Mál nr. 3/1994
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 3/1994
A
gegn
Seðlabanka Íslands
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 27. maí 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
MÁLAVEXTIR
Með bréfi dags. 14. febrúar 1994 óskaði A, sérfræðingur hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun bankastjórnar á að greiða henni laun samkvæmt sama launaflokki og tilteknir aðrir sérfræðingar, karlar, hjá bankanum bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Forsvarsmönnum Seðlabankans var kynnt erindið og óskað eftir afstöðu þeirra, m.a. staðfestingar á launaflokkaákvörðun og ástæðum hennar. Á fund nefndarinnar mættu A, kærandi málsins og B, forstöðumaður lögfræðideildar Seðlabankans.
A hóf störf hjá Seðlabanka Íslands í febrúar 1989 sem sérfræðingur í bankaeftirliti bankans. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún tekur laun samkvæmt launaflokki 151 í kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna og samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða. Í sömu deild og hún starfar annar viðskiptafræðingur, C, við sambærileg störf. Hann tekur laun samkvæmt launaflokki 152. Upplýst er einnig að þrír aðrir sérfræðingar hjá bankanum sem A ber sig saman við, taka laun samkvæmt sama launaflokki. Samkvæmt upplýsingum forstöðumanns lögfræðideildar bankans metur bankastjórn laun starfsmanna tvisvar á ári. Við það mat virðist skipta máli hvort forstöðumaður viðkomandi deildar mælir með hækkun eða ekki. Engar aðrar reglur liggja fyrir um framkvæmd þessa mats. Forstöðumaður bankaeftirlitsins mælti með því á miðju ári 1993 að laun A yrðu hækkuð í launaflokk 152. Ekki varð af þeirri hækkun. Þar sem fyrir lá að forstöðumaðurinn hafði lofað A launahækkun, var henni í lok ársins 1993 bættur launamunurinn á milli launaflokkanna. Þegar umbeðinni launahækkun var á ný synjað um áramót 1993/1994, lagði A fram erindi sitt fyrir kærunefnd. A hefur frá áramótum fengið greidda ákveðinn fjölda yfirvinnutíma. Dagvinnulaun hennar eru því þau sömu sem hún fengi ef hún tæki laun samkvæmt launaflokk 152. Aðrar launagreiðslur svo sem yfirvinna og orlof miðast hins vegar við launaflokk 151.
A leggur áherslu á að hún og C vinni sömu störf hjá Seðlabankanum og að menntun þeirra sé hin sama. Hún telji því engin rök fyrir því að hún sé lægra launuð en hann. Vissulega sé hann með lengri starfsaldur en hún hafi hins vegar starfað hjá bankanum í rúm fimm ár og hljóti því að hafa aflað sér nægilegrar starfsþekkingar til að réttlætanlegt sé að hún hækki um flokk. Auk þess sé sérstöku starfsaldursálagi á laun ætlað að koma til móts við starfsaldur starfsmanna. A segir að allt frá því að hún hóf störf hjá bankanum hafi laun hennar og þriggja tilgreindra sérfræðinga fylgst að. Þeir hafi fengið umrædda flokkahækkun þegar þeir voru komnir með svipaðan eða jafnvel styttri starfstíma hjá bankanum en hún hafði þegar hún setti sína beiðni fram. Hún hljóti að eiga kröfu til sömu hækkunar. A segist eingöngu miða sig við þessa þrjá menn um það eftir hve langan starfstíma hún telji sig eiga rétt á að fá hækkunina. Um rökin fyrir þeirri launaflokkaröðun vísar hún hins vegar til þess að hún og C vinni sömu störf og beri því lögum samkvæmt sömu laun.
Forstöðumaður lögfræðideildar Seðlabankans bendir að C hafi mun lengri starfstíma hjá bankanum en A eða um 18 ár. Starfstími hans sé það langur að starfsaldursálag á laun hans sé í hámarki. Starfstími A sé hins vegar mun styttri og hún ekki komin með hæsta starfsaldursálag. Einhver launamunur sé því réttlætanlegur og ekki ósanngjarnt að jöfnuður náist fyrst þegar hún sé komin með hæsta álag. Lögð er áhersla á að bankastjórn ákveði hverju sinni hvenær starfsmenn fái launaflokkahækkanir. Rök bankastjórnar fyrir því að hækka tvo þessara þriggja sérfræðinga í launaflokk 152 frá 1. janúar 1993 og einn þeirra í sama launaflokk frá 1. janúar 1992 séu þau að þeir tveir fyrrgreindu hafi lokið mastersnámi en sá þriðji verið í starfsþjálfun erlendis. Með þeim yfirvinnutímum sem A fái greidda mánaðarlega, njóti hún í reynd sambærilegra kjara og þeir. Sú ákvörðun hafi verið tekin til að gera orð yfirmanns hennar ekki ómerk.
NIÐURSTAÐA
Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991, er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Vegna þessa eru lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur og má þar nefna ákvæði 5. gr. laganna sem kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Samkvæmt 4. gr. sömu laga skulu konum og körlum greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir starf, ráðningu, setningu eða skipun í starf. Telji einhver rétt á sér brotinn og vísi máli sínu til kærunefndar jafnréttismála skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.
Samkvæmt framangreindu er það atvinnurekanda að sýna fram á ekki sé um að ræða mismunun vegna kynferðis, t.d. við ákvörðun launa. Nauðsynlegt er því að launakerfi séu skýr og röðun í launaflokka samræmd og rökstudd. Í máli þessu er það bankastjórn Seðlabankans sem ákveður hverju sinni hvenær starfsmenn færast á milli launaflokka. Upplýst er að gerð sé krafa um meðmæli yfirmanns en að öðru leyti sé ákvörðunin alfarið háð mati bankastjórnar.
Kærunefnd telur að þessa framkvæmd ekki í samræmi við tilgang og markmið jafnréttislaga og því sé full ástæða til að bankastjórn seti viðmiðunarreglur hér að lútandi þar sem án slíkra reglna er erfiðara en ella að staðreyna hvort ákvæða jafnréttislaga sé gætt.
Óumdeilt er að kærandi og sá samstarfsmaður sem hún ber sig saman við vinna sömu störf og að honum er skipað launaflokki hærra en hún. Af hálfu kæranda er því haldið fram að þar sem þrír tilgreindir sérfræðingar hafi fengið umrædda hækkun þegar þeir höfðu starfað skemur en hún og þar sem að fyrir liggi að yfirmaður hennar mælti með hækkun hennar, þá hljóti hún að uppfylla skilyrði um launaflokkahækkun. Þessari skoðun hafna forsvarsmenn bankans.
Kærunefnd telur það ekki fara í bága við ákvæði jafnréttislaga að við röðun í launaflokka eða ákvörðun um færslu milli launaflokka sé mið tekið af menntun starfsmannsins og að t.d. mastersnám réttlæti launaflokkahækkun fyrr. Ekki verður því fallist á það með A að sú ákvörðun bankastjórnar að hækka laun tveggja sérfræðinga með meiri menntun þegar þeir voru komnir með svipaðan starfsaldur og hún nú hefur, veiti henni rétt til sömu hækkunar. Hins vegar getur nefndin ekki fallist á að starfsþjálfun erlendis á vegum bankans réttlæti launaflokkahækkun fyrr en ella. Verður því að telja að A eigi ekki kröfu til þessa launaflokks fyrr en hún hefur náð sama starfsaldri og sá sérfræðingur hafði þegar hann fékk umrædda hækkun.
Ákvæði jafnréttislaga um sömu laun til kvenna og karla fyrir sömu eða sambærileg og jafnverðmæt störf felur í sér þá skyldu atvinnurekanda að laun starfsmanna séu ákvörðuð með sama hætti óháð kynferði. Nefndin telur þó að túlka beri lögin svo að atvinnurekandi hafi að vissu marki svigrúm til huglægs mats við ákvörðun launa. Gildir þetta ekki síst þar sem ákvæði kjarasamninga gera ráð fyrir nokkru svigrúmi við röðun starfsmanna eins og er í kjarasamningi SÍB og samningarnefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða. Slíkt mat má þó aldrei leiða til launamismununar kynja.
Með vísan til þess sem að ofan greinir telur kærunefnd jafnréttismála að synjun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um að skipa A í launaflokk 152 brjóti ekki gegn ákvæðum jafnréttislaga, lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Margrét Heinreksdóttir vék sæti í máli þessu og tók sæti hennar Þorsteinn Eggertsson.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson
Þorsteinn Eggertsson