuli ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið eigi framfærsluskylt foreldri á lífi.

Þá segi í 5. mgr. 20. gr. sömu laga að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annist framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri með X sinni og stjúpbörnum með umsókn, dags. 9. nóvember 2019. Sama dag hafi borist tölvupóstur frá kæranda þar sem umsóknin hafi verið nánar skýrð og fylgdi með fæðingarvottorð stjúpbarna kæranda, auk hjúskaparvottorðs hans. Í þeim komi fram að kærandi sé í hjúskap með F og að hún eigi tvö börn með G og eitt barn með H.

Samþykkt hafi verið að greiða kæranda barnalífeyri með X hans en honum hafi verið synjað um barnalífeyri með stjúpbörnum sínum, sbr. bréf dags. 13. nóvember 2019. Kærandi eigi ekki rétt á barnalífeyri með stjúpbörnum sínum þar sem einungis sé greiddur barnalífeyrir með börnum örorkulífeyrisþega en ekki stjúpbörnum, sbr. 1. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga. Þá segi í 2. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar að ekki skuli greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið eigi framfærsluskylt foreldri á lífi.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. nóvember 2019, um að synja umsókn kæranda um barnalífeyri með þremur stjúpbörnum hans með þeim röksemdum að hann sé stjúpfaðir þeirra og að þau eigi feður sem séu á lífi.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Í 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar segir að sömu réttarstöðu hafi stjúpbörn og kjörbörn þegar eins standi á. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að þó skuli ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið eigi framfærsluskylt foreldri á lífi. Þá segir í 5. mgr. 20. gr. að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annist framfærslu þeirra að fullu.

Samkvæmt gögnum málsins eiga börnin þrjú feður á lífi sem búsettir eru á X. Af þeim má jafnframt ráða að þeir séu meðlagsskyldir samkvæmt þarlendum lögum en hafi ekki sinnt þeirri skyldu. Í því sambandi er tekið fram að það kunni að reynast vandkvæðum bundið að fara fram á slíkar greiðslur fyrir þarlendum dómstólum og að lögmaður kæranda hafi jafnframt ráðið honum frá því. Hvað sem því líður liggur  að mati úrskurðarnefndarinnar ekkert fyrir í málinu sem bendir til annars en að feðurnir séu framfærsluskyldir, þrátt fyrir að erfiðlega kunni að reynast að fylgja eftir þeirri skyldu. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 2. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar séu ekki uppfyllt þar sem stjúpbörn kæranda eiga framfærsluskylda feður á lífi. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki sé heimilt að greiða barnalífeyri með stjúpbörnum kæranda vegna örorku hans. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um barnalífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um barnalífeyri er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta