Ísland og Japan skipuleggja ráðherrafund um vísindamál á norðurslóðum
Ísland mun í samstarfi við Japan standa að ráðherrafundi um vísindi norðurslóða haustið 2020 (e. Arctic Science Ministerial 3 – AMS3). Fundurinn verður haldinn í Japan. Ákvörðun þessi var staðfest á hliðstæðum ráðherrafundi um vísindi norðurslóða sem nú stendur yfir í Berlín. Sá fundur er skipulagður í samstarfi Þýskalands, Finnlands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og sækja hann leiðtogar 25 ríkja auk fulltrúa Evrópusambandsins og sex samtaka frumbyggja. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd.
„Það er brýn þörf á að auka alþjóðlegt samstarf um rannsóknir á norðurslóðum, ekki síst í samhengi við hlýnun á svæðinu en áhrifa hennar á umhverfi, samfélag, menningu og hagkerfi gætir nú í síauknu mæli. Ráðherrafundirnir eru mikilvægur vettvangur fyrir það samtal sem þarf að eiga sér stað til að ná utan um þær sameiginlegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að þekkja stefnu, áherslur og innviði samstarfsríkja okkar til þess að þróa árangursríka samvinnu á sviði vísinda og rannsókna. Það er fagnaðarefni að Japanir vilji skipuleggja næsta fund ráðherranna með okkur og ég hlakka til undirbúningsvinnunnar með þeim. Við munum kynna áherslur þess fundar þegar nær dregur,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í erindi sínu á fundinum lagði ráðherra sérstaka áherslu á mikilvægi þess að nýta staðbundna þekkingu á norðurslóðum til að efla rannsóknir og vísindi. Ráðherra tók dæmi af langvarandi samstarfi vísindamanna og íbúa við mælingar á Vatnajökli sem á rætur að rekja til samstarfs sænska jöklafræðingsins Hans Ahlmanns og íslenska veðurfræðingsins Jóns Eyþórssonar á fjórða áratug síðustu aldar.
Fyrsti ráðherrafundur um vísindi norðurslóða var haldinn að frumkvæði Bandaríkjanna árið 2016 í Washington. Þar var sjónum beint að alþjóðlegu vísindasamstarfi um norðurslóðir og athygli vakin á þeim fjölmörgu rannsóknarverkefnum sem snúa að norðurheimskautssvæðinu. Fundurinn í Berlín tekur upp þann þráð og er meginmarkmið hans að efla enn frekar vísindasamstarf á svæðinu.
- Yfirlýsingu fundarins
- Yfirlit yfir íslensk verkefni tengd norðurslóðarannsóknum sem rædd voru á fundinum.