Hoppa yfir valmynd
29. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 207/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 207/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. apríl 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs vegna ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. júní 2021, sótti kærandi um fæðingarorlof í 6 mánuði vegna barns síns sem fæddist X. september s. á. Var kærandi í fæðingarorlofi í einn mánuð, frá byrjun september og fram í byrjun október 2021, í kjölfar fæðingar barnsins. Tilkynning um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs barst Fæðingarorlofssjóði frá kæranda og var hann afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við hana með greiðsluáætlun, dagsettri 24. ágúst 2022. Kærandi var í framhaldinu í fæðingarorlofi um þriggja mánaða skeið, í október til og með desember 2022, en samhliða því í hlutastarfi fyrir vinnuveitanda sinn í október og nóvember s. á.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2023, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum og óskað frekari gagna og skýringa frá honum. Skýringar bárust frá kæranda, dags. 13. mars 2023, auk skýringa frá vinnuveitanda hans, dags. 9. mars 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023, var kæranda tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri samkvæmt framangreindum lögum og bæri honum því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 390.490 kr., auk 15% álags, samtals 455.964 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. apríl 2023. Með bréfi, dags. 26. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 9. maí 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. maí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023, þar sem kæranda hafi verið gert að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði samtals 455.964 kr. Kærandi hafi þegið laun frá vinnuveitanda sínum í október og nóvember 2022, sem ekki hafi samrýmst þeim réttindum sem hann hafi fengið úthlutað úr Fæðingarorlofssjóði á sama tíma, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl).

Barn kæranda hafi fæðst X. september 2021. Kærandi hafi hafið töku fæðingarorlofs þann dag, sem hafi varað í einn mánuð og á því tímabili notið greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 21. gr. ffl. Þegar barn kæranda hafi fæðst, hafi kærandi haft 927.000 kr. í mánaðarlaun í starfi sínu. Viðmiðunartekjur kæranda í fæðingarorlofi hafi numið 935.307 kr., sem hafi verið meðaltal heildartekna kæranda á tólf mánaða samfelldu tímabili sem hafi lokið sex almanaksmánuðum fyrir fæðingu barns kæranda eða í febrúar 2021.

Kærandi hafi farið aftur til starfa hjá vinnuveitanda í byrjun október 2021 í kjölfar mánaðarlangs fæðingarorlofs. Þann 1. desember 2021 hafi kærandi fengið stöðuhækkun í starfi sínu og um 30% launahækkun samhliða. Mánaðarlaun kæranda hafi verið 1.200.000 kr. eftir það.

Í ágúst 2022 hafi kærandi sótt um greiðslur að nýju úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrirhugaðs fæðingarorlofs í október, nóvember og desember það ár. Beiðni kæranda hafi verið samþykkt með bréfi Vinnumálastofnunar þann 24. ágúst 2022.

Kærandi hafi hafið töku fæðingarorlofs 1. október 2022. Þar sem tekjur kæranda hafi lækkað um helming í fæðingarorlofi, hafi hann unnið hálft starf hjá vinnuveitanda sínum á meðan á fæðingarorlofi hafi staðið.

Vinnumálastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 23. febrúar 2023, þar sem kæranda hafi verið tilkynnt að stofnunin hefði hugsanlega ofgreiðslu til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði til skoðunar. Kæranda hafi af því tilefni verið veittur fjögurra vikna frestur til að koma að athugasemdum sínum og útskýra mögulegar ofgreiðslur.

Lögmaður kæranda hafi sent Vinnumálastofnun bréf, dags. 13. mars 2023, þar sem launahækkun kæranda milli fæðingarorlofstímabila hafi verið reifuð og farið fram á við stofnunina að hún tæki tilliti til launahækkunarinnar við mat á því hvort kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði í október og nóvember 2022.

Vinnumálastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 21. mars 2023, þar sem honum hafi verið greint frá því að mat stofnunarinnar væri að hann hefði fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði í október og nóvember 2022. Kærandi hafi því verið krafinn um endurgreiðslu samtals 455.964 kr., sem skiptist í [396.490] kr. höfuðstól og 15% álag að fjárhæð 59.474 kr.

Kærandi byggi kæru sína á því að samkvæmt 7. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. sé heimilt, við mat á því hvort foreldri hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, að taka tillit til launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. laganna ljúki og fram til fyrsta dags fæðingarorlofs. Kærandi telji að túlka beri ákvæðið á þann hátt að í tilfelli þeirra foreldra sem taki fæðingarorlof sitt út á aðgreindum tímabilum, verði að líta til þeirra launahækkana sem foreldrar fái á milli þeirra tímabila, en ekki aðeins þeirra launahækkana sem foreldrar fái fyrir fyrsta dag fæðingarorlofs.

Í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. sé tekið fram að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingargjalds samkvæmt lögum um tryggingargjald, og séu hærri en sem nemi mismuni greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. laganna og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof segi í athugasemdum við 25. gr. að gert sé ráð fyrir því að foreldri geti fengið þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta greiddan frá vinnuveitanda samhliða fæðingarorlofi. Síðar í athugasemdunum sé tekið fram að reglur ákvæðisins um frádrátt tekna frá vinnuveitanda frá greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sé ætlað að undirstrika mikilvægi þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið eigi ekki að standa að baki því að foreldrar nýti rétt sinn til fæðingarorlofs, heldur sé það samvera foreldra og barna á tilteknu tímabili sem stefnt sé að.

Kærandi hafi tekið fæðingarorlof sitt út á tveimur aðskildum tímabilum, annars vegar í september og október 2021 og hins vegar í [október,  nóvember og desember 2022.] Á þeim tíma sem hafi liðið frá lokum fyrra fæðingarorlofstímabils hans fram að upphafi næsta fæðingarorlofstímabils, hafi mánaðarlaun hans hækkað um tæplega 30% vegna breytinga á starfi hans í kjölfar stöðuhækkunar. Kærandi telji augljóst að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið hafi ekki ráðið því að hann hafi þegið laun á meðan á fæðingarorlofi hans hafi staðið, heldur hafi hann einfaldlega reynt að brúa það gríðarlega tekjutap sem hann hafi orðið fyrir í orlofinu, en tekjur kæranda hafi lækkað um helming meðan á orlofinu hafi staðið. Kærandi telji að skýra beri 7. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. á þann veg að heimilt sé að líta til launahækkunar sem foreldri hafi fengið frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að fyrsta degi hvers tímabils sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Að öðrum kosti geti foreldri sem taki fæðingarorlof sitt yfir aðskilin tímabil, þurft að sæta því að kjör þeirra skerðist verulega, fái foreldri launahækkun í millitíðinni, líkt og í tilfelli kæranda. Að mati kæranda hafi Vinnumálastofnun því átt að taka tillit til launahækkunar hans við mat á því hvort hann hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi óski þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. [21. mars 2023], verði hrundið og sjóðnum falið að taka tillit til launahækkunar kæranda frá 1. desember 2021, við mat á því hvort hann hafi fengið ofgreitt í fæðingarorlofi sínu.


 

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar - Fæðingaorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn endurkrefji kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir október og nóvember 2022, þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni sem hafi fæðst X. september 2021.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 23. febrúar 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með mál hans til meðferðar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir október og nóvember 2022. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda, ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Skýringar kæranda ásamt skýringum vinnuveitanda hafi borist frá kæranda, dags. 13. mars 2023. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun, dags. 21. mars 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð ásamt 15% álagi. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og innsendum skýringum hafi verið litið svo á að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) og 2. mgr. 41. gr. ffl.

Samkvæmt 3. gr. ffl. sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 1. mgr. 25. gr. ffl. sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3. til 5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismuni greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá komi fram í 7. og 8. málsl. sömu greinar að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr.

Með umsókn kæranda, dags. 30. júní 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns síns sem hafi fæðst X. september 2021. Tilkynning, auk breytinga, hafi borist frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og hafi hann verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við það, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 24. ágúst 2022. 

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hans verið 935.306 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi töku fæðingarorlofs, sbr. 7. málsl. 1. mgr. 25. gr., hafi þau hækkað í 935.666 kr. sem hafi verið miðað við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda honum til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. Þar sem tekið sé fram í 8. málsl. 1. mgr. 23. gr. ffl. að taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr., sé litið svo á að ekki sé heimilt að miða við eingöngu launakjör foreldris á því tímamarki sem foreldri hefji töku fæðingarorlofs heldur beri að miða við meðaltal heildarlauna á því viðmiðunartímabili samkvæmt 7. málsl. sem liggi til grundvallar hverju sinni. Þá sé ekki heimilt að taka tillit til hugsanlegra launabreytinga við upphaf fæðingarorlofs foreldris við mat á ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. ffl.

Tímabilið 1. til 31. október 2022 hafi kærandi fengið greiddar 600.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði. Því hafi honum verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismuni á 935.666 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 335.666 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir október 2022 hafi kærandi þegið 655.376 kr. í laun. Í skýringum vinnuveitanda og kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í október 2022. Hann hafi því fengið 319.710 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en honum hafi verið heimilt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir október 2022 sé því 185.001 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 30. nóvember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 600.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði. Því hafi honum verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismuni á 935.666 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða 335.666 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir október 2022 hafi kærandi þegið 698.000 kr. í laun. Í skýringum vinnuveitanda og kæranda komi fram að um sé að ræða greiðslu launa fyrir vinnu unna í nóvember 2022. Hann hafi því fengið 362.334 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en honum hafi verið heimilt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir október 2022 sé því 211.489 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. ffl. sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að ef foreldri hafi fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laga þessara miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd, að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein, ef foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt skýringum vinnuveitanda sé um að ræða greiðslu launa fyrir vinnu í október og nóvember 2022. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Í kæru geri kærandi athugasemd við mat Fæðingarorlofssjóðs á launahækkunum kæranda fram að upphafi fæðingarorlofs og sé það mat kæranda að miðað við 7. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. ætti að miða við þau launakjör sem kærandi hafi haft við upphaf töku hvers tímabils fæðingarorlofs fyrir sig. Í 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. sé vísað í 23. gr. og tilgreint hvernig eigi að beita 7. málsl. við útreikning á tekjum foreldris á viðmiðunartímabilum. Ekki verði ráðið, hvorki af lagatexta né öðrum lögskýringargögnum, að Fæðingarorlofssjóði sé heimilt að miða við launakjör foreldris á því tímabili sem fæðingarorlof hefjist. Þar að auki verði ekki séð að heimilt sé að miða við annað viðmiðunartímabil en fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris, óháð því hvort foreldri skipti fæðingarorlofi niður á fleiri tímabil. Mat Fæðingarorlofssjóðs sé því að tekið hafi verið tillit til launabreytinga foreldris eins og hægt sé innan heimilda laganna.

Kærandi telji, með vísan til athugasemda við 25. gr. í frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof, að gert sé ráð fyrir því að foreldri geti fengið þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta greiddan frá vinnuveitanda samhliða fæðingarorlofi, að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið hafi ekki ráðið því að hann hafi þegið laun á meðan á fæðingarorlofi hafi staðið og kærandi hafi einfaldlega brúað gríðarlegt tekjutap sem hann hafi orðið fyrir í fæðingarorlofinu. Þó tekið sé fram í frumvarpi ffl. að vinnuveitanda sé heimilt að bæta upp tekjumissi við töku fæðingarorlofs, þá sé einnig tekið fram að ef foreldri fái bættan tekjumissinn, sem Fæðingarorlofssjóði sé ætlað að bæta frá vinnuveitanda, þyki eðlilegt að þær greiðslur komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Fæðingarorlof samkvæmt 3. gr. ffl. sé leyfi frá launuðum störfum og réttur foreldra til greiðslna sé bundinn því að foreldri leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. Þar sem greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismuni greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli þær koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður ofgreitt kæranda 396.460 kr. að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 59.474 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 455.964 kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 21. mars 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs frá 21. mars 2023 um endurgreiðslu að fjárhæð 455.964 kr. með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).

Í 23. gr. ffl. er fjallað um viðmiðunartímabil og útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skal þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1.-4. málsl. 25. gr. ffl. er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3. til 5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Tekjur foreldris sem er í fæðingarorlofi samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 13. gr., sem eru í samræmi við meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. skulu ekki hafa áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir sama tímabil. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja má til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. lýkur og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skal tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert er við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. Foreldri skal sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. byggjast og er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggur fram í þessu sambandi.

Í 41. gr. ffl. er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði hinn 30. júní 2021 vegna barns síns sem fæddist X. september 2021. Tilkynning um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs barst Fæðingarorlofssjóði og var hann afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við hana. Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. ágúst 2022 kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili fæðingarorlofs, frá mars 2020 og til og með febrúar 2021, hafi verið 935.307 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri 600.000 kr. Frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi fæðingarorlofs höfðu viðmiðunarlaun kæranda hækkað í 935.666 kr. og var miðað við þá fjárhæð við útreikning á ofgreiðslu kæranda. Greiðslutímabil var tvískipt, september til og með október 2021 og september til og með desember 2022. Á þeim tíma var kæranda einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans, eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023, var kæranda send greiðsluáskorun þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna október og nóvember 2022. Þar kemur fram að á tímabilinu 1. til 31. október 2022 hafi kærandi fengið greiddar 319.710 kr. umfram þá fjárhæð sem honum var heimilt. Því bæri honum að endurgreiða 185.001 kr. fyrir tímabilið. Á tímabilinu 1. til 30. nóvember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 362.334 kr. umfram þá fjárhæð sem honum var heimilt. Því bæri honum að endurgreiða 211.489 kr. fyrir tímabilið. Heildarkrafa um endurgreiðslu á hendur kæranda hafi því numið 390.490 kr. Samkvæmt bréfi Fæðingarorlofssjóðs hafi kæranda einnig borið að endurgreiða fjárhæðina að viðbættu 15% álagi, alls 455.964 kr.

Kærandi bendir í kæru á að þar sem hann hafi skipt fæðingarorlofi sínu upp í tvennt, væri um tvö aðgreind tímabil að ræða og því þyrfti að horfa til upphafs síðara tímabilsins sem hófst í október 2022 hvað launahækkun hans snerti.

Áætlaðar mánaðargreiðslur til kæranda á grundvelli greiðsluáætlunar frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 24. ágúst 2022, námu 935.306 kr. en voru síðar hækkaðar í 935.666 kr. Frá því að viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1-3. mgr. 23. gr. ffl. lauk í febrúar 2021 og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs hans í september 2021 lágu ekki fyrir upplýsingar um aðrar launahækkanir kæranda heldur en úr 935.306 kr. í 935.666 kr. og Fæðingarorlofssjóður hafði þegar tekið tillit til, sbr. 7. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. Þá felur umrætt lagaákvæði ekki í sér heimild til að miða við annað viðmiðunartímabil heldur en þar er tilgreint.

Líkt og fyrir liggur í málinu fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum fyrir október og nóvember 2022. Kærandi vísar um það til þess í kæru að hann hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hafi unnið hlutastarf meðfram fæðingarorlofi vegna tekjumissis.

Samkvæmt þessu, sem og vottorði vinnuveitanda, dags. 9. mars 2023, og öðrum gögnum málsins er ljóst að kærandi fékk greidd laun fyrir hlutastarf samhliða fæðingarorlofsgreiðslum Því lagði hann ekki niður störf á meðan hann nýtti rétt sinn til fæðingarorlofs, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. Þar sem kærandi vann hlutastarf meðfram fæðingarorlofi, hefðu greiðslur vinnuveitanda sem voru hærri en mismunur greiðslna úr Fæðingarorlofi átt að koma til frádráttar greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. og 4. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl. Þar sem greiðslur vinnuveitanda komu ekki til frádráttar greiðslum úr sjóðnum að nægu marki, þykir að mati úrskurðarnefndarinnar sýnt að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við það sem lýst er í bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023. Þá er ákvæði 41. gr. ffl. fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að endurgreiðslukrafan verði felld niður. Þá telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi ekki sýnt fram á með skriflegum gögnum að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem leiddu til hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl. Af þeim sökum verður ekki fallist á að fella niður 15% álag á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr sjóðnum fyrir tímabilið október til nóvember 2022 að fjárhæð 455.964 kr. því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. mars 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir október til nóvember 2022 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta