Hoppa yfir valmynd
11. maí 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Forstöðumannafundur á fyrsta degi

Heilbrigðisráðherra boðaði forstöðumenn heilbrigðisstofnana til fundar í dag og greindi þeim frá áformum ríkisstjórnarinnar.

- Nú er ég ekki lengur bráðabirgðamaður, heldur ráðherra með fullt umboð, og því er það mér mikil ánægja að geta efnt til samræðna og samráðs við ykkur á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar. Þetta sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, þegar hann ávarpaði fund forstöðumanna allra heilbrigðisstofnana í dag. Ráðherra boðaði til fundarins til að greina frá og útskýra samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar milliliðalaust og svara spurningum um það sem óljóst er í sáttmálanum.

Ráðherra fór á fundinum í upphafi yfir velferðarkafla samstarfssamnings ríkisstjórnarflokkanna og gerði nánari grein fyrir grundvelli þess sem þar kemur fram. Hann tók fram að það væri ætlun ríkisstjórnarinnar að byggja upp á Íslandi velferðarþjónustu að norrænni fyrirmynd almennt og að einmitt í því ljósi bæri að túlka þá þætti velferðarstefnunnar sem fjallað væri um sérstaklega í samstarfssáttmálanum.

Aðspurður sagði ráðherra að fundinn sjálfan bæri að skoða í ljósi þess sem hann legði mikla áherslu á, að skapa vettvang fyrir samráð og samræður um þau gríðarlegu erfiðu verkefni sem framundan væru. – Ég vil líta svo á að við séum öll samherjar sem viljum standa vörð um íslenska velferðarkerfið, sagði Ögmundur Jónasson, vinarklær Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má sjá í samstarfssáttmálanum og ástæða til að skilgreina faðmlag hans rétt, en hins vegar þurfum við að átta okkur á að öll kerfi og samskipti má endurskoða þótt það sé mál annars eðlis.

Heilbrigðisráðherra sagði að stofnanakerfið mætti endurskoða, vinnuferla og verkferla innan heilbrigðisþjónustunnar, en það væri hins vegar ekki eftirsóknarvert og í ofanálag gagnslaust að gera það með boðvaldi að ofan. Það gerðist ekki nema með samráði við starfsmenn. – Af gólfinu og upp, þannig gerum við það, sagði ráðherra, og lagði á það mikla áherslu að hugsa heilbrigðisþjónustuna í því samfélagslega samhengi sem hún er sprottin úr og sem hún er hluti af.

Ráðherra var spurður um heilsutengda heilbrigðisþjónustu sem kemur fyrir í samstarfssáttmálanum. Hann greindi frá því að þennan þátt sáttmálans bæri að skilja sem stuðning við þá almennu þjónustu sem nú þegar er veitt á þessu sviði. Hér væri alls ekki verið að víkja frá þeirri meginreglu norræna velferðarkerfisins að líta á heilbrigðisþjónustuna sem veigamestu félagslegu stoð velferðarþjónustunnar og hér væri alls ekki verið að skilgreina íslensku heilbrigðisþjónustuna inn á viðskiptatorg hins frjálsa markaðar.

Miklar og gagnlegar umræður urðu milli ráðherra og forstöðumanna heilbrigðisstofnananna, sem fögnuðu því að fá tækifæri til að ræða málin við ráðherra á fyrsta starfsdegi nýrrar ríkisstjórnar. Umræður spunnust til dæmis um bakvaktir, öryggismál sjúklinga og viðbúnaðaráætlanir heilbrigðisstofnana og var sett fram ósk um að samræma öryggismál og viðbúnað á stofnunum. Var af þessu tilefni ákveðið að setja niður starfshóp sem færi sérstaklega ofan í mál þessu tengd. Á fundinum kom fram sú eindregna skoðun forstöðumanna heilbrigðisstofnananna að því fyrr sem fjárhagsrammar stofnananna lægju fyrir þeim mun árangursríkari yrðu þær aðgerðir á árinu, sem allir vissu að yrði að grípa til.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta