Ísland tilkynnir um ný áheit til mannúðarmála í Sýrlandi og grannríkjum
Framlög Íslands til mannúðarmála í Sýrlandi og grannríkjum nema 820 milljónum króna næstu þrjú árin. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti þetta á árlegri framlagaráðstefnu fyrir Sýrland og grannríki sem haldin var í Brussel í dag.
Meginskilaboð ráðstefnunnar snúa sem fyrr að mikilvægi friðarumleitana í Sýrlandi, þar sem Sameinuðu þjóðirnar gegna veigamiklu hlutverki.
„Bág staða almennra borgara í Sýrlandi er mikið áhyggjuefni, þar sem þrír af hverjum fjórum íbúum landsins eru í brýnni þörf fyrir mannúðaraðstoð,“ segir Þórdís Kolbrún. „Viðvarandi og óhindrað mannúðaraðgengi í Sýrlandi og á svæðinu er afar mikilvægt. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja og veitir mannúðaraðstoð þar sem þörfin er brýnust.“
Framlög Íslands næstu þrjú árin renna til verkefna Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess. Upphæðin skiptist milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), svæðasjóða OCHA fyrir Líbanon og Sýrland og stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women). Þá hækka fyrirhuguð framlög Íslands til UNHCR á árunum 2025 og 2026 um sem nemur 60 milljónum króna.
Framlagaráðstefnan fyrir Sýrland er skipulögð af Evrópusambandinu ár hvert í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og er meginvettvangur fyrir fjármögnun alþjóðasamfélagsins á mannúðaraðstoð og öðrum stuðningi við almenna borgara í Sýrlandi og flóttafólk í grannríkjum. Ísland hefur tekið þátt í viðburðinum frá upphafi en á þeim fjórtán árum sem liðin eru frá því að átök brutust út í Sýrlandi hafa 14 milljónir íbúa landsins neyðst til að flýja heimkynni sín. Ísland hefur stutt við verkefni Sameinuðu þjóðanna á svæðinu í meira en áratug.