Svissnesk yfirvöld samþykkja gagnkvæm flugleyfi
Flugmálastjórn Sviss hefur lýst því yfir að sæki íslenskir flugrekendur eftir leyfi til flugs til þriðju ríkja innan ESB frá Sviss (án viðkomu á Íslandi) muni svissneska flugmálastjórnin veita slíkt leyfi. Mælt er með því að slík leyfi til áætlunar- og/eða leiguflugs verði gagnkvæm.
Íslensk flugmálayfirvöld hafa í samráði við samgönguráðuneytið og utanríkisráðuneytið óskað eftir því að gerður verði loftferðasamningur milli ríkjanna til að auðvelda svissneskum og íslenskum flugfélögum bæði leigu- og áætlunarflug. Í bréfi flugmálastjóra Sviss til flugmálastjóra Íslands segir að áliti þarlendra flugmálayfirvalda sé það ákjósanlegri kostur að gera nauðsynlegar breytingar á stofnsamningi EFTA í stað þess að gera loftferðasamning milli ríkjanna. Stofnsamningur EFTA veitir flugrekendum ríkjanna í dag einungis rétt til flugs milli aðildarríkja EFTA og innanlandsflugs innan EFTA ríkjanna. Flugmálayfirvöld í Sviss eru nú reiðubúin að láta þessi réttindi einnig ná til flugs handan EFTA ríkjanna til þriðju ríkja innan ESB.