Fréttapistill vikunnar
13. - 19. maí
Ný lög um sjúklingatryggingu samþykkt á Alþingi. Veruleg réttarbót fyrir sjúklinga sem verða fyrir heilsutjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð:
Lögin gera ráð fyrir að sjúklingar verði tryggðir með sérstakri sjúklingatryggingu ef þeir verða fyrir heilsutjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til starfans. Lögin ná einnig til sjúklinga sem svokölluð,,siglinganefnd" Tryggingastofnunar ríkisins heimilar að senda til læknismeðferðar á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun erlendis í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að veita læknismeðferð hér á landi.
Lög um sjúklingatryggingu fela í sér víðtækari rétt sjúklings til bóta en hann á eftir almennum skaðabótareglum en samkvæmt þeim verður að liggja fyrir sök heilbrigðisstarfsmanns. Nýju lögin fela aftur á móti í sér bótarétt án sakar. Einnig er um víðtækari rétt að ræða en samkvæmt núgildandi reglum almannatryggingalaga um sjúklingatryggingu. Lögin eru mikið framfaraspor í heilbrigðisþjónustu og veruleg réttarbót fyrir sjúklinga sem verða fyrir heilsutjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. Þau taka gildi 1. janúar 2001 og taka til tjónsatvika sem verða frá þeim tíma.
Tenging við lagafrumvarpið á vef Alþingis>
Ný lög um lífsýnasöfn samþykkt:
Markmiðið með lögunum er að heimila söfnun, vörslu, meðferð og nýtingu lífsýna úr mönnum þannig að persónuvernd sé trygg, gætt sé hagsmuna lífsýnisgjafa og nýting lífsýnanna þjóni vísindalegum og læknisfræðilegum tilgangi og stuðli að almannaheill, eins og segir í 1. gr. laganna. Sett er skilyrði fyrir stofnun og starfsrækslu lífsýnasafna, stjórn þeirra og varðveislu sýna. Samkvæmt lögunum mun heilbrigðisráðherra gefa út leyfi fyrir rekstri lífsýnasafna en Persónuvernd, stofnun sem kemur í stað tölvunefndar samkvæmt nýjum lögum um persónuvernd, og Landlækni er falið eftirlit með starfsemi þeirra. Áður en lögin taka gildi, 1. janúar 2001, skal heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fela landlæknisembættinu að annast ítarlega kynningu meðal almennings á lífsýnasöfnum og reglum sem gilda um söfnun og notkun lífsýna.
Tenging við lagafrumvarpið á vef Alþingis >
Lyfjaeftirlit ríkisins og lyfjanefnd verða sameinuð í eina stofnun, Lyfjastofnun, samkvæmt lögum um breytingu á lyfjalögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi:
Auk þeirra verkefna sem lyfjanefnd og Lyfjaeftirlitið hafa sinnt bætist við umsjón með skráningu og eftirlit með verkunum og aukaverkunum lyfja. Þetta er þáttur sem stjórnvöldum ber að sinna samkvæmt EES-samningi og er þegar orðinn nokkuð fyrirferðamikill. Aðrar nýjungar sem fylgja lagabreytingunni eru m.a. þær að sérstök nefnd mun nú ákveða þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna nýrra lyfja. Þá verður reglum um álagningu lyfjaeftirlitsgjalds breytt frá því sem nú er og er gert ráð fyrir að hún verði í formi skattlagningar en ekki þjónustugjalda.
Tenging við lagafrumvarpið á vef Alþingis>
Víðtækar tillögur að úrbótum í málefnum barna með geðraskanir og fjölskyldna þeirra kynntar í nýrri skýrslu starfshóps á vegum landlæknisembættisins:
Í inngangi að skýrslu starfshópsins segir að tillögur hans séu víðtækar og að langan tíma geti tekið að koma sumum þeirra í framkvæmd eða langur tími liðið þar til áhrifa fari að gæta. Hins vegar megi með litlum fyrirvara og markvissum aðgerðum gera áhrifamiklar breytingar í geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni og á skömmum tíma ná fram hluta þeirra markmiða sem hópurinn setur. Starfshópurinn leggur ríka áherslu á mikilvægi forvarnarstarfs og telur nauðsynlegt að styrkja og auka samvinnu milli skóla- og heilbrigðiskerfisins.
Skýrslan í heild á heimasíðu landlæknisembættisins >
Tilvera í Grundarfirði fær heilsuverðlaun heilbrigðisráðherra fyrir árangursríka baráttu gegn vímuefnaneyslu ungmenna:
Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra afhenti í vikunni fulltrúum Tilveru í Grundarfirði heiðursverðlaunin Fjöreggið fyrir árangursríka baráttu gegn fíkniefnaneyslu ungmenna í bænum. Í ávarpi sem ráðherra flutti af þessu tilefni sagði hún að árangurinn í Grundarfirði væri einkar ánægjulegur. Foreldrar í bænum hefðu náð góðri samvinnu við unglingana, sveitarstjórn, félagasamtök og opinbera aðila sem vinna að forvörnum og sett öllum það sameiginlega markmið að koma í veg fyrir að unglingar í Grundarfirði neyttu fíkniefna.
Sjá fréttatilkynningu um málið >
Ráðið í þrjár framkvæmdastjórastöður á Landspítala – háskólasjúkrahúsi:
Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur fallist á tillögu stjórnar Landspítala – háskólasjúkrahúss um ráðningar í þrjár stöður framkvæmdastjóra við stofnunina. Anna Stefánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjúkrunar/hjúkrunarforstjóri. Gísli Einarsson framkvæmdastjóri kennslu og fræða og Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga/lækningaforstjóri. Framkvæmdastjórar sjúkrahússins eru fimm. Hinir framkvæmdastjórarnir tveir eru Anna Lilja Gunnarsdóttir hagfræðingur, framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga og Ingólfur Þórisson verkfræðingur, framkvæmdastjóri tækni og eigna og tóku þau formlega til starfa 2. maí.
Sjá nánar á heimasíðu sjúkrahússins>
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
19. maí 2000