Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Styrkur til uppbyggingar og atvinnusköpunar í Búrkína Fasó

Haraldur Pálsson, stofnandi Áveitunnar ehf. og Ágústa Gísladóttir, deildarstjóri á alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, við undirritun samningsins. - mynd

Utanríkisráðuneytið hefur veitt fyrirtækinu Áveitunni ehf. tæplega þrjátíu milljóna króna styrk til uppbyggingar og atvinnusköpunar í Búrkína Fasó. Styrkurinn er veittur úr Samstarfssjóði við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Verkefnið miðar að uppbyggingu og atvinnusköpun á landsvæði sem ABC barnahjálp hefur til umráða í borginni Bobo-Dioulasso í vesturhluta Búrkína Fasó. Uppbyggingin felur meðal annars í sér aðgengi að vatni, ræktarlandi og byggingu íbúðarhúsnæðis.

Til stendur að bora eftir vatni og reisa vatnsturna á landsvæðinu og þá verða einnig settar upp sólarsellur sem tengjast vatnsdælum í þeim tilgangi að tryggja rafmagn og sjálfbærni vatnsflæðis. Enn fremur verður landið stikað og skipt upp fyrir ræktun mismunandi afurða, til að mynda fyrir maís, baunir, grænmeti, ávexti og hnetur. Stefnt er að því að rækta matvæli allt árið og til þess þarf að leggja vatnskerfi um svæðið. Auk þess verða byggð einföld raðhús fyrir flóttafólk og verður hverri fjölskyldu úthlutaður skiki af landinu til þess að rækta mat fyrir heimilið. Þá verður reistur múr umhverfis landið til þess að vernda það frá ágangi skepna sem ganga frjálsar.

Markmið verkefnisins er enn fremur að hluti af þeim mat sem ræktaður verður á landinu verði nýttur í skóla ABC barnahjálpar í Bobo-Dioulasso. Auk þess er áætlað að þeir foreldrar barna í skólanum sem koma munu að ræktuninni, ásamt þeim fjölskyldum sem búa munu á landinu, geti selt hluta af ræktuninni og þar með aflað sér tekna.

Áætluð verklok eru í lok árs 2023.

  • Styrkur til uppbyggingar og atvinnusköpunar í Búrkína Fasó - mynd úr myndasafni númer 1
  • Styrkur til uppbyggingar og atvinnusköpunar í Búrkína Fasó - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 8 Góð atvinna og hagvöxtur
Heimsmarkmið Sþ: 2 Ekkert hungur
Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta