Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 502/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 502/2019

Miðvikudaginn 8. júlí 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. september 2019 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá 1. ágúst 2019 og sérstakrar uppbótar frá 1. október 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. september 2019, var kæranda tilkynnt um stöðvun á greiðslu heimilisuppbótar frá 1. október 2019 á þeim forsendum að hún búi ekki á skráðu lögheimili. Þá var kærandi upplýst um að mynduð yrði krafa frá 1. ágúst 2019 ef engin gögn/andmæli bærust. Með bréfi, dagsettu sama dag, var kæranda jafnframt tilkynnt um að sérstök uppbót vegna framfærslu yrði stöðvuð frá 1. október 2017 sökum dvalar hennar í B ef engin gögn/andmæli bærust. Við stöðvunina yrði bótaréttur endurreiknaður og við það myndist krafa.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 2. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 19. desember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. desember 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærð sé skerðing Tryggingastofnunar og krafa um endurgreiðslu á tryggingabótum vegna áranna 2017 til 2019. Í kæru segir að í bréfi stofnunarinnar hafi verið fullyrt að kærandi sé markvisst að svíkja út greiðslur og að hún sé ekki búsett á Íslandi. Staðreyndin sé að fyrir rúmum X árum hafi hún fengið sambærilegar ásakanir frá Tryggingastofnun og hafi þá mætt á fund og gert grein fyrir misskilningi um búsetu hennar. Á þeim fundi hafi það verið að frumkvæði starfsmanna að hún ætti rétt á frekari bótum, þ.e. heimilisuppbót, sem henni sýnist að sé nú ástæða þess að hún sé sökuð um misnotkun.

Kærandi sé búsett á Íslandi. Hún hafi meðal annars fest kaup á íbúð á C […] hafi hún ekki getað búið í henni á meðan endurbætur hafi farið fram. Kærandi hafi því verið upp á X og X komin og hafi að mestu verið í D og á E. Eins og fram hafi komið á umræddum fundi fyrir rúmum X árum hafi kærandi áður verið X í B og eigi þar fjölskyldu sem hún reyni að dvelja hjá hluta ársins.

Kærandi sé mikill sjúklingur, meðal annars með nánast ónýtt stoðkerfi, og sé stundum ófær um að ferðast vegna verkja. Af þeim sökum hafi hún þurft að leita lækninga, bæði hér heima og í B. Það sé erfitt að vera háður opinbera tryggingakerfinu þegar maður hafi ekki annað val um lifibrauð.

Kærandi hafi ekki beðið um heimilisuppbót og þyki því afar ósanngjarnt að hún eigi að gjalda fyrir afglöp starfsmanna Tryggingastofnunar, í versta falli sé hægt að taka þessa uppbót af henni framvegis.

Á umræddum fundi hafi vinkona kæranda verið með henni og geti hún borið vitni um það sem þar hafi farið fram. Hún sé jafnframt ein af þeim vinum sem hafi veitt henni húsaskjól í erfiðum aðstæðum.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun heimilisuppbótar og sérstakrar uppbótar.

Málavextir séu þeir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. september 2019, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. október 2019 vegna búsetu hennar erlendis. Í bréfinu hafi komið fram að ef engin andmæli bærust yrði krafa mynduð frá 1. ágúst 2019. Þá hafi kæranda einnig verið tilkynnt í öðru bréfi, dags. 23. september 2019, að vegna búsetu hennar erlendis yrði greiðsla sérstakrar uppbótar stöðvuð frá 1. október 2017 ef engin andmæli bærust.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleypings sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1052/2009 ásamt reglugerðarbreytingum.

Í 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að greiða örorkulífeyrisþega sem fái greitt samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og endurhæfingarlífeyrisþega sem fái greitt samkvæmt 7. gr. laganna sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess.

Kærandi hafi sótt um greiðslu heimilisuppbótar með umsókn, dags. 2. ágúst 2019, sem hafi verið afgreidd frá 1. ágúst 2019, eða frá sama tíma og greiðsla ellilífeyris hófst. Kærandi hafi áður fengið greidda heimilisuppbót en þær greiðslur hafi verið stöðvaðar frá og með 1. janúar 2019 þar sem kærandi hafi ekki verið einhleyp. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé kærandi með stöðuna „Hjón ekki [í] samvistum“ og sé því ekki einhleyp eins og sé eitt skilyrði þess að eiga rétt á heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun.

Með bréfi, dags. 23. september 2019, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. október 2019 vegna búsetu erlendis og fram hafi komið í bréfinu að ef engin andmæli bærust yrði krafa mynduð frá 1. ágúst 2019.

Í málinu liggi fyrir að kærandi sé gift en ekki í samvistum við maka sinn. Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. að um giftan einstakling sé að ræða, séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu heimilisuppbótar af þeim sökum. Tryggingastofnun standi því við stöðvun greiðslna frá 1. október 2019 en hafi ákveðið að endurkrefja hana ekki um greiðslur frá 1. ágúst 2019. […]. Fram að þeim tíma hafði kærandi fengið greidda sérstaka uppbót vegna framfærslu. Með bréfi, dags. 23. september 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að ef engin andmæli bærust myndi sérstaka uppbótin verða endurkrafin frá 1. október 2017 vegna búsetu hennar erlendis. Við skoðun á málinu hafi Tryggingastofnun ákveðið að endurkrefja kæranda ekki um greiðslu sérstakrar uppbótar aftur í tímann og óski því eftir frávísun þess hluta kærunnar.

Tryggingastofnun sé ekki heimilt lögum samkvæmt að greiða kæranda heimilisuppbót. Engin heimild sé í lögum að líta fram hjá því skilyrði að vera einhleypingur til að geta átt rétt á heimilisuppbót. Stöðvun heimilisuppbótar til kæranda standi því óbreytt, en Tryggingastofnun muni ekki endurkrefja kæranda um þá heimilisuppbót sem þegar hafi verið greidd. Þá hafi Tryggingastofnun fallið frá því að endurkrefja kæranda um þá sérstöku uppbót sem þegar hefur verið greidd.

IV. Niðurstaða

Með bréfum, dags. 23. september 2019, var kæranda tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. október 2019 og fyrirhugaða stofnun á endurkröfum vegna ofgreiddrar heimilisuppbótar og sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ákveðið að endurkrefja kæranda ekki um greiðslur heimilisuppbótar og sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Ágreiningur málsins varðar því einungis ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá 1. október 2019.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.

Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er sú að um sé að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né í hjónabandi. Samkvæmt gögnum málsins er hjúskaparstaða kæranda í Þjóðskrá skráð sem „Hjón ekki í samvistum“ og kærandi hefur ekki andmælt því.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi sé ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð og hún uppfylli því ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt ákvæðinu. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá 1. október 2019 er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta