Stuðningsgreiðslur til svína- alifugla- og eggjabænda
Matvælaráðuneytið mun á grundvelli tillagna spretthóps um stuðning við matvælaframleiðslu greiða samtals 450 milljónir króna til búgreina sem ekki njóta framleiðslustuðnings samkvæmt búvörusamningum, þ.e. svína- alifugla- og eggjaframleiðslu.
Stuðningnum er ætlað að mæta auknum kostnaði framleiðenda við fóðuröflun vegna mikilla og ófyrirséðra verðhækkana á árinu. Úthlutun til framleiðenda verður á grundvelli framleiðslu ársins 2022. Munu 225 milljónir króna renna til framleiðenda svínakjöts, 160 milljónir króna til framleiðenda alifuglakjöts og 65 milljónir króna til eggjaframleiðenda.
Matvælaráðuneytið mun afla upplýsinga um framleiðslumagn hjá afurðastöðvum eða Matvælastofnun eftir því sem við á. Óskað er eftir umsóknum frá framleiðendum með stuttri lýsingu á búrekstrinum þar sem fram kemur m.a.:
- Heildarupphæð fóðurkostnaðar sem umsækjandi greiddi árið 2022. Ef annar aðili en umsækjandi greiddi fóðurkostnaðinn þarf að gera grein fyrir því.
- Samanburður á heildarframleiðslukostnaði umsækjanda árin 2021 og 2022.
- Önnur þau atriði sem framleiðendur vilja koma á framfæri.
Umsóknir óskast sendar inn á Afurð eða í tölvupósti á [email protected] eigi síðar en 20. janúar nk.