Hertar reglur um akstur hóp- og vörubifreiða í atvinnuskyni undirbúnar
Verið er að undirbúa breytingar á reglugerðum um ökuskírteini og eru þær kynntar á vefsíðu samgönguráðuneytisins undir hlekknum Drög til umsagnar. Snúast þær meðal annars um hækkuð aldursmörk til aksturs hóp- og vörubifreiða í atvinnuskyni og endurmenntun. Þeir sem óska að koma á framfæri ábendingum um breytingarnar eru beðnir að gera það eigi síðar en 1. september.
Meðal breytinganna er að framvegis þarf að endurnýja ökuskírteini vegna réttinda til aksturs hóp- og vörubifreiða á fimm ára fresti í stað 10 ára áður. Jafnframt er þeim sem stunda slíkan akstur í atvinnuskyni gert að sækja á fimm ára fresti 35 stunda endurmenntunarnámskeið áður en þessi réttindi fást endurnýjuð. Umferðarstofa setur námskrá og gert er ráð fyrir að kennslan fari fram á vegum ökuskóla með starfsleyfi.
Önnur breyting er hækkun aldursmarka þeirra sem aka hóp- og vörubifreiðum í atvinnuskyni. Þannig skal sá sem sækir um réttindi til að aka vörubifreið í atvinnuskyni vera orðinn 21 árs í stað 18 eins og nú gildir og sá sem óskar réttinda til að aka hópbifreið skal vera orðinn 23 ára í stað 21 eins og verið hefur.
Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi 10. september en ákvæði hennar er varða örari endurnýjun atvinnuréttinda til aksturs hópbifreiða taka gildi í september 2008 og varðandi vörubifreiðar í september 2009.
Gerð er ítarleg grein fyrir breytingunum á hlekknum Drög til umsagnar.