Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 68/2003

Þriðjudaginn, 31. ágúst 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. september 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 10. júlí 2003 um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Lýsing á kæruefni:

Samkvæmt bréfi dagsettu 10. júlí 2003, synjaði Tryggingastofnun ríkisins mér um fæðingarstyrk námsmanna á þeim forsendum að ég væri sjúkratryggður í B-landi og að undanþága frá búsetuskilyrði væru ekki fyrir hendi þar sem nám mitt hefst ekki fyrr en ári eftir að ég flyt til B-lands. Ég tel að undanþáguskilyrði séu fyrir hendi og þess vegna kæri ég þennan úrskurð.

Rökstuðningur fyrir kæru:

Ég flutti til B-lands ásamt sambýliskonu minni D og dóttur okkar þá 4 ára í ágúst 2001. Ástæða þess að við fluttum var sú að sambýliskona mín var á leiðinni í nám við E-háskóla. Ég hafði einnig hugsað mér að fara í nám en ákvað að fresta því um eitt ár þar sem dóttir okkar fékk ekki leikskólapláss fyrr en 3 mánuðum eftir að við skráðum okkur inn í landið og var það þess vegna ómögulegt fyrir mig að hefja nám strax og ég kom til B-lands... Ég get ekki séð annað en að ég uppfylli skilyrði sem sett eru með reglugerðinni og sendi með gögn því til staðfestingar.“

 

Með bréfi, dags. 16. mars 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. mars 2004. Í greinargerðinni segir:

Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Kærandi, sem hefur skv. þjóðskrá Hagstofu Íslands verið með lögheimili í B-landi frá 15. ágúst 2001, sótti með umsókn, dags. 3. apríl 2003, um fæðingarstyrk námsmanna frá 1. maí 2003. Umsókn hans var vegna barns, sem fætt er 1. júní 2003, en væntanlegur fæðingardagur þess var 22. maí 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er það að jafnaði skilyrði fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 909/2000, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Í hinu svonefnda undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar segir í 1. mgr. að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir lögheimilisskilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Í 2. mgr. er sett það skilyrði að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar barns í því ríki. Þá er í 3. mgr. kveðið á um að ef fyrir hendi sé réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem sé lakari en sá réttur sem námsmaður eigi rétt á hér á landi sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr., að greiða mismun sem því nemur.

Í 9. gr. a laga um almannatryggingar nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 59/1998, er kveðið á um að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum og að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. c almannatryggingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 74/2002, er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda dveljist hann erlendis vegna náms og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka hans sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast. Í 9. gr. d almannatryggingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 59/1998, segir að ráðherra setji reglugerð um einstök atriði varðandi framkvæmd ákvæðanna, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999 er að finna svohljóðandi skilgreiningu á því hver sé námsmaður: „Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum“. Þessi skilgreining á því hver geti notið réttinda sem námsmaður og það skilyrði að viðkomandi einstaklingur sé ekki launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur er í samræmi við þá meginreglu 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, að einstaklingur sé tryggður í því landi sem hann er ráðinn til starfa í.

Kæranda var með bréfi, dags. 10. júlí 2003, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að hann væri sjúkratryggður í B-landi frá 21. ágúst 2001, auk þess sem hann félli ekki undir undanþágu frá búsetuskilyrði fyrir foreldri sem hafa flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms þar sem nám hans hófst ekki fyrr en u.þ.b. ári eftir lögheimilisflutninginn.

Þegar umsókn kæranda var afgreidd 10. júlí 2003 hafði ekki verið framvísað yfirlýsingu um að hann ætti ekki rétt á greiðslum vegna barnsfæðingarinnar í B-landi. Hins vegar hafði á bakhlið annarrar blaðsíðu umsóknarinnar verið rituð sú athugasemd að erlendir námsmenn í B-landi hefðu engan rétt til greiðslna í fæðingarorlofi. Undantekning væru þeir sem hefðu unnið í landinu í 2 ár áður en nám hófst og hefðu því rétt á námsstyrk. Og enn fremur að starfmaður sveitarfélagsins hefði viljað meina að þetta ættu starfsmenn tryggingastofnunar að vita og viti og því hefði hann ekki viljað ómaka sig til að útbúa staðfestingarskjal á réttindaleysi kæranda til greiðslna í fæðingarorlofi.

Eins og fyrr greinir er í 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sett það skilyrði fyrir því að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk, sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms, að framvísað sé yfirlýsingu frá almannatryggingum í búsetulandinu um að þar sé ekki réttur á greiðslum í fæðingarorlofi eða að um lægri rétt sé að ræða. Ástæðan fyrir því að kveðið er á um þetta skilyrði í ákvæðinu og nauðsynlegt er að slík staðfesting berist er sú að þó sótt sé um greiðslur á grundvelli þess að umsækjandi sé í námi og ekki sé um að ræða greiðslur í fæðingarorlofi til námsmanna í B-landi þá útilokar það ekki sjálfkrafa að viðkomandi eigi rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í B-landi. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar er það skilyrði fyrir því að fá greiðslur í fæðingarorlofi í B-landi að foreldri hafi unnið a.m.k. 120 tíma á síðustu 13 vikum.

Kærandi lagði engar upplýsingar fram um að hann hafði verið á vinnumarkaði í B-landi frá þeim tíma sem hann flutti þangað og þar til hann hóf þar nám í ágúst 2002. Samkvæmt upplýsingum í skattframtali kæranda 2003 var hann með tekjur erlendis á árinu 2002. Þar sem kærandi var við störf erlendis árið 2002 er ekki unnt að fallast á að hann uppfylli það skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 varðandi undanþágu frá hinu almenna lögheimilisskilyrði 12. gr. reglugerðarinnar, að hann hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, þó svo að maki hans hafi stundað nám í B-landi allan þann tíma sem þau hafa átt lögheimili þar.

Auk framangreinds liggja ekki fyrir í máli þessu neinar upplýsingar um námsframvindu kæranda, sbr. áðurnefnd ákvæði 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Kærandi hefur lagt fram skólavottorð, dags. 7. apríl 2003, þar sem fram kemur að hann hafi stundað nám í F-háskóla í E-borg námsárið 2002 til 2003. Nám hans hafi hafist 12. ágúst 2002 og sé ætlunin að hann ljúki því í júní 2003. Vottorð þetta veitir engar upplýsingar um einingafjölda námsins, heldur einungis um fjölda vikulegra kennslustunda.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks, þar sem hann var tryggður í B-landi við upphaf náms, auk þess sem undanþáguákvæði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2003 átti ekki við í hans tilviki og hann lagði ekki fram tilskilin gögn um námsframvindu sína.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. apríl 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála óskaði eftir því með bréfi dags. 23. júní 2004 að kærandi veitti upplýsingar um nám sitt í B-landi, hvenær sótt hafi verið um inngöngu, uppbyggingu námsins svo og námsframvindu. Nefndin ítrekaði beiðni sína með tölvupósti þann 16. ágúst 2004. Þar sem engin viðbrögð fengust frá kæranda vegna fyrirspurnar nefndarinnar er málið afgreitt á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. Í 2. mgr. 19. gr. segir að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá segir að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. reglugerð 915/2000, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Um lögheimilisskilyrði 18. og 19. gr. ffl. er nánar fjallað í 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 og um undanþágur frá lögheimilisskilyrði í 13. gr. sömu reglugerðar. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur litið svo á að ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði gildi um foreldri sem flutt hefur lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms maka. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands í ágúst 2001 vegna náms maka. Kærandi hóf sjálfur nám við F-háskóla í E-borg 12. ágúst 2002. 

Kærandi hefur lagt fram skólavottorð dags. 7. apríl 2003 þar sem fram kemur að hann hafi verið skráður í nám við F-háskóla í E-borg námsárið 2002 til 2003. Einnig kemur fram að hann hafi hafið námið 12. ágúst 2002 og ætluð námslok séu í júní 2003. Engar upplýsingar eru um einingafjölda námsins. Þá hafa ekki fengist upplýsingar um námsframvindu og námsárangur kæranda. Með hliðsjón af því er ekki sýnt fram á að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 19. ffl. um fullt nám, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta