Hoppa yfir valmynd
16. september 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi íslenskrar náttúru 2016

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðarsamkomu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem haldin var í Rafveituheimilinu í Elliðaárdal á Degi íslenskrar náttúru 16. september 2016.

 

Góðir gestir,

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin hingað í Elliðaárdalinn á degi Íslenskrar náttúru.  Verð að segja ykkur að margar unaðsstundir hefur þessi dalur og áin veitt mér. Ein eftirminnilegasta viðureign við lax var í hylnum hérna beint fyrir neðan. Sælustund í minningunni.

Það er sennilega fátt sem hefur mótað okkur - íslensku þjóðina meira en náttúran. Náttúran og litbrigði eða fjölbreytileiki hennar hafði bein áhrif á líf og störf fólksins í landinu, hvort sem það voru sjómenn sem börðust við sjávaröflin og veðurguðina til að færa björg í bú eða bændur sem með þrautseigju ræktuðu tún og ólu búfénað við erfiðar aðstæður þar sem eldgos eða frosthörkur gátu auðveldlega sett strik í reikninginn.

Íslensk náttúra hefur þó ekki aðeins haft áhrif á slíka grunnatvinnuvegi heldur einnig veitt innblástur fyrir hvers kyns listsköpun og afþreyingu á fjölbreyttan hátt. Við sjáum og heyrum henni bregða fyrir í kvikmyndum, myndlist og tónlist nútímans á meðan forfeður okkar styttu sér stundir við alls kyns frásagnir sem sprottnar voru upp úr náttúrunni sem var allt um kring.

Við þekkjum öll frásagnir af huldufólki og tröllum, fossbúum, nykrum, vatnavættum, sjávarverum og öðrum fyrirbærum sem sagt er að búi í íslenskri náttúru. Allt til okkar tíma hefur fólk séð móta fyrir andlitum og furðuverum í stokkum og steinum úfinnar íslenskrar náttúru og sögur af þeim hafa endurómað allt frá baðstofum fyrri tíma til ferðamannahópa nútímans. Fyrir utan skemmtigildi þessara sagna hafa þær gegnt margþættu hlutverki, s.s. að hindra náttúruspjöll og að koma í veg fyrir að börn og fullorðnir færu sér að voða á hættulegum stöðum í náttúrunni.

Þema Dags íslenskrar náttúru 2016 eru einmitt vættir sem búa í og vaka yfir náttúrunni okkar. Hugmyndin er að þeir fái okkur til að skoða náttúruna út frá nýju sjónarhorni um leið og þeir eru okkur hvatning til að vaka yfir landinu og vernda það. Þannig getum við lagt okkar lóð á vogarskálarnar svo að landinu og náttúrunni verði skilað til næstu kynslóða í jafn góðu eða betra ástandi en það var þegar við tókum við því.

Þessi hugsun hefur sjaldan átt betur við en nú, þegar horft er til þess aragrúa erlendu gesta sem nú kjósa að sækja okkur heim.  Eins og góðum gestgjöfum sæmir höfum við tekið á móti þeim með opnum örmum og jafnvel fyllst stolti yfir því hversu náttúran okkar er eftirsóknarverð. En með hverri heimsókninni gerum við okkur betur og betur grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að gæta þess að náttúran beri ekki skaða af. Landvættir nútímans eru því kannski einfaldlega landverðir sem gæta að náttúrunni og leiðbeina gestum um góða umgengni og ferðamáta, eða leiðsögumenn eða þeir fjölmörgu aðrir sem í dag hafa lifibrauð sitt af ferðaþjónustu.

Sem betur fer er fólk í ferðaþjónustu ágætlega meðvitað um mikilvægi þessa. Æ fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustu leggja sig fram um að sinna náttúruvernd og umhverfismálum af natni og leggja jafnvel mikið á sig til að sækja sér vottanir um vistvæna ferðaþjónustu. Í þeim efnum hefur verið mikilvægt að eiga sterkar og góðar fyrirmyndir en hér á eftir mun ég einmitt heiðra einstaklinga sem hafa sannarlega gengið á undan með góðu fordæmi í að gæta að umhverfinu og náttúrunni um leið og þeir taka á móti og þjónusta ferðafólk.

Ferðaþjónustan er þó ekki ein um að bera ábyrgð í þessu sambandi. Stjórnvöld koma einnig að því að skapa góða umgjörð  og nauðsynlega innviði á fjölsóttum ferðamannastöðum. Má nefna að í ráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á landsáætlun um ferðamannastaði og uppbyggingu þeirra. Þannig er lögð áhersla á langtímahugsun varðandi uppbyggingu á viðkvæmum stöðum, með það markmið að öðlast yfirsýn og hagkvæmni með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.

Verkefni okkar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eru af margvíslegum toga og því margslungin.Við höfum verið að kljást við svonefnda rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar er gerð tilraun til að setja niður áratuga langar deilur þjóðarinnar um hvar á að virkja og hvar á að vernda. Í rammaáætlun takast einmitt á ólík sjónarmið um annars vegar náttúruvernd og hins vegar öflun sjálfbærrar orku, sem er algert lykilatriði þegar kemur að því að takast á við eina stærstu áskorun samtímans, loftslagsbreytingar.

Í apríl síðastliðnum skrifaði ég fyrir hönd Íslands undir Parísarsáttmálann, sem er metnaðarfyllsta samkomulag sem þjóðir heims hafa gert með sér í loftslagsmálum. Annar stór áfangi náðist á dögunum þegar utanríkisráðherra mælti fyrir fullgildingu sáttmálans á Alþingi. Er því allt útlit fyrir að Ísland verði í hópi fyrstu 55 þjóðanna til að fullgilda samninginn.

Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna – Parísarsáttmálinn – er gott dæmi um hvernig tekist er á við stórar áskoranir í umhverfismálum með lausnum sem allur heimurinn á hlutdeild í. Það er þó ekki síður mikilvægt að takast á við slíkar áskoranir í hinu minna samhengi – inni á heimilunum, í fyrirtækjum og úti í samfélaginu. Einkaneysla og innkaupavenjur spila lykilhlutverk í því hvernig umhverfinu og auðlindum okkar reiðir af.

Í mínu starfi sem umhverfis- og auðlindaráðherra hef ég lagt sérstaka áherslu á að finna leiðir til að takast á við matarsóun. Einnig er nauðsynlegt að takast á við plastið – hvernig getum við öll minnkað plastnotkun hjá okkur? Sem fyrrum kaupmaður er ég ánægð að hafa skrifað undir samning við Samtök verslunar og þjónustu með það að markmiði að draga verulega úr notkun burðarpoka úr plasti hér á landi.

Ágætu gestir,

Það er ljóst að verkefnin í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eru mörg og fjölbreytt, bæði stór og smá. Hér hef ég aðeins stiklað á örfáum þeirra, en svo sannarlega eru þau miklu mun fleiri. Þau eru allt í kring um okkur og koma við daglegt líf okkar og athafnir ekki síður en samvinna ríkja á alþjóðavísu.

Umhverfismálin eru þannig stöðugt að verða meira áberandi á allan hátt. Umfjöllun fjölmiðla á umhverfinu og náttúrunni endurspeglar áhuga á þessum málaflokkum sem og auknu vægi þeirra. Það er enda mikilvægt að fjölmiðlar séu vakandi yfir því sem er að gerast á þessu sviði og upplýsi almenning og vekji athygli á bæði því sem vel er gert en einnig því sem betur má fara.

Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hér í dag er einmitt ætlað að hvetja til umfjöllunar um íslenska náttúru, en þau verða hér veitt á eftir í sjötta sinn.

Góðir gestir,

Í upphafi sagði ég frá laxveiði hér í dalnum en Elliðaárdalurinn býr yfir mörgum sögum um vætti náttúrunnar, enda stundum kallaður Dalur vættana.

Megi Dagur íslenskrar náttúru verða okkur öllum gleðiríkur og jákvæð áminning um þann fjölbreytta fjársjóð sem náttúra Íslands er. Um leið vona ég að dagurinn verði okkur hvatning til góðra verka varðandi náttúru landsin og varðveislu fyrir komandi kynslóðir.

Innilega til hamingju með daginn. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta