Markmið 5: Jafnrétti kynjanna
Jafnrétti kynjanna verði tryggt og staða allra kvenna og stúlkna styrkt
Töluverðar framfarir hafa orðið í jafnréttismálum á heimsvísu á undanförnum áratugum. Engu að síður verða konur og stúlkur enn fyrir kerfisbundinni mismunun og ofbeldi vegna kyns síns. Kynjajafnrétti er mikilvægt mannréttindamál og af þeirri ástæðu verður að veita konum og stúlkum jöfn tækifæri til að ganga í skóla, fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu og vinnu. Einnig eru jöfn tækifæri kvenna til þátttöku í stjórnmálum og ákvarðanatöku ein forsenda þess að auka völd þeirra og stuðla þannig að auknum friði, velmegun og sjálfbærni á heimsvísu. Fyrsta lagalega skrefið í jafnréttisátt á Íslandi var tekið árið 1850, en þá fengu dætur jafnan erfðarétt á við syni. Síðan hafa verið stigin fjölmörg skref til þess að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Í alþjóðlegum samanburði hefur Ísland staðið framarlega í þessum efnum um árabil og undanfarin níu ár vermt fyrsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) yfir kynjabil (e. gender gap). Enn er þó valdaójafnvægi milli kynjanna á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Einna helst birtist það í ólíkri þátttöku kynjanna á vinnumarkaði og í valdastöðum, þar sem konur komast síður til æðstu metorða, en þess gætir einnig í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og ástæða er til að geta sérstaklega um kynbundið ofbeldi í þessu samhengi.29
Stefna og löggjöf sem stuðlar að auknu kynjajafnrétti
Hér á landi gilda lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem hafa það að markmiði að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Efnisleg ákvæði laganna lúta bæði að samfélaginu utan og innan vinnumarkaðar, t.d. hvað varðar launajafnrétti, samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs, kynferðislega áreitni, menntun og fleira. Jafnréttislög heimila til að mynda sértækar aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og kveða á um að tekið skuli tillit til meðgöngu og barnsburðar á vinnumarkaði. Framangreindum lögum hefur verið breytt nokkrum sinnum síðastliðin ár í því skyni að stuðla að auknu kynjajafnrétti og draga úr mismunun. Þar má nefna jafnlaunavottun og bann við mismunun á grundvelli kyns í tengslum við vörukaup og þjónustu.
Stjórnvöldum ber samkvæmt jafnréttislögum að gera framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Gildandi áætlun fyrir árin 2016-2019 hefur þau markmið að stuðla að kynjajafnrétti og efla völd kvenna og stúlkna á öllum sviðum samfélagsins. Meðal verkefna áætlunarinnar er átak um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvarðanatöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð. Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) og valfrjálsa bókun hans og hvetur önnur ríki til að framfylgja ákvæðum hans að fullu. Í alþjóðlegum samanburði hefur íslenskur vinnumarkaður lengi haft þá sérstöðu að atvinnuþátttaka kvenna er mikil. Árið 2017 mældist hún tæp 80% sem er með því hæsta sem þekkist.30 Síðastliðna áratugi hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist jafnt og þétt en um þriðjungur kvenna sinnir hlutastörfum á móti um 14% karla.31 Mikil kynjaskipting starfa er einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað. Konur og karlar gegna ólíkum störfum og kynbundið námsval og kynjaskipting milli starfsgreina er enn áberandi. Þá eru karlar mun oftar ofar í valdastigum atvinnulífsins en konur og karlar virðast enn búa við betri starfsþróunarmöguleika en þær.33
Útrýming alls ofbeldis gagnvart konum og stúlkum
Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum var fullgiltur á Íslandi í apríl 2018. Samningurinn var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Samningurinn er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð.
Þá hefur dómsmálaráðherra samþykkt aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita viðbótarfjármagn til innleiðingar aðgerða á grundvelli hennar, m.a. til að fjölga stöðugildum hjá lögreglu og héraðssaksóknara, til að auka endurmenntun og til að bæta rannsóknarbúnað og verklagsreglur hjá lögreglu við meðferð kynferðisbrota. Þá hefur verið stofnaður stýrihópur um úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi sem hefur það að meginhlutverki að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi.
Sameiginleg ábyrgð kynjanna á heimili og fjölskyldu
Meðal markmiða jafnréttislaga er að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og er það meðal annars lögbundið hlutverk Jafnréttisráðs. Einnig er í lögunum lögð sú skylda á atvinnurekendur að þeir geri nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Í því augnamiði leggja lögin áherslu á að ráðstafanir atvinnurekenda auki sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þ.m.t. að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óvið ráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 hafa meðal annars að markmiði að tryggja barni samvistir við bæði föður og móður og einnig að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Allt frá setningu laganna árið 2000 hafa foreldrar almennt nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs. Frá árinu 2009 hefur þó hlutfall feðra sem nýtir sér hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs farið lækkandi34 og þeim feðrum sem ekki nýta sér að fullu rétt sinn til fæðingarorlofs farið hlutfallslega fjölgandi frá árinu 2008.35
Ólík staða kynjanna á vinnumarkaði hefur áhrif á skiptingu heimilisstarfa, en rannsóknir benda til að sá aðili í hjúskap sem vinnur lengri vinnuviku og/eða hefur hærri tekjur verji að jafnaði minni tíma í heimilisstörf. Á Íslandi hefur síðastliðin ár dregið saman á milli karla og kvenna þegar litið er til meðalfjölda klukkustunda á viku sem hvort kyn ver í heimilisstörf 36 (uppeldi barna og tómstundaiðja ekki meðtalin). Árið 2013 var munurinn 4,5 klukkustundir á viku í kjölfar þess að konur höfðu dregið lítillega úr þeim tíma sem þær verja í heimilisstörf. Rannsóknir hafa sýnt að hlutdeild karla í heimilisstörfum hefur aukist og hefðbundin kynjaviðhorf virðast hafa hopað í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og þeirrar staðreyndar að fleiri karlar taka fæðingarorlof og sinna ungum börnum sínum.37
Full þátttaka kvenna á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála og á öðrum opinberum vettvangi
Í jafnréttislögum er kveðið á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% hlutur hvors kyns þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að. Jafnframt er kveðið á um að þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá framangreindu skilyrði þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu og skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Í lögum um hlutafélög er jafnframt kveðið á um sams konar fyrirkomulag fyrir skipan í stjórnir félaga með 50 starfsmenn eða fleiri.
Hlutfall kvenna á Alþingi hefur smám saman farið hækkandi síðastliðna áratugi, þó það sé sveiflukennt og var 38,1% árið 2017 en 47,6% árið 2016. Hlutfall kvenna sem voru framkvæmdastjórar sveitarfélaga árið 2017 var 21,6%, en hlutfall kvenna í sveitarstjórnum árið 2018 varð 47,2% og hefur aldrei verið hærra.38
Ísland á alþjóðlegum vettvangi
Í íslenskri utanríkisstefnu er lögð mikil áhersla á kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna sem endurspeglast bæði í þróunarsamvinnu og í málsvarastarfi á alþjóðavettvangi. Kynjajafnrétti er jafnan forgangsmál þegar Ísland gegnir formennsku í svæðisbundnu samstarfi en Ísland mun m.a. taka við formennsku í Norðurskautsráðinu, Norrænu ráðherranefndinni og kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum árið 2019. Virðing fyrir mannréttindum kvenna og bann við mismunun á grundvelli kynferðis er grunnstefið í málflutningi stjórnvalda, m.a. hvað varðar kyn- og frjósemisréttindi, rétt kvenna til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, þ.m.t. í friðar- og öryggismálum, og mikilvægi þess að karlar beiti sér fyrir jafnrétti, enda sé það lykillinn að sjálfbærri þróun og velsæld allra.
Í tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum Íslands, Malaví og Úganda, og í áherslulöndunum, Mósambík, Palestínu og Afganistan, hefur Ísland m.a. stutt valdeflandi verkefni á sviði mæðra- og ungbarnaheilsu, menntamála, vatns- og hreinlætismála og friðar- og öryggismála. UN Women, sem er áherslustofnun í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu, starfar á vettvangi, sinnir samræmingarhlutverki meðal stofnana SÞ, er leiðandi í stefnumótun á alþjóðavettvangi og vinnur einnig kerfisbundið að aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála. Ísland veitir kjarnaframlög til UN Women auk framlaga til verkefna stofnunarinnar í Mósambík, Palestínu og Afganistan og mannúðarverkefnis UN Women í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Íslenska friðargæslan hefur einnig sent sérfræðinga til starfa fyrir UN Women, nú síðast til Tyrklands en áður til Palestínu.
Árið 2017 þrefaldaði Ísland framlög til Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), í þágu kyn- og frjósemisréttinda og -heilbrigðis en meðal verkefna UNFPA er að tryggja réttindi mæðra og barna til heilsuverndar, tryggja ungbarnavernd, dreifingu getnaðarvarna og kynlífs- og fjölskyldufræðslu. Þá hlýtur UNFPA í Sýrlandi sérstakan stuðning frá Íslandi og einnig samstarfsverkefni UNFPA og UNICEF um afnám limlestingar á kynfærum kvenna. Íslensk stjórnvöld styðja jafnframt við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem með þverfaglegum rannsóknum, kennslu og miðlun skal stuðla að kynjajafnrétti og félagslegu réttlæti í þróunarlöndum og á átakasvæðum.
29 Sjá viðauka 1.
30 Hagstofa Íslands, 2018, Konur og karlar á Íslandi 2018.
31 Hagstofa Íslands, 2018, Konur og karlar á Íslandi 2018.
32 Velferðarráðuneytið, mars 2018, Skýrsla félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2015-17.
33 Velferðarráðuneytið, mars 2018, Skýrsla félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2015-17.
34 Hagstofa Íslands, Viðtakendur og greiðslur vegna fæðingarorlofs 2001-2016, px.hagstofa.is.
35 BSRB, 5. apríl 2017, Enn færri feður nýta rétt sinn til fæðingarorlofs.
36 Velferðarráðuneytið, maí 2015, Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði: Staðreyndir og staða þekkingar.
37 Velferðarráðuneytið, maí 2015, Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði: Staðreyndir og staða þekkingar.
38 Hagstofa Íslands, hagstofa.is.