Nr. 270/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 270/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18030020
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. mars 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. febrúar 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. apríl 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 17. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 23. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 14. mars 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 27. mars 2018.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna deilna við fyrrum samstarfsmann sinn sem komi úr stórri og valdamikilli fjölskyldu. Þá verði hann einnig fyrir mismunun í heimaríki vegna [...] uppruna síns af hálfu yfirvalda sem og samfélagsins í heild.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé fæddur og uppalinn í [...] en af [...] uppruna. Foreldrar kæranda séu flóttafólk frá [...] og tilheyri hann minnihlutahópi í [...] vegna uppruna síns. Kærandi kveðst hafa flúið heimaríki sitt vegna mismununar sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki á grundvelli uppruna síns. Þá óttist hann einnig mann af [...] uppruna sem hann hafi átt í viðskiptasambandi við. Kærandi geti ekki leitað til lögreglu vegna vandamála sinna þar sem fjölskylda mannsins hafi tengsl við yfirvöld auk þess sem lögregluyfirvöld muni ekki aðstoða hann vegna uppruna hans. Í greinargerð lýsir kærandi þeirri mismunun sem hann verði fyrir í heimaríki og kemur m.a. fram að hann hafi upplifað mikla fordóma frá [...] fjölskyldum sem hafi búið í nágrenni við hann og fjölskyldu hans. Þá hafi hann flutt um tíma til [...] þar sem ástandið hafi verið skárra en hann hafi engu að síður orðið fyrir fordómum og kynþáttarhatri þar í landi. Kærandi hafi snúið aftur til heimaríkis fyrir átta árum síðan til að hefja háskólanám. Kærandi hafi þurft að hefja nám í einkaskóla þar sem einstaklingar af [...] uppruna hafi ekki aðgengi að ríkisreknum háskólum. Einnig megi hann ekki ganga í [...] herinn né sinna störfum fyrir hann eða aðrar opinberar stofnanir uppruna síns vegna. Kærandi hafi leitað til lögreglu vegna aðkasts sem hann hafi orðið fyrir en lögregluyfirvöld hafi ekki viljað aðstoða hann. Fordómar af hálfu yfirvalda og lögreglu tíðkist í [...] gagnvart einstaklingum af [...] uppruna, hafi hann m.a. verið stöðvaður af lögreglu og bifreið hans gerð upptæk án nokkurra skýringa og hafi kærandi þurft að greiða lögreglunni fyrir vörslu bifreiðarinnar. Þá hafi einstaklingar af sama uppruna og kærandi ekki sama aðgengi að heilbrigðiskerfinu og [...]. Sem dæmi nefnir kærandi að föður hans hafi verið vísað frá ríkisreknu sjúkrahúsi uppruna síns vegna. Kærandi greindi einnig frá útistöðum sem hann hafi átt í við fyrrum viðskiptafélaga sinn af [...] uppruna. Maðurinn hafi stolið fjármunum af kæranda og í kjölfarið hafi brotist út slagsmál þeirra á milli þegar kærandi hafi farið að vitja fjármunanna. Í kjölfarið hafi maðurinn hafið hefndaraðgerðir gegn kæranda, m.a. hafi hann mætt fyrir utan skóla kæranda ásamt hópi fólks í því skyni að ganga í skrokk á honum. Einnig hafi hann skotið á líkamsræktarstöð sem hafi verið í eigu kæranda og kveikt í búslóð í hans eigu. Maðurinn sé með góð tengsl við lögregluyfirvöld og komi frá stórri og þekktri fjölskyldu í heimaríki kæranda. Kærandi hafi því séð sig nauðbeygðan til að flýja land vegna átaka við manninn og framangreindrar mismununar. Kærandi óttist um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá hafi kærandi aðspurður greint frá því að hann geti ekki búið annarsstaðar í ríkinu þar sem einstaklingum af [...] uppruna sé mismunað allsstaðar í ríkinu. Þá sé fjölskylda mannsins sem kærandi eigi í erjum við valdamikil í landinu öllu.
Í greinargerð kæranda er fjallað um stöðu mannréttindamála í [...]. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttindamála komi fram að meðal alvarlegustu mannréttindabrota landsins séu skortur á réttindum borgaranna til að kjósa sér stjórnvöld, verulegar skorður á tjáningarfrelsi og hafi öryggisfulltrúar og aðrir embættismenn verið ásakaðir um pyndingar og illa meðferð. Þá sé félaga- og fundafrelsi takmarkað, aðstæður í fangelsum slæmar, handahófskenndar handtökur tíðkist sem og skortur á réttlátri málsmeðferð. Þá tíðkist langvarandi gæsluvarðhald, frændhygli við opinberar stöðuveitingar auk þess sem sérhagsmunir hafi áhrif á dómstóla. Enn fremur komi fram að lagaleg og samfélagsleg mismunun gegn einstaklingum af [...] uppruna sé útbreitt vandamál í [...]. Heimildir beri einnig með sér að refsileysi embættismanna sé útbreitt. Stjórnvöld hafi í upphafi ársins 2016 sett sér mannréttindamarkmið til næstu tíu ára sem m.a. feli í sér að efla lagalega vernd gegn pyndingum og aukna saksókn og refsiaðgerðir í slíkum málum. Hins vegar sé óljóst hvort einhverjar umbætur hafi átt sér stað. Í skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International frá árinu 2017 komi m.a. fram að refsileysi sé útbreitt og í skýrslu LandInfo komi fram að spilling sé alvarlegt vandamál í ríkinu. Kærandi fjallar í greinargerð sinni einnig um stöðu einstaklinga af [...] uppruna í [...]. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins komi fram að fjórir hópar einstaklinga af framangreindum uppruna búi í [...] og verði þeir fyrir mismunun af hendi stjórnvalda. Einstaklingar af [...] uppruna skorti fulltrúa á öllum stigum stjórnsýslunnar og í hernum. Þá komi fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis frá desember 2017 að nefndin hafi miklar áhyggjur af áframhaldandi mismunun og takmörkunum sem [...] ríkisborgarar af [...] uppruna þurfi að þola varðandi aðgengi að húsnæði, atvinnu, menntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Nefndin hafi hvatt [...] yfirvöld til að útrýma framangreindri mismunun. Í skýrslu samtakanna Human Rights Watch komi fram að meirihluti [...] einstaklinga í [...], að undanskildum einstaklingum frá [...], séu með [...] ríkisfang en að frá árinu [...] hafi [...] yfirvöld svipt [...] ríkisfangi sínu af geðþótta og án rökstuðnings. Þannig standi hundruð þúsunda frammi fyrir því að eiga á hættu að vera sviptir ríkisnúmeri sínu og þar með ríkisfangi. Þá hafi svipting ríkisborgararéttar fjölskylduföður í för með sér að börn hans missi einnig ríkisfang sitt óháð aldri þeirra og fæðingarstað. Ekki sé unnt að áfrýja ríkisfangssviptingu eða fá hana endurskoðaða. Í skýrslu LandInfo komi fram að dregið hafi úr framkvæmd slíkra sviptinga undanfarin ár en ekkert gefi til kynna að þeim hafi verið alfarið hætt. Svipting ríkisfangs hafi í för með sér sviptingu á borgaralegum réttindum og grundvallarmannréttindum þeirra sem fyrir henni verði. Þá leiði ríkisfangsleysið enn fremur til þess að erfiðara sé fyrir einstaklinga að ferðast frá [...] og hækkunar opinberra gjalda. Ríkisfangslausir einstaklingar geti hvorki skráð sig fyrir fasteign eða lausafé auk þess sem réttur til félagslegrar aðstoðar sé skertur.
Kærandi byggir á því að hann sé þolandi ofsókna á grundvelli þjóðernis og vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi vegna þeirrar mismununar sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki. Kærandi sé í hættu á að verða sviptur ríkisfangi sínu snúi hann aftur til [...]. Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna framangreindra ofsókna og þess að grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. telst flóttamaður m.a. sá sem er utan heimaríkis síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Rekja megi ástæður flótta kæranda til kerfisbundinnar mismununar sem hann hafi orðið fyrir vegna [...] uppruna síns. Þá eigi hann jafnframt á hættu að vera sviptur ríkisfangi sínu af handahófi. Þá óttist hann enn fremur um líf sitt vegna deilna við [...] mann sem hann hafi átt í viðskiptasambandi við. Kærandi geti ekki leitað til lögreglu vegna vandamála sinna þar sem þau aðstoði hann ekki vegna uppruna hans. Kærandi vísar kröfu sinni til stuðnings til Flóttamannasamningsins, laga um útlendinga, athugasemdum með frumvarpi til laganna og alþjóðalaga.
Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu máli sínu til stuðnings. Vegna þeirra atvika sem kærandi hafi lýst eigi hann í raunverulegri hættu á alvarlegum skaða verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis auk þess sem hann eigi ekki raunhæfan möguleika á að leita verndar hjá yfirvöldum. Þá myndi endursending kæranda til heimaríkis brjóta meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. MSE 7. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu megi veita útlendingi slíkt dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða, m.a. vegna heilbrigðisástæðna eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga þar sem fram komi að m.a. skuli líta til þess hvort grundvallarmannréttindi séu tryggð í ríkinu sem senda eigi útlending til. Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sem dæmi séu nefnd viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Sú staða sé uppi hjá [...] í [...] og eigi þeir m.a. á hættu að verða sviptir ríkisfangi sínu og þar með borgaralegum réttindum og grundvallarmannréttindum. Kærandi hafi lýst mismunun í sinn garð vegna uppruna sem og öðrum vandamálum sem hann standi frammi fyrir í heimaríki. Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi fjallar í greinargerð um möguleika á flutningi innanlands, sbr. 4. mgr. 37. gr. útlendinga. Við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum og aðstæðum í ríkinu. Meta verði hvort sanngjarnt sé að ætlast til þess að viðkomandi setjist að á svæði sem talið sé öruggt. Í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingur sé berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað og þurfi við það mat m.a. að skoða fyrri sögu um ofsóknir og hvort grundvallarmannréttindi viðkomandi séu virt í landinu. Kærandi vísar til athugasemda með 4. mgr. 37. gr. útlendingalaga máli sínu til stuðnings. Kærandi bendir m.a. á að umsókn um alþjóðlega vernd þurfi ekki að vera lokaúrræði. Þá bendir kærandi á að í þeim tilvikum sem stjórnvöld séu völd að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Taka skuli tillit til ýmissa þátta við matið, s.s. fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar og möguleika á vinnu og menntun. Kærandi kvaðst ekki getað búið annars staðar í heimaríki og verið öruggur þar sem einstaklingum af [...] uppruna sé mismunað í landinu öllu. Með hliðsjón af atvikum í máli kæranda telji hann að krafa um flutning innanlands sé hvorki raunhæf né sanngjörn.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ljósriti af [...] ökuskírteini. Var það mat stofnunarinnar að með tilliti til ljósrits af ökuskírteini kæranda og trúverðugs framburðar hans að kærandi hafi leitt líkur að því að hann sé frá [...]. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að fallast á mat Útlendingastofnunar og er því gengið út frá því að kærandi sé [...] ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni hans óljóst.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
• [...]
[...].
Í ofangreindum gögnum kemur fram að í kjölfar stríðsins í [...] árið [...] hafi fjöldi [...] flúið yfir á [...]. Flestir þessara flóttamanna og afkomendur þeirra búi enn í ríkjunum þar sem þeir hafi fyrst sótt sér skjól. [...] flóttamenn í [...] hafi fengið [...] ríkisborgararétt utan sumra sem hafi komið frá [...] árið [...]. [...] búsettir á [...] hafi síðan misst [...] ríkisborgararétt sinn þegar [...] ríkið hafi misst yfirráð á svæðinu árið [...]. Þrátt fyrir það noti sumir [...] á svæðinu enn [...] vegabréf. [...] yfirvöld hafi á árunum [...] svipt fjölda fólks af [...] uppruna búsettum í ríkinu ríkisborgararétti sínum. Ríkisfangssviptingarnar hafi verið handahófskenndar en allir sem hafi verið sviptir virðist hafa verið flóttamenn sem eigi ættir að rekja til [...]. Þeir sem hafi verið sviptir ríkisborgarétti hafi haldið vegabréfum sínum þar til þau hafi runnið út en hafi ekki átt kost á endurnýjun. Hins vegar geti þeir einstaklingar fengið grænt kort og [...] vegabréf án svonefnds þjóðernisnúmers. Samkvæmt skýrslu LandInfo frá árinu [...] hafi nokkrir[...] sem komi upprunalega frá [...] þurft að þola sviptingu ríkisborgararéttar á síðustu árum fyrir útgáfu skýrslunnar. Í skýrslu sömu stofnunar frá árinu [...] kemur fram að [...] mannréttindasamtök hafi gagnrýnt sviptingarnar og sett hafi verið á fót nefnd í [...] í því skyni að endurskoða mál þeirra sem hafi verið gert að sæta sviptingu ríkisborgararéttar að ósekju. Hafi einhverjir einstaklingar fengið aftur ríkisborgararétt sinn í kjölfarið en þó ekki allir. Framkvæmdin virðist hafa verið lögð af og ekki sé vitað um nýleg dæmi slíkra sviptinga fyrir utan sviptingu ríkisborgarréttar nokkurra háttsettra [...] embættismanna. Rétturinn til ríkisborgararéttar erfist í gegnum föður en ekki móður sem leiði til þess að börn [...] kvenna sem giftar séu erlendum ríkisborgurum fái ekki sjálfkrafa [...] ríkisborgararétt.
[...]. Samkvæmt innlendum og alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum rannsaki stjórnvöld sjaldan ásakanir um misferli eða spillingu innan lögreglunnar og í þeim tilvikum sem slíkar ásakanir séu rannsakaðar sé sakfellt í fáum málum og lítið sem ekkert gagnsæi varðandi rannsókn og refsingar í slíkum málum. Refsileysi sé útbreitt vandamál í ríkinu en íbúar landsins geti sent inn kvartanir vegna misferlis lögreglu eða spillingar til skrifstofu sem heyri undir skrifstofu almannaöryggis og annist mannréttinda- og gagnsæismál (e. [...]) eða til saksóknara. Þá sé hægt að tilkynna misferli af hálfu héraðslögreglu beint til skrifstofu mannréttinda og gagnsæis. Yfirmaður í leyniþjónustunni taki á móti kvörtunum gegn embættinu og beini þeim áfram til starfsfólks embættisins til rannsóknar. Íbúar landsins geti einnig sent inn kvartanir varðandi brot af hálfu starfsfólks skrifstofu almannaöryggis, héraðslögreglu og leyniþjónustunnar til mannréttindaráðs ríkisins (e. National Center for Human Rights), nokkurra frjálsra mannréttindasamtaka og ríkissaksóknara. Sérstök deild innan skrifstofu almannaöryggis sjái um að rannsaka ásakanir um spillingu innan lögreglu. Stofnunin rétti yfir starfsfólki sínu fyrir eigin dómstólunum, dómurum og saksóknurum. Stjórnvöld hafi ráðið ríkissaksóknara til starfa hjá þessum dómstólum til að bregðast við athugasemdum mannréttindasamtaka. Starfsfólki skrifstofu almannaöryggis beri skylda til að fara á árlegt námskeið varðandi mannréttindi og einnig sé lögboðið að nýir embættismenn undirgangist slíka þjálfun. Árið 2017 hafi nokkur tilvik verið tilkynnt um ofbeitingu valds af hálfu löggæslunnar, refsileysi og tilvik þar sem ekki hafi náðst að verja mótmælendur gegn ofbeldi.
Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár ríkisins skuli dómarar vera sjálfstæðir og skuli ekki lúta öðru valdi en lögunum í störfum sínum. Þá kemur einnig fram að dómstólar skuli vera aðgengilegir öllum, óháð ríkisfangi eða uppruna, auk þess sem ýmis mannréttindi séu tryggð í stjórnarskrá. Samkvæmt skýrslu [...] ríkisins til Sameinuðu þjóðanna varðandi afnám allrar mismununar á grundvelli kynþáttar er slík mismunun refsiverð samkvæmt lögum ríkisins. [...] sé aðili að fjölda alþjóðlegra mannréttindasamninga og sé vernd mannréttinda í forgangi í [...] löggjöf og réttarkerfinu. Þá geti íbúar landsins farið með einkaréttarlegar deilur fyrir dómstóla með því að skila inn greinargerð til dómstóla og greiða 3% af umbeðinni upphæð. Sé dæmt stefnanda í hag verði stefndi að greiða þá upphæð. Ríkið hefur þó verið gagnrýnt af nefndum sameinuðu þjóðanna fyrir að hafa ekki innleitt mannréttindasamninga á fullnægjandi hátt í landslög og tryggja þannig ekki fullnægjandi vernd gegn mismunun.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að fjórir hópar [...] búi í [...] og hafi margir þeirra fyrir mismunun. [...] sem hafi flust til [...] og [...] þegar hann hafi verið undir stjórn [...] eftir stríðið árið [...] hafi fengið fullgildan ríkisborgararétt auk þeirra sem hafi flutt til landsins eftir stríðið árið [...] og hafi ekki haft dvalarrétt á [...]. Þeir sem hafi haft dvalarrétt á [...] eftir [...] hafi ekki verið gjaldgengir fyrir fullum ríkisborgararétti en hafi getað fengið tímabundin ferðaskilríki án þjóðernisnúmers svo lengi sem þeir hefðu ekki einnig [...] ferðaskilríki. Framangreindir einstaklingar hafi aðgang að hluta þjónustu stjórnvalda en þurfi að greiða sömu gjöld og þeir sem hafi ekki ríkisborgararétt á sjúkrahúsum, menntastofnunum og hjá öðrum opinberum stofnunum. Einstaklingar af [...] uppruna eigi fáa málsvara á þingi, hjá stjórnvöldum og hernum auk þess sem fáir þeirra hljóti inngöngu í ríkisháskóla. Þá hafi þeir takmarkaðan aðgang að námsstyrkjum. Einstaklingar af [...] uppruna eigi þó marga málsvara í einkageiranum. Af gögnum má ráða að stjórnvöld í heimaríki kæranda séu að gera umbætur á mannréttindavernd í ríkinu þ. á m. vernd þeirra sem séu af öðrum uppruna en [...]. Ríkið hafi m.a. sett sér, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, mannréttindaáætlun fyrir tímabilið [...] og hafi um þriðjungi þeirrar áætlunar nú þegar verið framfylgt. Hafi þessar umbætur m.a. falist í að hegningarlög, lög um saka- og einkamál hafi verið uppfærð með það að marki að tryggja mannréttindi allra óháð uppruna. Þá hafi verið tekið til aðgerða til þess að sporna við kynþáttarhatri innan stofnana sem hafi m.a. falist í námskeiðum á vegum dómsmálaráðuneytisins og [...] dómstóla fyrir lögregluþjóna og starfsmenn dómstólanna. Viðfangsefni námskeiðanna hafi m.a. verið fræðsla um hegningarlög, mannréttindi, valdeflingu kvenna og hlutverk dómara í því að tryggja einstaklingum sanngjarna og réttláta málsmeðferð. Þá hafi ríkið tekið til ráðstafana til að auka hlut einstaklinga af [...] uppruna í stjórnmálum með góðum árangri í þéttbýlum en erfiðlega hafi gengið að auka hlut þeirra í stjórnum á dreifbýlli svæðum. Þrátt fyrir að enn sé aðgangur einstaklinga af [...] uppruna takmarkaður að ákveðnum stofnunum verði ekki ráðið að þeir verði fyrir áreiti eða ofsóknum af hálfu lögreglu eða annarra stjórnvalda í ríkinu.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir ástæðu flótta síns á því að hann verði fyrir mismunun vegna [...] uppruna síns sem felist m.a. í takmörkuðu aðgengi að þjónustu ríkisins, hættu á að verða sviptur ríkisborgarétti sínu og áreiti af hálfu lögreglu. Þá eigi hann í útistöðum við fyrrum viðskiptafélaga sinn sem hafi ráðist á kæranda, brennt eigur hans og hótað honum. Kærandi kveðst ekki geta leitað aðstoðar lögreglu í heimaríki þar sem hún hafi ekki vilja til að vernda hann vegna [...] uppruna hans.
Samkvæmt þeim gögnum sem og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar eiga einstaklingar af [...] uppruna hættu á mismunun í heimaríki. Þessir einstaklingar hafi takmarkað aðgengi að ákveðinni þjónustu í ríkinu en standi hún þó til boða gegn endurgjaldi. Þá gagnrýnir kærandi lögreglu í heimaríki sínu og kveðst m.a. hafa verið stöðvaður af lögreglu að ósekju og bifreið hans gerð upptæk.
Gögn benda ekki til þess að kærandi eigi á hættu að verða fyrir sviptingu ríkisborgararéttar en samkvæmt þeim heimildum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa slíkar sviptingar síðasta áratuginn ekki beinst gegn almennum borgurum ríkisins, líkt og kæranda, heldur einna helst háttsettum [...] embættismönnum sem hafi hlotið [...] ríkisborgararétt, en ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að kærandi tilheyri þeim hópi.
Kærunefnd telur, með hliðsjón af skýrslum og öðrum gögnum málsins, að sú mismunum sem kærandi kann að verða fyrir á grundvelli [...] uppruna síns nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. tekur til.
Þá kveðst kærandi enn fremur ekki geta leitað aðstoðar lögreglu vegna áreitis sem hann verði fyrir af hálfu fyrrum viðskiptafélaga síns. Samkvæmt heimildum hefur [...] á undanförnum árum brugðist við athugasemdum mannréttindasamtaka og gert umbætur á réttarkerfi sínu. Þá sé til staðar kerfi hjá yfirvöldum og mannréttindasamtökum sem hægt sé að leggja inn kvartanir verði aðili fyrir misferli af hálfu opinberra starfsmanna. Kærunefnd telur enn fremur að gögn um heimaríki kæranda bendi til þess kærandi geti leitað til dómstóla eða annarra yfirvalda í heimaríki og fengið úrlausn sinna mála vegna þeirra deilna sem hann kveðst eiga í við ofangreindan aðila. Af þessu leiðir að ekki hefur verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem kunna að fela í sér áreiti eða ofsóknir. Þá er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að uppruni kæranda leiði til þess að hann eigi takmarkaðri aðgang að slíkri vernd. Þá má ráða af gögnum að vilji sé hjá stjórnvöldum í heimaríki kæranda til að sporna gegn mismunun í garð minnihlutahópa og auka mannréttindavernd í ríkinu.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.
Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi hefur greint frá erfiðum félagslegum aðstæðum í heimaríki vegna þeirrar mismununar sem hann verði fyrir vegna uppruna síns. Líkt og kærunefnd hefur fjallað um að ofan er það mat nefndarinnar að kærandi geti fengið aðstoð yfirvalda vegna vandamála sinna í heimaríki.
Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en hann kvaðst jafnframt í viðtali við Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 3. apríl 2017 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Verður kæranda vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafi hann ekki getað sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar.
Kærandi er ungur maður við góða heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir