Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 429/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 429/2017

Fimmtudaginn 8. febrúar 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 22. desember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. september 2017 og var umsóknin samþykkt. Þann 12. september 2017 skrifaði kærandi undir bókunarblað vegna námskeiðs hjá B sem fram fór dagana 13. september til 20. október 2017. Vinnumálastofnun bárust þær upplýsingar frá námskeiðshaldara að kærandi hefði einungis mætt í 8 af 17 skiptum á námskeiðið. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. nóvember 2017, var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda vegna „slæmrar“ mætingar á námskeiðið. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust ekki frá kæranda og með bréfi, dags. 16. nóvember 2017, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar frá og með 16. október 2017 á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Þá var kæranda tilkynnt að hann ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefði starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. desember 2017. Með bréfi, dags. 3. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 18. janúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. janúar 2018, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki verið sendur á eða verið skipað að fara á námskeið í [...]. Hann hafi tekið þátt í námskeiðinu algjörlega að eigin frumkvæði. Kærandi tekur fram að í tvö skipti hafi hann verið að undirbúa atvinnuumsóknir en einnig hafi aðrir óvæntir atburðir komið upp, svo sem vandamál með leikskóla og læknaheimsóknir. Þá hafi hann verið kallaður inn í atvinnuviðtal í byrjun október. Kærandi bendir á að hann hafi verið mjög einbeittur í þeim tímum sem hann hafi mætt í, tekið þátt í umræðum og ítrekað hjálpað öðrum nemendum. Kærandi vísar til þess að hann hafi fengið vinnu í október 2017 og því einungis um 15 vinnudaga að ræða sem Vinnumálastofnun hafi ekki greitt honum atvinnuleysisbætur fyrir.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að í ákvæði 58. gr. laga nr. 54/2006 komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim, sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Það liggi fyrir að kærandi hafi skrifað undir bókunarblað á námskeiðið „[...]“ hjá B sem hafi farið fram dagana 13. september 2017 til 20. október 2017. Með undirritun sinni hafi kærandi staðfest að hann myndi mæta á námskeiðið og að honum væri skylt að uppfylla kröfur um mætingarskyldu á námskeiðið og að tilkynna ætti um forföll. Kærandi hafi verið upplýstur um að það gæti leitt til viðurlaga samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 ef úrræði á vegum Vinnumálastofnunar væri hafnað. Kærandi hafi ekki mætt á boðað námskeið og ekki tilkynnt um forföll sín til stofnunarinnar. Kærandi hafi einungis mætt í 8 af 17 skiptum á námskeiðið eða í 45% tilfella. Kærandi hafi ekki fært fram skýringar við afgreiðslu á máli hans hjá Vinnumálastofnun. Í kæru til úrskurðarnefndar komi fram að kærandi hafi ekki mætt á umrætt námskeið sökum þess að hann hafi verið að undirbúa atvinnuumsóknir. Einnig hafi óvæntir atburðir á borð við læknaheimsóknir og „leikskólavesen“ komið í veg fyrir að hann hafi sótt námskeið sem og að í byrjun október hafi hann verið kallaður í atvinnuviðtal.

Vinnumálastofnun tekur fram að atvinnuleitendum beri í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 að tilkynna stofnuninni um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi og fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda hefði verið unnt að tilkynna um forföll sín til stofnunarinnar með tölvupósti eða símtali. Engin tilkynning um fjarveru eða veikindi hafi borist stofnuninni. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að ástæður sem fram komi í kæru til nefndarinnar séu ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laganna. Kærandi hafi áður sætt biðtíma á grundvelli laga nr. 54/2006. Er þetta í þriðja sinn sem kærandi sætir viðurlögum á sama bótatímabili. Greiðslur til kæranda hafi því verið stöðvaðar og honum tilkynnt að hann gæti ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann væri búinn að starfa samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir er hugtakið vinnumarkaðsaðgerðir skilgreint nánar en þar segir að með vinnumarkaðsaðgerðum sé átt við vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem séu til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda. Samkvæmt 12. gr. laganna annast Vinnumálastofnun skipulag vinnumarkaðsúrræða en þau skiptast í eftirfarandi flokka:

a. einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni,

b. starfsúrræði, þ.e. starfskynning, starfsþjálfun og reynsluráðning,

c. ráðgjöf samhliða námskeiðsþátttöku og reynsluráðningu,

d. námsúrræði,

e. atvinnutengd endurhæfing, og

f. atvinnutengd endurhæfing einstakra hópa.

Í gögnum málsins liggur fyrir bókunarblað fyrir námskeið hjá B sem fram fór á tímabilinu 13. september til 20. október 2017. Kærandi staðfesti með undirritun sinni á bókunarblaðið að hann myndi mæta á það og fara eftir þeim reglum sem settar eru af Vinnumálastofnun. Á bókunarblaðinu er bent á að það geti valdið missi bótaréttar samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum Vinnumálastofnunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum Vinnumálastofnunar. Með áberandi letri á bókunarblaðinu er ítrekað að mikilvægt sé að atvinnuleitandi uppfylli kröfur um mætingarskyldu á námskeiðið. Þá segir að ef viðkomandi forfallist sé hann beðinn um að hringja í þar til greint símanúmer.

Samkvæmt gögnum málsins mætti kærandi í 8 skipti af 17 á framangreint námskeið og tilkynnti ekki um forföll. Kæranda hefði mátt vera ljóst að mætingarskylda væri á námskeiðið og að honum bæri að tilkynna sérstaklega ef hann forfallaðist, sbr. bókunarblaðið sem kærandi undirritaði. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi verið heimilt að beita kæranda viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006.

Af ákvæði 58. gr. laganna má ráða að ef beitt er viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þá byrjar tveggja mánaða biðtíminn að líða frá þeim degi sem viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðunina með bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu 16. nóvember 2017. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda voru hins vegar stöðvaðar frá og með 16. október 2017. Úrskurðarnefndin tekur fram að Vinnumálastofnun var ekki heimilt að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda fyrr en þann dag er viðurlagaákvörðun var tilkynnt. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2017, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans frá 16. október 2017 er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta