Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 536/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 536/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090002

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. ágúst 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. ágúst 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, þar sem Útlendingastofnun hafi gerst brotleg gegn reglum um andmælarétt, sbr. 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Til vara er þess krafist að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, aðallega með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en að öðrum kosti með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga.

Þá krefst kærandi þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar þar sem meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð kæranda, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. september 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 8. október 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Austurríki. Þann 20. nóvember 2020 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Austurríki, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá austurrískum yfirvöldum, dags. 16. desember 2020, kom fram að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd í Austurríki og að vernd hans væri gild til 18. febrúar 2021. Við meðferð málsins framvísaði kærandi ljósmynd af ferðaskilríkjum útgefnum af austurrískum yfirvöldum með gildistíma til 18. febrúar 2019. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 18. nóvember 2020, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 3. mars 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Þann 1. júlí 2021 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Þann 9. júlí 2021 var upplýsingabeiðni öðru sinni beint til yfirvalda í Austurríki þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum og þann 11. ágúst 2021 barst svar frá austurrískum yfirvöldum. Með ákvörðun, dags. 11. ágúst 2021, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 17. ágúst 2021 og kærði kærandi ákvörðunina þann 31. ágúst 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 9. september 2021 og þann 28. september barst viðbótarkrafa frá kæranda. Frekari upplýsingar bárust frá Útlendingastofnun um málsmeðferð kæranda þann 5. október 2021.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Austurríki. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Austurríkis ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Austurríkis.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að niðurstaða kærunefndar í úrskurði í máli nr. KNU21030072 hafi verið byggð á því að Útlendingastofnun hafi borið að óska eftir upplýsingum frá austurrískum yfirvöldum til að fá úr því skorið hvort vernd hans sé enn virk í Austurríki og hvort verndin hafi sætt eða sæti endurskoðun. Hafi það verið mat nefndarinnar að slíkar upplýsingar væru bæði nauðsynlegar og aðgengilegar. Líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun hafi Útlendingastofnun haft samband við austurrísk yfirvöld í kjölfar úrskurðar kærunefndar og borist svar þann 11. ágúst 2021. Á grundvelli þess sem fram komi í umræddu svari hafi Útlendingastofnun komist að óbreyttri niðurstöðu í hinni kærðu ákvörðun. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu án þess að kæranda hafi að nokkru leyti verið gert viðvart um tilvist umræddra gagna. Hann hafi ekki verið látinn vita að umrædd gögn lægju fyrir í málinu og hafi honum því eðli málsins samkvæmt ekki verið gefinn kostur á því að tjá sig um efni þeirra. Kærandi vísar til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga máli sínu til stuðnings og viðmiða sem komi fram í athugasemdum með 13. og 14. gr. lagafrumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum. Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun sem kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðuna í máli hans. Af þeim sökum beri að fella hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Verði ekki fallist á aðalkröfu byggir kærandi á því að taka beri umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 2. mgr. 36. gr.laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga. Kærandi vísar til umfjöllunar í greinargerð hans til kærunefndar, dags. 6. apríl 2021 hvað varðar málsatvik, málsástæður, lagarök og athugasemdir sem feli í sér rökstuðning fyrir varakröfu kæranda. Í greinargerð kæranda, dags. 6. apríl 2021, vísar kærandi m.a. til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar er varðar málsatvik. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að líkamlegt heilsufar hans sé gott en að hann glími við stress, áhyggjur og svefnleysi. Kærandi hafi orðið vitni að ofbeldi og morði sem hafi haft áhrif á hann og að stundum endurupplifi hann atvikin. Kærandi hafi mótmælt því að vera endursendur til Austurríkis en vernd hans þar hafi runnið út í febrúar. Þá hafi hann upplifað fordóma og mismunun í sinn garð við atvinnuleit. Kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi til eins árs í byrjun en eftir það hafi hann þurft að endurnýja það á tveggja ára fresti. Kærandi hafi leigt sér íbúð og haft aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Þá hafi hann fengið framfærslustyrk frá yfirvöldum. Kærandi hafi misst vinnu sína í desember 2019 og ekki unnið síðan. Hann hafi fengið þær upplýsingar frá austurrískum yfirvöldum að dvalarleyfi hans yrði ekki endurnýjað þar sem hann fullnægði ekki skilyrðum um alþjóðlega vernd þar sem hann hafi ekki framvísað sómölsku vegabréfi. Kærandi viti ekki hvernig hann eigi að útvega sér sómalskt vegabréf. Kærandi vísar m.a. til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað varðar almennar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Austurríki og flóttafólks þar í landi. Kærandi vísar m.a. til þess að viðhorf austurrískra stjórnvalda og almennings í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna hafi farið versnandi á síðustu árum.

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað auðkenni sitt. Kærandi vísar til þess að í reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, sé að finna hátt alvarleikastig tiltekinna viðmiða til þess að sérstakar ástæður séu uppi í máli tiltekins umsækjanda. Kærandi vekur athygli á því að viðmiðin séu einungis sett fram í dæmaskyni og ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Kærandi byggir á því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann, líkamlegar og andlegar.

Kærandi telur að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál hans til efnismeðferðar með vísan til 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðarréttar um bann við endursendingu (non-refoulement) til ríkja þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu. Þá skuli tryggja, í samræmi við 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, að kærandi verði ekki áframsendur frá Austurríki til svæðis þar sem hann verði m.a. í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Kærandi vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 405/2013, máli sínu til stuðnings.

Þá krefst kærandi þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar þar sem meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Líkt og áður greinir lagði kærandi fram kröfu þann 28. september 2021 um að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar þar sem meira en 12 mánuðir væru liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd og að tafir á afgreiðslu hennar væru ekki á ábyrgð kæranda.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. september 2020 og voru þann 28. september 2021 liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum án þess að hann hefði fengið endanlega niðurstöðu frá stjórnvöldum í máli sínu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 5. október 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd samdægurs. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki tafið mál sitt að nokkru leyti.

Samkvæmt framangreindum upplýsingum frá Útlendingastofnun er það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki tafið mál sitt. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli hans og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að hann verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 28. september 2020, er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er ekki tilefni til að taka aðrar málsástæður kæranda til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta