Ný lög um Vísinda- og nýsköpunarráð
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi til nýrra laga um Vísinda- og nýsköpunarráð. Markmið þess er að styrkja langtímastefnumótun í vísinda- og nýsköpunarmálum með heildrænni nálgun á málaflokkinn, skýrari hlutverkum helstu aðila og öflugri sjálfstæðri gagnagreiningu. Ætlunin er einnig að tryggja betri eftirfylgni og aukið samstarf og samhæfingu á milli ráðuneyta.
Frumvarpið er samið í samstarfi forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. Það felur í sér að ný ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun verði lögfest, leidd af ráðherra og að í henni sitji aðeins ráðherrar. Samhliða henni starfi Vísinda- og nýsköpunarráð sem skipað sé af forsætisráðherra til fjögurra ára í senn en í því sitji níu fulltrúar með afburðaþekkingu og reynslu. Ráðið verður því smærra en nú er, skipað til lengri tíma og ekki tengt tilnefningum hagsmunaaðila.