Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2021 Innviðaráðuneytið

Stýrihópur um byggðamál heimsótti Austurland

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál, oftast kölluð sóknarnefndin, í heimsókn í Neskaupstað og með Hellisfjarðarmúla í baksýn, en Múlinn samvinnuhús heitir eftir fjallinu. - mynd

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fundar árlega með hverjum landshlutasamtökum sveitarfélaga um framgang sóknaráætlunar landshlutans. Stýrihópurinn, sem í daglegu tali er gjarnan nefndur „sóknarnefndin“, heimsækir í ár Austurland og Vesturland en heldur fjarfundi með hinum sex landshlutunum.

Fyrsti fundurinn var haldinn með Austfirðingum á mánudaginn í Neskaupstað. Þar komu saman fulltrúar frá átta ráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun. Á móti hópnum tóku framkvæmdastjóri og yfirverkefnastjórar Austurbrúar en með þeim voru einnig formaður og varaformaður Austurbrúar/Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Á fundinum var meðal annars farið yfir Sóknaráætlun Austurlands, vinnulag við Uppbyggingarsjóð Austurlands og nokkur áhersluverkefni kynnt, þar með talið svæðisskipulag Austurlands. Þá var rætt um hversu treglega gengur fyrir einstaklinga og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja um og fá opinbera landsdekkandi styrki, ekki síst hjá Rannís og rætt um reiknireglu framlaga til sóknaráætlana svo eitthvað sé nefnt.

Fundurinn var haldinn í Múlanum, samvinnuhúsi í Neskaupstað, sem er nýuppgert og að hluta til nýtt glæsilegt hús sem hýsir margvíslega starfsemi, meðal annars eina af starfstöðvum Austurbrúar. Gestunum að sunnan var kynnt starfsemi Náttúrustofu Austurlands og alþjóðlega fyrirtækisins Nox Health en hvort tveggja hefur bækistöðvar í Múlanum. Loks heimsótti hópurinn fyrirtækið Tandrabretti ehf. í Neskaupstað og fræddist um starfsemi þess, en fyrirtækið hefur hlotið styrk úr uppbyggingarsjóði Austurlands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta