Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 6/1994.

A
gegn
landbúnaðarráðherra

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 17. nóvember 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 26. mars 1994 óskaði A héraðsdýralæknir eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort skipun í stöðu héraðsdýralæknis Mýrasýsluumdæmis bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá landbúnaðarráðherra um menntun og starfsreynslu þess sem var ráðinn, svo og um aðra sérstaka hæfileika hans umfram kæranda. Svarbréf landbúnaðarráðherra er dags. 5. maí 1994. Í málinu liggur m.a. fyrir álit hæfnisnefndar um umsækjendur sbr. 1. nr. 61/1985 um dýralækna, sbr. 1. nr. 54/1989 og starfsreglur hæfnisnefndar um stöður dýralækna útgefnar af landbúnaðarráðuneytinu 28. júlí 1989.

Embætti héraðsdýralæknis Mýrasýsluumdæmis var auglýst laust til umsóknar í október 1993. Umsækjendur voru ellefu. Skv. dýralæknalögum mat hæfnisnefnd umsækjendur og gerði tillögu til ráðherra um röð umsækjenda, sbr. 5. gr. 1. 77/1981 með síðari breytingum. B héraðsdýralæknir í Snæfellsnessumdæmi var metinn hæfastur. Fljótlega fór af stað undirskriftasöfnun á meðal bænda til stuðnings einum umsækjanda, C. Nokkur blaðaskrif urðu af þessu tilefni. Í desember 1993 setti landbúnaðarráðherra B í embættið. Hann sagði starfinu lausu í byrjun árs 1994 og mun ástæðan skv. blaðagreinum hafa verið mótmæli bænda í héraðinu við veitingunni. Staðan var þá auglýst að nýju og aftur sóttu ellefu manns um, þ.á.m. A, kærandi þessa máls. Hæfnisnefnd mat hæfni umsækjenda og voru A og einn annar umsækjandi metin hæfust. Sá dró umsókn sína til baka. C var raðað í fjórða sæti. Þann 21. mars 1994 var C skipaður í stöðu héraðsdýralæknis í Mýrasýsluumdæmi.

A lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri vorið 1969 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina vorið 1973. Hún lauk dýralæknisprófi frá Dýralæknaháskólanum í Kaupmannahöfn í febrúar 1981 og mastersnámi í geislunarfræðum dýralækninga frá Sydney háskóla í Ástralíu í ágúst 1993. Hún hefur sótt margs konar námskeið bæði hér heima og erlendis og hefur m.a. réttindi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi. Á árunum 1981 til 1983 starfaði A við ýmis tímabundin verkefni sem dýralæknir heima og erlendis, m.a. leysti hún af héraðsdýralækna og frá nóvember 1982 til júní 1983 starfaði hún hjá landbúnaðarráðuneyti Nýja Sjálands við eftirlit á sláturhúsi. Hún var skipaður héraðsdýralæknir Strandaumdæmis 1983 til 1989 og heilbrigðisfulltrúi á sama stað frá 1985. Á árunum 1989 og 1990 starfaði hún sem héraðsdýralæknir Dalaumdæmis og síðar Barðastrandaumdæmis. Frá júní 1991 hefur hún verið héraðsdýralæknir í Þingeyjarþingumdæmi vestra.

C lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1973 og dýralæknisprófi frá Dýralæknaháskólanum í Hannover í Þýskalandi í september 1982. Hann hefur sótt margs konar námskeið hér á landi og hefur m.a. réttindi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi. Frá september 1982 til júní 1983 starfaði hann sem dýralæknir við ýmis tímabundin verkefni í Hannover, m.a. hjá sjálfstætt starfandi dýralækni um sex mánaða skeið. Frá júní 1983 hefur C starfað sjálfstætt en í samstarfi við héraðsdýralækna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu við almennar dýralækningar og heilbrigðiseftirlit. Á árunum 1985 til 1993 stundaði hann kennslu í svína- og alifuglasjúkdómum við bændaskólann á Hvanneyri. Hann hefur gefið út kennslurit um svína- og alifuglasjúkdóma og um kanínurækt og kanínusjúkdóma.

Í málinu liggja fyrir leiðbeinandi reglur fyrir hæfnisnefnd útgefnar af landbúnaðarráðuneytinu 28. júlí 1989. Þar segir að umsækjendur um stöðu héraðsdýralækna skuli hafa lokið prófi í dýralækningum sem uppfylli þær kröfur sem íslensk lög gera ráð fyrir og hafa tilskilið leyfi til að stunda dýralækningar hér á landi. Reglumar byggja að öðru leyti á því að umsækjendum eru gefnir punktar fyrir:

  1. framhaldsmenntun/endurmenntun sem gefur mest 10 punkta;

  2. starfsreynslu við almennar dýralækningar sem gefur mismikið eftir umdæmum og því hvort starfað hafi verið erlendis;

  3. ábyrgð í starfi þ.m.t. fyrri störf sem héraðsdýralæknir sem gefur 3 punkta á ári og/eða við önnur dýralæknastörf sem gefur 1,5 punkta á ári;

  4. félagsstörf s.s. í þágu stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga, sem gefur allt að 5 punktum;

  5. önnur störf almenns eðlis, hafi umsækjandi t.d. skarað fram úr, flýtt fyrir
    framþróun eða bætt starfsháttu á sínu sviði. Hið sama á við um kennslu,
    fræðslustörf og ritstörf. Gefur mest 20 punkta.

A leggur áherslu á að hún sé hæfari umsækjandi en C. Hún hafi bæði meiri menntun, lengri starfsferil, starfsreynslu sem heilbrigðisfulltrúi og hafi starfað sem héraðsdýralæknir í áratug. Vissulega hafi C réttindi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi en hann hafi aldrei við það starfað. Hún og einn annar umsækjandi sem hafi dregið umsókn sína til baka, hafi verið metin hæfust samkvæmt starfsreglum hæfnisnefndar. Landbúnaðarráðherra hafi fram til þessa ætíð farið eftir tillögu hæfnisnefndar en nú bregði svo við að skipaður sé í stöðuna annar umsækjandi. Hún fullyrðir að munur á punktum hennar og C sé meiri en verið hafi milli efstu umsækjenda um þær stöður sem veittar hafa verið á undanförnum árum. Við mat á vægi þeirra undirskriftasafnana sem fram hafi farið í héraðinu á meðal bænda, bendir A á að hafa beri í huga að bændur geti leitað til hvaða dýralæknis sem er en séu ekki bundnir af að leita til héraðsdýralæknis. Starfsskyldur héraðsdýralæknis séu að sjá um heilbrigðiseftirlit og kjötskoðun í sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum, eftirlit með mjólkurframleiðslu og fjósum, sinna dýraverndunarmálum og hafa eftirlit með búfjársjúkdómum og smitsjúkdómum. Almenn dýralæknastörf séu ekki aðalstarfsskyldan.

Í bréfi landbúnaðarráðherra dags. 5. maí 1994 er ákvörðunin rökstudd svo:

„Staða héraðsdýralæknis í Mýrasýsluumdæmi var auglýst laus til umsóknar í byrjun október 1993 og sóttu ellefu dýralæknar um embættið, þar á meðal C, sem starfað hafði í umdæminu um tíu ára skeið. Ráðuneytinu barst fjöldi tilmæla frá íbúum í héraðinu um að C yrði skipaður. M.a. bárust undirskriftir velflestra bænda þar sem lýst var fyllsta trausti við störf hans og þess eindregið óskað að hann fengi stöðuna. Þrátt fyrir það var B héraðsdýralækni í Stykkishólmi veitt staðan, en hann hafði langflest stig skv. mati hæfnisnefndar. Skömmu eftir þá veitingu dró hann sig til baka þar sem hann taldi að bændur í héraðinu væru sér andsnúnir og hann myndi ekki fá eðlilegan starfsfrið í umdæminu. Staðan var auglýst á ný og þá ítrekuðu bændur óskir sínar og skýrðu ráðherra frá því að þeir væru reiðubúnir til að endurtaka undirskriftir sínar ef á þyrfti að halda, sem sýnir sterkan vilja þeirra til að fá að njóta þjónustu C og var bersýnilegt að þeir létu ekki segja sér fyrir verkum. Þegar veita skyldi stöðuna var talið að farsælasta lausn málsins væri að fara að vilja heimamanna og skipa C í embættið. Sú ákvörðun að taka tillit til vilja meginþorra bænda á svæðinu var að mati ráðuneytisins best til þess fallin að skapa nauðsynlegan starfsfrið dýralæknis í umdæminu.“

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Til að ná því markmiði er sérstök áhersla lögð á að bæta þurfi stöðu kvenna, ekki síst á vinnumarkaði. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur og má nefna 5. gr. laganna sem kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Skv. 6. gr er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Telji einhver rétt á sér brotinn og vísar máli sínu til kærunefndar jafnréttismála, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Laus störf skulu standa opin jafnt konum sem körlum, sbr. 7. gr. Ef umsækjandi um starf er kona en það hefur verið veitt karli, skal kærunefnd sé þess óskað, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti nefndinni upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið. Sama rétt á karl, sem er umsækjandi um starf sem veitt hefur verið konu, sbr. 8. gr. jafnréttislaganna.

Kærunefnd telur það meginreglu að ráða skuli þann umsækjanda sem hæfastur er. Í þeim tilvikum þar sem tveir eða fleiri umsækjendur teljast jafn hæfir, skuli ráða umsækjanda af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Öðru vísi verði tilgangi jafnréttislaganna ekki náð, sbr. til hliðsjónar 1. gr. jafnréttislaga og dóm Hæstaréttar uppkveðinn 2. desember 1993. Fyrir liggur að 26 héraðsdýralæknar starfa f landinu, þar af 3 konur.

Við mat á hæfni ber að leggja til grundvallar þær viðmiðanir sem fram koma í 8. gr. laganna, þ.e. menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sem sá hefur til að bera sem ráðinn er. Í þessu máli liggja jafnframt fyrir viðmiðunarreglur fyrir hæfnisnefnd vegna mats á umsækjendum um stöðu héraðsdýralækna. A var talin hæfust umsækjenda að mati hæfnisnefndar skv. þeim starfsreglum sem landbúnaðarráðuneytið hefur sett nefndinni. Þær reglur eru ekki bindandi en telja verður að landbúnaðarráðherra verði að færa fyrir því skýr rök ef hann gengur gegn niðurstöðu hæfnisnefndar. Rök hans eru að bændur og aðrir íbúar héraðsins hafi lýst yfir eindregnum vilja sínum til að fá C til starfa með því að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við hann og að rétt hafi þótt að koma til móts við þessar eindregnu óskir til að skapa starfsfrið í umdæminu.

Ekki verður fallist á að undirskriftasöfnun veiti heimild til að víkja frá þeirri meginreglu að ráða skuli hæfasta umsækjandann eða frá því markmiði jafnréttislaga að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Ekki verður heldur talið að stuðningsyfirlýsingar heimamanna sem þekkja til starfa eins umsækjanda en ekki annarra verði taldar rök fyrir sérstökum hæfileikum, sbr. 8. gr. jafnréttislaga. Á það ber og að líta að íbúum er heimilt að óska þjónustu hvers þess dýralæknis er þeir sjálfir kjósa.

Þegar borin er saman menntun og starfsreynsla þessara tveggja umsækjenda og hliðsjón höfð af niðurstöðu hæfnisnefndar, verður að telja að A hafi verið hæfari til starfsins, enda hefur ekki verið sýnt fram á sérstaka hæfileika C umfram hana.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur kærunefnd jafnréttismála að landbúnaðarráðherra hafi með skipun C í stöðu héraðsdýralæknis Mýrasýsluumdæmis brotið gegn 2. tl. 6. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þeim tilmælum er beint til landbúnaðarráðherra að fundin verði lausn sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta