Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2000 Heilbrigðisráðuneytið

22. - 28. apríl

Fréttapistill vikunnar
22. – 28. apríl


Samningur um 92 ný hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík undirritaður:
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur ásamt Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, undirritað samning við fyrirtækið Öldung h.f. um að leggja til og reka hjúkrunaheimili fyrir aldraða í Sóltúni í Reykjavík.

Hér er um að ræða þjónustu, sem felst í að leggja til og reka í a.m.k. 25 ár hjúkrunarheimili á grundvelli 18. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, ætlað 92 öldruðum einstaklingum með öllu því sem til þarf. Samningurinn er gerður undir merkjum einkaframkvæmdar og er til 27 ára frá undirritun, en hjúkrunarrýmum fyrir aldraða fjölgar um 92 í Reykjavík þegar heimilið verður að fullu tekið í notkun. Fyrstu íbúarnir flytjast inn í nóvember á næsta ári, en nokkrum mánuðum síðar verður heimilið í fullum rekstri. Samningurinn hljóðar upp á 11,8 milljarða króna miðað við 25 ára þjónustutíma.
Sjá fréttatilkynningu um málið

Stóraukin aðstoð við börn með geðræn vandamál:
Þjónustusamningur sem felur í sér stóraukið samstarf heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda í málefnum barna og unglinga með geðræn vandamál eða vímuefnavanda var undirritaður í vikunni. Samningurinn er milli Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, Samtaka áhugamanna um áfengisvandamálið og Barnaverndarstofu. Fé til geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga verður aukið um 53 m.kr. en barna- og unglingageðdeild leggur til rekstur tveggja bráðarúma og reglulega þjónustu sérfræðings á Stuðlum.
Sjá fréttatilkynningu um málið

Samningur um reynslusveitarfélagsverkefni á Höfn framlengdur:
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra undirritaði í vikunni samning um framlengingu á þjónustusamningi við reynslusveitarfélagið Hornafjörð. Með samningnum tekur reynslusveitarfélagið að sér verkefni heilsugæslu, öldrunar- og bráðaþjónustu í Austur-Skaftafellssýslu. Meginmarkmið samningsins er að auka sjálfstjórn sveitarfélagsins, laga stjórnsýsluna betur að staðbundnum aðstæðum og nýta betur fjármagn hins opinbera. Með samrekstri heimaþjónustu og heimahjúkrunar aldraðra er stefnt að betri og samfelldari þjónustu við aldraða. Þá er það nýtt í samningnum að varið er 2,5 m.kr. til að efla þjónustu við aldraða utan stofnana til að gefa öldruðum kost á að dvelja í heimahúsi eins lengi og kostur er. Nýr samningur gildir frá 1. janúar 2000 til 31. desember 2001 eða í tvö ár. Fjárveitingar til verkefnisins hækka um tæpar 27 m.kr. á ári eða um 54 m.kr. á samningstímanum. Heildarfjárveiting er 188,6 m.kr. á ári.

Stefnumótun í málefnum aldraðra til næstu fimmtán ára:
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað stýrihóp til að móta stefnu í málefnum aldraðra til næstu fimmtán ára. Hópnum er ætlað að skoða helstu málefni sem varða aldraða á breiðum grundvelli, s.s. atvinnumál, efnahagslega stöðu, félagslega stöðu og þörf fyrir þjónustu, heilbrigðismál aldraðra og húsnæðismál. Verkefni hópsins er að leggja mat á stöðuna eins og hún er í hverjum málaflokki fyrir sig, meta hvaða áhrif fyrirsjáanlegar breytingar á aldrussamsetningu þjóðarinnar munu hafa á þessa málaflokka á næstu árum og að meta hvort nauðsynlegt sé að mæta þessum áhrifum með því að breyta áherslum innan einstakra málaflokka.

Formaður hópsins er Jón Helgason, fv. ráðherra en aðrir sem í hópnum sitja eru; Hrafn Pálsson, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Ingi Valur Jóhannesson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Helga Jónsdóttir, hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu og Guðmundur H. Garðarsson, viðskiptafræðingur tilnefndur af forsætisráðuneytinu. Ritari hópsins er Margrét Erlendsdóttir, verkefnisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.

Launaþróun í heilbrigðisþjónustu – laun hjúkrunarfræðinga hafa hækkað mest:
Meðal heildarlaun hjúkrunarfræðinga á ríkisspítölum hækkuðu um 57% að meðaltali frá janúar 1997 til janúar í ár eða um tæpar 100.000 kr. Þetta kemur fram í skriflegu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um launaþróun í heilbrigðisþjónustu. Laun sérfræðinga hækkuðu um 48% á sama tíma, eða yfir 150.000 kr. Heildarlaun sjúkraliða hækkuðu um 29%, en gæslumanna um 13% á þessum þremur árum. Meðal heildarlaun sérfræðinga, það er lækna sem ekki reka stofu, voru í janúar 466.000 kr. Meðallaun hjúkrunarfræðinga 266.000, sjúkraliða 168.000 og gæslumanna 134.000 á mánuði.
Sjá svar fjármálaráðherra







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta