Hoppa yfir valmynd
11. júní 2019 Forsætisráðuneytið

787/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 787/2019 í máli ÚNU 18080007.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 25. ágúst 2018, kærði A ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja beiðni hennar um aðgang að gögnum. Með erindi, dags. 16. febrúar 2015, óskaði kærandi eftir aðgangi að upplýsingum um skuldir fyrrverandi maka. Bréfinu var synjað þann 17. febrúar 2015.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál átti í bréfaskiptum við kæranda og umboðsmann skuldara til þess að átta sig nánar á málsatvikum. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í þessum bréfaskiptum með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Samkvæmt gögnum málsins synjaði umboðsmaður skuldara beiðni kæranda með bréfi dags. 17. febrúar 2015 en kæra er dagsett 25. ágúst 2018. Kæran barst því rúmum þremur árum eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari umboðsmanns skuldara til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr., svo sem er áskilið er í 1. mgr. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á telur úrskurðarnefndin skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda þótt umboðsmaður skuldara hafi ekki leiðbeint kæranda um kærurétt og kærufrest. Í þessu sambandi athugast að almennur kærufrestur fyrir stjórnsýslukærur er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því hvorki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, né að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar í skilningi 28. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðarnefndin tekur fram að kæranda er fært að leita aftur til umboðsmanns skuldara og leggja að nýju fram beiðni um umbeðin gögn.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 25. ágúst 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta