Hoppa yfir valmynd
22. júní 2000 Heilbrigðisráðuneytið

17. - 23. júní

Fréttapistill vikunnar
17.-23. júní


Heilsugæsla best þar sem heilbrigðiskerfið er fjármagnað með sköttum, samkvæmt nýrri skýrslu WHO. Heilsugæsla talin best í Frakklandi og á Ítalíu. Ísland í 15. sæti.
Heilsugæsla er almennt best í Frakklandi, Ítalíu, San Marínó og Andorra, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Er þá miðað við ævilíkur og skilvirkni, jafnan aðgang þegnanna að kerfinu og hvernig það bregst við félagslegum og fjárhagslegum aðstæðum þeirra. Í skýrslunni segir jafnframt að heilbrigðiskerfi sem eru fjármögnuð með sköttum og tryggingum séu betri en kerfi þar sem miðað er við að notendur greiði sjálfir fyrir þjónustuna. Athygli vekur að Norðurlandaþjóðirnar, sem jafnan hafa verið taldar til fyrirmyndar í þessum efnum, eru ekki meðal efstu þjóða á listanum. Af þeim er Noregur efstur á blaði í 11. sæti, næst kemur Ísland í 15. sæti, þá Svíþjóð í 23. sæti, Finnland í 31. sæti og Danmörk í 34. sæti. Ýmsir hafa lýst efasemdum um þessar niðurstöður og telja þær segja meira um heilsufar þjóða en um gæði heilbrigðisþjónustu í viðkomandi landi.
Hér má skoða skýrsluna á heimasíðu WHO>

Aðildarríki WHO vinna að sameiginlegri stefnuyfirlýsingu í áfengismálum.
Nýlega hélt Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) fund um ungt fólk og áfengismál. Fundurinn var haldinn í Bonn og sátu hann 45 fulltrúar aðildarríkja WHO. Fundarefnin voru aðallega tvö. Hið fyrra fól í sér að undirbúa sameiginlega stefnuyfirlýsingu í áfengismálum. Stefnt er að því að leggja stefnuyfirlýsinguna fyrir ráðherrafund sem haldinn verður í Stokkhólmi 19. – 21. febrúar 2001 í boði WHO og sænskra stjórnvalda. Síðara fundarefnið var undirbúningur haustfunds ungs fólks um þessi mál sem haldinn verður í nóvember. Þangað verða boðnir tveir fulltrúar frá hverju aðildarríkjanna, annar úr röðum áhugafólks en hinn valinn af stjórnvöldum. Gert er ráð fyrir að þessir fulltrúar verði í Stokkhólmi þegar ráðherrafundurinn verður haldinn í febrúar þar sem þeim gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðherrana.

Nýr framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Siglufirði.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað Þórarinn Gunnarsson í embætti framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Siglufirði. Þórarinn lauk kennaraprófi frá Háskóla Íslands árið 1970 og prófi í viðskiptafræði frá H.Í. 1976. Frá árinu 1994 hefur hann starfað sem skrifstofustjóri Samtaka iðnaðarins gegnt starfi framkvæmdastjóra Húsafélags iðnaðarins, setið í nefndum um ýmis málefni þessum störfum tengdum o.fl. Skipunin tekur gildi 1. júlí og er til fimm ára.

Norrænt rannsóknarþing í sjúkraþjálfun haldið í Reykjavík.
Fimmta norræna rannsóknarþingið í sjúkraþjálfun hófst í Reykjavík á fimmtudaginn [22. júní] og stendur til laugardags. Þingið sitja um 300 fulltrúar frá átján löndum sem er metþátttaka. Yfirskrift þingsins er Sjúkraþjálfun byggð á rannsóknum, en áhersla er meðal annars lögð á umfjöllun um hvernig stytta megi tímann frá því að niðurstöður rannsókna liggja fyrir þar til að sjúkraþjálfarar geta nýtt þær í meðferð sjúklinga. Á þinginu verða haldin 120 erindi og kynningar á rannsóknum, þar af 11 frá Íslandi.

Ný vefsíða Áfengis- og vímuvarnarráðs.
Áfengis- og vímuvarnarráð opnaði nýja vefsíðu í dag [föstudaginn 23. júní]. Vefurinn er upplýsinga- og gagnasafn um vímuvarnir. Auk þess er þar að finna tengingar við erlenda gagnagrunna og bókasöfn, upplýsingar um rannsóknir um hvað eina sem snýr að vímuvörnum, fræðigreinar um vímuefni og meðferðarúrræði, lög og reglugerðir á þessu sviði auk fjölda tenginga við innlenda og erlenda vímuvarnarvefi og margt fleira.
Slóð Áfengis- og vímuvarnarráðs er:
www.vimuvarnir.is>

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
23. júní 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta