Hoppa yfir valmynd
5. maí 2000 Heilbrigðisráðuneytið

29. apríl - 05. maí

Fréttapistill vikunnar
29. apríl – 5. maí

Konur og karlar virðast ekki fá sambærilegar úrlausnir við heilsufarsvandamálum sínum:
Konur nota heilbrigðisþjónustu meira en karlar, eru sendar í fleiri rannsóknir, eru oftar sjúkdómsgreindar, fá oftar meðferð og meira af lyfjum en karlar. Þetta kemur fram í ritinu Heilsufar kvenna- Álit og tillögur nefndar um heilsufar kvenna sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur gefið út. Athyglisvert er að nefndin telur margt benda til þess að úrlausnir sem konur fá vegna heilbrigðisvandamála séu ekki sambærilegar við þær sem karlar fá. Eins er bent á að konur leita í ríkari mæli en karlar eftir óhefðbundnum lækningaaðferðum. Í formála Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að ritinu segir að tillögur nefndarinnar byggist á því ,,...að markvisst verði unnið að því að kanna ofan í kjölinn ástæður þeirra staðreynda sem dregnar eru fram í álitinu, þannig að aðgerðir í heilbrigðisþjónustunni geti í framtíðinni byggt á traustum rannsóknarniðurstöðum."

Sameiginlegt útboð á sjúkra- og áætlunarflugi í sjónmáli:
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, samgöngumálaráðuneytið, Flugmálastjórn og Tryggingastofnun ríkisins hófu í vikunni viðræður um möguleika þess að bjóða út saman sjúkraflug og áætlunarflug til nokkurra áfangastaða innanlands. Eins og fram kom í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu nýlega, verður sjúkraflugið boðið út í tengslum við áætlunarflug til afskekktari byggða. Miðstöð þess verður á Akureyri. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úr viðræðunum liggi fyrir innan hálfs mánaðar og takist það verði líklega hægt að bjóða út flugleiðirnar sem um ræðir innan eins til tveggja mánaða.


Norrænt efni

Noregur: Veikindadögum fólks á vinnumarkaði hefur fjölgað um rúm 9% á einu ári. Sálræn vandamál megin orsökin.
Fjöldi veikindadaga vinnandi Norðmanna var tæplega 22 milljónir á tímabilinu apríl 1998 til apríl 1999, samkvæmt tölum norsku tryggingastofnunarinnar. Á einu ári hafa fjarvistir frá vinnu vegna veikinda aukist um 9,3% en skráðir veikindadagar á tímabilinu apríl 1999 – apríl 2000 voru 24 milljónir. Sem fyrr eru verkir í stoðkerfi algengasta ástæða veikinda. Hin mikla aukning fjarvista er hins vegar fyrst og fremst rakin til veikinda af sálrænum toga. Skýringa á þessu er m.a. leitað í breyttum aðstæðum á vinnumarkaði og opnari umræðu um sálræn vandamál. >lesa meira


Í tímaritinu Social-og hälsovårdsnytt birtast reglulega fréttir um félags- og heilbrigðismál á Norðurlöndunum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
5. maí 2000






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta