1. - 7. júlí
Fréttapistill vikunnar
1. – 7. júlí
Framkvæmdir hafnar við byggingu hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík.
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók í vikunni fyrstu skóflustunguna að hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík. Skrifað var undir samning um byggingu og rekstur heimilisins við fyrirtækið Öldung hf. 28. apríl s.l. að undangengnu útboði. Öldungur hf. er rekstrarfélag í eigu Securitas hf. og Íslenskra aðalverktaka. Með tilkomu Sóltúns fjölgar hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um 92 í Reykjavík. Miðað er við að hjúkrunarheimilið verði komið í fullan rekstur eftir eitt og hálft ár.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ákveðið í samvinnu við fjármálaráðuneytið að skipa verkefnisstjórn til að annast samskipti við Öldung hf. um undirbúning, hönnun og verklegar framkvæmdir við hjúkrunarheimilið. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að fara yfir lausnir, teikningar, lýsingar ofl. sem viðkemur framkvæmd framangreinds samnings við Öldung hf. Jafnframt situr fulltrúi verkefnisstjórnar vinnufundi með verksala og hefur eftirlit með að framkvæmd sé í samræmi við efni samningsins. Verkefnisstjórn hefur umsagnarrétt um endanlega hönnun húsnæðis og lóðar. Áður en rekstur hjúkrunarheimilisins hefst mun verkefnisstjórnin gera úttekt á því að húsnæði, lóð og búnaður sem tekinn er í notkun hverju sinni sé í samræmi við útboðsgögn og samning. Þá verður jafnframt gerð úttekt á rekstraráætlun og skipulagi þjónustu sem hjúkrunarheimilið Sóltún á að veita.
Samið við Mýflug hf. um framlengingu samnings um sjúkraflug á Vestfjörðum.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins og Mýflug hf. hafa gert samkomulag um framlengingu samnings um sjúkraflug á Vestfjörðum. Samningurinn gildir frá 1. júlí 2000 til ársloka og nær til sjúkraflugs á eftirtalda flugvelli: Hólmavík, Gjögur, Reykjanes, Ísafjörð, Holt, Þingeyri, Bíldudal, Patreksfjörð, Reykhóla, Ingjaldssand, Arngerðareyri og aðra staði á Vestfjörðum þar sem unnt er að lenda og þörf er fyrir lendingu. Mýflug hf. hefur forgang að öllu sjúkraflugi á Vestfjörðum nema aðstæður krefjist annars að mati heilbrigðisstarfsmanns. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins, Flugmálastjórn ásamt Ríkiskaupum vinna nú að gerð útboðslýsingar um endurgreiðslu kostnaðar af rekstri sjúkraflugs í landinu ásamt áætlunarflugs á nokkra staði. Vonir standa til að nýir samningar á grundvelli útboðs taki gildi 1. janúar 2001.
200 milljónir króna í gjafasjóð til styrktar hjartalækningum á Landspítalanum - Ákveðið að kaupa nýtt og fullkomið hjartaþræðingartæki.
Stofnaður hefur verið gjafa- og styrktarsjóður til að efla hjartalækningar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Stofnandinn sjóðsins er Jónína S. Gísladóttir, ekkja Pálma Jónssonar í Hagkaupum, og er sjóðurinn kenndur við hana. Jónína leggur fram 200 milljónir króna í stofnfé en með stofnun sjóðsins vill hún leggja sitt af mörkum til að efla hjartalækningar á Íslandi og styrkja og vinna að velferð hjartasjúklinga. Sjóðnum er m.a. ætlað að stuðla að uppbyggingu og skipulagsbreytingum sem leiða til bættrar þjónustu við hjartasjúklinga, styrkja tækjakaup og styrkja vísindastörf á sviði hjarta- og æðasjúkdóma. Samkvæmt skipulagsskrá skal sjóðurinn árlega verja 25 milljónum króna næstu 7 árin til verkefna sem þjóna þessu hlutverki. Í stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur eru synir hennar, Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, Helgi V. Jónsson hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi, Magnús Pétursson forstjóri Landspítalans og Guðmundur Þorgeirsson sérfræðingur í hjartalækningum, skipaður í samráði við framkvæmdastjórn spítalans. Stjórn sjóðsins hefur þegar ákveðið að fyrsta framlagi úr sjóðnum verði varið til kaupa á nýju og fullkomnu hjartaþræðingartæki.
Magnús R. Gíslason yfirtannlæknir tannheilsudeildar heilbrigðisráðuneytisins lætur af störfum.
Magnús R. Gíslason, yfirtannlæknir tannheilsudeildar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og formaður tannverndarráðs hefur látið af störfum vegna aldurs. Magnús hóf störf hjá ráðuneytinu árið 1983 og hefur starfað þar óslitið síðan. Hann hefur einkum sinnt forvarnarmálum og unnið að skipulagi tannverndar á Íslandi. Öflugt forvarnarstarf á undanförnum tveimur áratugum á ríkan þátt í því að gjörbreyting hefur orðið á tannheilsu Íslendinga sem einkum sést á því hve mikið hefur dregið úr tannskemmdum meðal barna.
Beinþynning meðal karla vanmetið vandamál.
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að beinþynning er vaxandi vandamál meðal karla. Árlega hljóta tólf – fjórtán hundruð Íslendingar beinbrot af einhverju tagi sem rekja má til beinþynningar. Ein alvarlegasta afleiðing beinþynningar er mjaðmabrot. Í nýlegri alþjóðlegri samanburðarrannsókn, sem styrkt var af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, kemur fram að um þriðjungur mjaðmabrota á Íslandi verða hjá körlum. Almennt hefur fyrst og fremst verið rætt um beinþynningu sem sjúkdóm kvenna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna hins vegar að beinþynning meðal karla er vaxandi vandamál sem vert er að gefa nánari gaum. Athygli er vakin á nýjum bæklingi Gigtarráðs og Gigtarfélags Íslands Beinþynning – byggjum upp og bætum líðan. Í bæklingnum er sjúkdómurinn skýrður, sagt frá helstu áhættuþáttum og fyrirbyggjandi meðferð gegn beinþynningu. Bæklingurinn fæst á skrifstofu Gigtarfélags Íslands, Ármúla 5 í Reykjavík.
Noregur: Þriðji hver aldraður Norðmaður sem leggst inn á sjúkrahús dvelur þar lengur en eðlilegt má teljast. Ástæðan er bið eftir öðrum úrræðum eftir útskrift.
Statens helsetilsyn
hefur tekið saman viðamikla skýrslu um aldraða á sjúkrahúsum. Þar kemur m.a. fram að nær helmingur sjúklinga á almennum deildum sjúkrahúsa er 75 ára og eldri. Þriðji hver aldraður sjúklingur þarf að bíða eftir útskrift vegna þess að skortur er á viðeigandi úrræðum þegar sjúkrahúsdvöl lýkur. Í skýrslunni er bent á að verulega skorti á samráð milli sjúkrahúsa og heimaþjónustu aldraðra. Við innlögn vanti því oft mikilvægar upplýsingar um sjúklinga sem heimaþjónustan gæti veitt. Þess er vænst að stjórnendur sjúkrahúsa nýti niðurstöður skýrslunnar til að auka samstarf og bæta þjónustu við aldraðra.
Hægt er að lesa skýrsluna í heild á Netinu. Heiti hennar er; Gamle i sykehus. Innlagte 75 år og over i medisinsk avdeling.
Sjá útgáfulista Statens helsetilsyn >
7. júlí 2000