Fengu viðurkenningu fyrir stafræn skref á Tengjum ríkið
Fjársýsla ríkisins, ríkislögreglustjóri og sýslumenn fengu sérstaka viðurkenningu sem kallast stafræn skref á ráðstefnunni Tengjum ríkið á dögunum.
Viðurkenning fyrir stafræn skref var veitt í fyrsta skipti á ráðstefnunni í ár fyrir samstarf stofnana við Stafrænt Ísland í átt að aukinni stafvæðingu. Skilgreind hafa verið níu stafræn skref: Stafrænt pósthólf, Innskráning fyrir alla, Umsóknarkerfi Ísland.is, Mínar síður Ísland.is, Vefsíða á Ísland.is, Spjallmennið Askur, Ísland.is appið, Straumurinn og Þjónustuvefur á Ísland.is. Búast má við að stafrænu skrefin þróist á næstu árum í takti við aukna stafvæðingu.
Mikill áhugi á Tengjum ríkið
Mikil þátttaka var á Tengjum ríkið ráðstefnunni í ár en þetta er í þriðja sinn sem ráðstefnan er haldin. Hátt í 400 manns lögðu leið sína í Hörpu og mikill fjöldi fylgdist með í streymi. Öll erindin hafa verið gerð aðgengileg á Ísland.is.
Stafrænt Ísland, eining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, stendur að ráðstefnunni en umfjöllunarefni hennar er stafræn þróun hins opinbera og er markmiðið m.a. að stuðla að samtali milli stofnana og einkageirans um stafræna þjónustu, ýta undir nýsköpun og auka þekkingu og fróðleik.