Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Fyrstu niðurstöður úr gæða- og öryggiskönnun þjóðvega

Niðurstöður úr fyrstu gæða- og öryggiskönnun á íslenska vegakerfinu voru kynntar í dag. Félag íslenskra bifreiðaeigenda sér um könnunina með stuðningi samgönguráðuneytisins og Umferðarstofu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði er skýrslan var kynnt að tilgangurinn væri að kanna hvar gera megi betur í hönnun umferðarmannvirkja og Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, sagði að verkefninu yrði áfram í ár.

Eurorapfundur
Skýrsla um gæðakönnun vega kynnt. Frá vinstri: Sturla Böðvarsson, Karl Ragnars, Einar Magnús Magnússon og Ólafur Guðmundsson.

Kannaðir voru alls 175 km á Reykjanesbraut, á hluta Vesturlandsvegar milli Reykjavíkur og Borgarness og á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Landvegamóta. Vegarkaflanir eru mjög ólíkir, misgamlir, með mismunandi gerðum gatna- og vegamóta og liggja vegirnir um hraun, mela og sléttlendi. Unnið er eftir staðli frá Eurorap, European Road Assessment Program, þar sem farið er kerfisbundið yfir öryggisþætti og hönnun vega og öryggissvæði og gefin einkunn, allt að fjórum stjörnum. Könnunin fer þannig fram að farið er um vegina á bíl sem búinn er margs konar tækjabúnaði til að safna gögnum um vegi og umhverfi þeirra. Úr gögnunum er unnið áhættumat sem er leiðbeinandi fyrir veghönnuði og samgönguyfirvöld um hvað gera megi til að draga úr slysahættu.

Niðurstaða eftir könnun á áðurnefndum þremur áföngum er sú að stór hluti þeirra hlýtur þrjár stjörnur en tvær stjörnur eru þó víða gefnar. Í skýrslunni segir að talsvert sé um góða kafla hvað varði umhverfi vega og öryggissvæði, til dæmis austan við Selfoss, um Strandarheiði og undir Hafnarfjalli. Nokkrir kaflar eru taldir slæmir vegna djúpra skurða, vatnstjarna, úfins hrauns og grjóts í umhverfi vega og kafli á Reykjanesbraut við Fitjar er talinn slæmur vegna hættulegra vegamóta og gamalla ljósastaura sem eru án brotplötu. Mislæg og vel hönnuð vegamót á Reykjanesbraut fá fjórar stjörnur.

Á fundinum þar sem skýrslan var kynnt sagði samgönguráðherra að vegagerð, hönnun, vinna verktaka og ökumenn færu sífellt batnandi og stöðugt væri lögð áhersla á úrbætur. Hann sagði mikilvægt að fá FÍB til að vinna þetta verkefni og fagnaði hann þessari fyrstu skýrslu.

Gæðakönnun veganna verður haldið áfram í ár og er ráðgert að kanna næst leiðina milli Borgarness og Akureyrar, kafla á hringveginum á Austurlandi og fjölfarna vegi á Suðurlandi, meðal annars milli Mosfellsbæjar og Þingvalla og milli Selfoss og Gullfoss. Niðurstöður skýrslunnar verða birtar á vefsíðu FÍB, fib.is.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta